Framboðsyfirlýsing

Ég tilkynni hér með framboð mitt í prófkjöri Pírata á höfuðborgarsvæðinu og sækist eftir 1. – 3. sæti. Ég gekk í Pírata því ég trúi á að gagnsæi í stjórnsýslunni og að óheftur aðgangur að upplýsingum muni bæta ákvarðanatöku við lagasetningu. Við verðum að taka valdið frá hagsmunaaðilum og færa það til almennings.

Ég er Pírati því að ég er fyrir löngu búin að fá nóg af spillingu og vanhæfi innan stjórnkerfisins. Meinbugir þess koma í veg fyrir að Íslendingar geti notið gæða landsins til heilla fyrir land og þjóð. Auðlindum er misskipt og  sprettur misskiptingin upp úr lagasetningu á Alþingi sem almenningur fær aldrei að hafa nokkra aðkomu að fyrr en það er orðið of seint. Ákvarðanir eru teknar sem varða landsmenn alla algjörlega án aðkomu þeirra og áður en við vitum af er sprottin upp mengandi stóriðja í hverjum kima og fjármunir færast í auknu mæli frá hinum efnaminni til þeirra efnameiri. Grunnurinn að misskiptingunni liggur í spilltu kerfi sem hefur fengið að viðgangast hér alltof lengi. Þessu vil ég eiga þátt í að breyta í þágu okkar allra.

Ég hef nú þegar víðtæka reynslu af starfi með Pírötum. Ég gekk í félagið 2015 og var kosin í framkvæmdaráð Pírata sama ár. Ég hef tekið virkan þátt í innra starfi flokksins. Ég sat í úrskurðarnefnd, hef skipulagt marga viðburði, er varaþingkona í Reykjavíkurkjördæmi Suður og var nýlega kosin formaður í stjórn Pírata í Reykjavík. Auk þess var ég einn fjögurra einstaklinga sem voru skipuð í kosningastjórn Pírata fyrir síðustu Alþingiskosningar.

Við göngum ekki bara til kosninga nú vegna nýlegs hneykslis varðandi uppreist æru barnaníðinga. Við göngum til kosninga vegna landlægrar spillingar sem við viljum ekki lengur að taka þátt í. Mig langar að þjóna ykkur og þjóðinni allri á Alþingi. Við Píratar höfum sýnt að við getum, með aðstoð kjósenda, upplýst spillinguna og upprætt hana.