Að túlka vilja þjóðar

Afhverju flykktist þjóðin á Austurvöll í apríl 2016? Það virðast ekki allir vera sammála um það.

Ólafur Ragnar Grímsson túlkaði það sem svo að það væri óvissa í samfélaginu og að hann þyrfti að bjóða sig aftur fram.

Sjálfstæðisflokkurinn túlkaði það sem svo að þjóðin treysti ríkisstjórninni til þess að fara með völd í nokkra mánuði í viðbót. Í stað kosninga í maí yrðu þær í október.

Eftir því sem ég man best fannst þáverandi forsætisráðherra þetta bara vera svolítið skemmtilegt. Þjóðin bara með einhverja stæla og óþarfi að taka mark á fólkinu.

Það er svolítið merkilegt að svona margar ólíkar túlkanir hafi sprottið upp af atburði sem var svo einfaldur. Eins og ég man þetta, þá litu Panamaskjölin dagsins ljós. Í þeim voru upplýsingar um íslenska einstaklinga sem höfðu skotið eignum undan í skattaskjól. Skattaskjól felur í sér að aðili borgar ekki skatta né gjöld af eignum sínum. Grunnurinn í því að halda uppi samfélagi, er að það gefa allir af tekjum sínum í sameiginlega sjóði. Það er heldur bagalegt ef einstaklingar, sem eiga að sjá um að reka íslenskt samfélag, finni leiðir til þess að borga ekki til þess.

Ástæðan fyrir mótmælunum á Austurvelli var því ósköp einföld. Við treystum ekki ráðamönnum þjóðarinnar til að fara með málefni okkar lengur. Við vildum að hlutaðeigandi aðilar tækju ábyrgð. Engin tók neina ábyrgð, frekar en fyrri daginn. Til að friðþægja okkur var kosningum lofað í október. Fyrirvarinn var að málefni ríkisstjórnarinnar hlytu brautgengi. Þetta myndi ég kalla hótun. Við eigum að vera þæg á meðan heilbrigðiskerfið er einkavætt, bætur lækkaðar, auðlindir settar í hendurnar á vinum, háskólinn fjársveltur, jafnræði til náms skert og hælisleitendum vísað úr landi.

Það sem toppar þetta allt saman er svo að Sigmundur Davíð kemur úr fríi og segir að það sé vitleysa að hafa kosningar í haust og að hann hafi verið leiddur í gildru. Nennum við þessu í alvörunni? Ég er allavega orðin þreytt á þessari endalausu óvirðingu í garð þjóðarinnar.

Getum við hætt að reyna að túlka hvað þjóðin vildi í apríl og taka bara mark á henni? Við erum búin að vera þæg. Komið nú bara með þessa dagsetningu.

Takk Helgi!

Ég var hætt að fylgjast með því sem gerðist inni á þingi. Ég forðaðist að horfa á Kastljósið og aðra fréttaþætti. Umræðuhefðin eftir hrunið var leiðinleg og mér fannst enginn vera að axla ábyrgð á neinu. Það var ríkisstjórnin fyrir hrun að kenna að hrunið hefði orðið, ríkisstjórnin eftir það klúðraði öllu og núverandi ríkisstjórn var víst að “vinda ofan af vitleysu” síðustu ríkisstjórnar.

Í mars 2015 var Ísland allt í einu ekki lengur í viðræðum um aðild aða ESB. Gunnar Bragi hafði skrifað bréf sem enginn í Brussel vildi kannast við. Þarna tóku nokkrir aðilar sér það vald í hendur að ákvarða framtíð Íslands. Ljóst var að þetta var ákvörðun sem hefði átt að leggja fyrir þingið og í kjölfarið fyrir þjóðina. Stjórnarliðar virtust ekki skilja grundvallarhugmyndina á bakvið lýðræði. Í þeirra augum var nóg að fá “næstum því” meirihluta kosningu í Alþingiskosningum og að það gæfi þeim einhvers konar vald til þess að taka ákvarðanir fyrir heila þjóð.

En eitt gott kom þó út úr þessu öllu saman (fyrir mig allavega). Eitt kvöldið var Kastljós þáttur í sjónvarpinu þar sem Helgi Hrafn Gunnarsson var meðal gesta. Þar voru fjórir aðilar mættir. Umræðan snerist að mestu leyti um hvort við ættum að vera í ESB eða ekki. Allir kepptust við að koma sínum skoðunum að og lítil samræða var í gangi. Helgi Hrafn sat þarna og beið eftir því að fá orðið. Ég man vel að hann rétti upp hönd til þess að biðja um orðið frá þáttastjórnanda. Hann reyndi að útskýra á yfirvegaðan hátt afhverju þetta væri ekki lýðræðislegt og hvernig hefði betur mátt standa að þessu. Hann var ekki að reyna að troða skoðunum upp á neinn. Hann var einungis að útskýra hvernig það hefði mátt fara að þessu á lýðræðislegan hátt. Það væri ekki nokkurra að taka þessa ákvörðun, þetta væri stór ákvörðun sem þyrfti að ræða og fara með í gegnum tiltekna ferla.

Eftir þessa framkomu Helga í Kastljósi ákvað ég loksins að ganga til liðs við Pírata. Ég sá loksins út á hvað hugmyndafræði Pírata gekk út á. Upplýsta umræðu og gagnrýna hugsun.

Helgi Hrafn hefur nú ákveðið að gefa ekki kost á sér í prófkjöri Pírata. Fyrst varð ég leið þegar ég heyrði fréttirna. Svo áttaði ég mig á því að það verður frábært að fá hann inn í grasrótarstarf Pírata. Það er nefnilega þannig að hlutirnir gerast ekki endilega inn á Alþingi. Stjórnmálaflokkar eiga að vera lifandi eining sem veitir þjóðinni tækifæri á að vera í góðum samskiptum við þá sem sitja á þingi.

Ég þakka Helga Hrafni fyrir vel unnin störf, og fyrir að hafa verið svona kurteis og málefnalegur í Kastljósþættinum hér um árið. Það ýtti mér af stað í að taka þátt í starfi Pírata, sem hefur verið mér mjög lærdómsríkt.

Yarrr!

 

Hinn hauslausi her

Píratar hafa verið kallaðir “hauslaus her” þar sem það er enginn formaður sem segir þeim fyrir verkum. Ég tel reyndar að ástæðan fyrir því að fólk velur að ganga til liðs við Pírata, er að það hefur ekki áhuga á að hlýta kennivaldi einhvers eins einstaklings. Þó að Píratar séu ekki með formann hefur okkur tekist að byggja upp öflug stjórnmálasamtök þó að fjármagnið sé af skornum skammti. Ástæðuna tel ég vera að fólk er tilbúið til þess að taka að sér leiðtogahlutverk, án launa og titils.

Það er vissulega þægilegt að hafa einhvern einn einstakling efst í valdapýramídanum sem segir fólki fyrir verkum. Ég hef upplifað þreytu og pirring þegar hlutirnir þurfa að vera ræddir fram og til baka, og ég hef hugsað með mér að það væri þægilegt að hafa einhvern einn einstakling sem myndi bara segja hópnum hvað við ættum að gera. Lýðræði og gegnsæi er hins vegar ekki þægilegt. Það er erfitt og orkufrekt. Fólk er ósammála og fólk tjáir sig á mismunandi hátt.

Ég hef þurft að læra að hætta að dæma fólk frá fyrstu kynnum og hlusta á hvað það hefur að segja. Skólakerfið, vinnustaðir, samtök og flestar einingar eru byggðar upp á vissan hátt. Við eigum að hlusta á kennarann okkar, yfirmaðurinn segir okkur fyrir verkum og formaðurinn segir okkur hverjar skoðanir okkar eru. Að brjótast út úr þessu kerfi sem hefur verið haldið að okkur frá fæðingu er mjög erfitt.

Þegar ég byrjaði í Pírötum var ég alltaf að spyrja frá hverjum ég þyrfti að fá leyfi. Ég var hrædd um að troða einhverjum um tær og óttaðist að ég yrði áltin frek og dónaleg. Það var mjög frelsandi, en á sama tíma ógnvænlegt, þegar ég áttaði mig á því að ég þurfti ekki að spyrja um leyfi. Ég fór að framkvæma meira. Ef ég geri mistök þá læri ég af þeim.

Í þessum strúktur sem hefur verið byggður upp hjá Pírötum eru einstaklingar metnir að verðleikum sínum. Við fáum ekki titil í staðinn heldur vitneskjuna um það að við höfum látið eitthvað af okkur leiða. Þegar vel gengur fær maður hrós. Þegar illa gengur reynir hópurinn að finna lausn og komast að betri niðurstöðu. Þannig eflum við hvort annað í þróa hæfileika okkar. Ef einstaklingurinn fær að nýta hæfileika sína á uppbyggilegan hátt þá gerist eitthvað gott. Þjóðfélagsstaða, fæðingarstaður og silfurskeiðar skipta þar engu máli.

Ég er því ósammála að Píratar séu hauslaus her. Við erum hópur af hæfileikaríkum einstaklingum sem mynda saman eina sterka heild. Við þurfum ekki formann til að segja okkur fyrir verkum. Hópur af klárum einstaklingum hlýtur að komast að betri niðurstöðu, sem er til hagsældar fyrir stærri hóp af fólki, en hugmyndafræði sem fáir móta og færa svo öðrum á fati.

Hinn ómissandi forseti vor

Vald forseta Íslands samkvæmt stjórnarskrá Íslands er ekki mikið. Flestar gjörðir hans eru tengdar því að forsætisráðherra þurfi atbeina forseta til þess að til dæmis samþykkja þingrof. Í 26. gr stjórnarskrárinnar segir að ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp skal það lagt fyrir forseta Íslands til staðfestingar. Hann getur synjað því að skrifa undir þessi lög. Í tíð Ólafs Ragnars hefur sú venja skapast að ef hann fær nógu margar undirskriftir sendar heim til sín þá íhugar hann að neita að skrifa undir lög og senda þau í atkvæðagreiðslu. Gott og blessað. Hins vegar er það hvergi skilgreint hversu margar undirskriftir þetta eiga að vera eða hvernig framkvæmdin eigi yfirhöfuð að vera. Ólafur hefur því tekið sér það leyfi að túlka sjálfur hvenær hann telur „gjá milli þings og þjóðar“ vera til staðar. Og telur okkur trú um að hann sé eini aðilinn sem er fær til þess að meta þetta.

Það eru ýmsar greinar í stjórnarskránni um forseta Íslands sem eru óljósar. Þó segir í 11. gr stjórnarskrárinnar að forseti er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum öllum. Í 14. gr stjórnarskrárinnar segir svo að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Eðlilegast væri því að líta svo á að forseti er í raun valdlaus. Hann skrifar vissulega undir skjöl og ákveður hver fær stjórnarmyndunarvald, en þetta er ekki óheft vald sem hann á að nota að vild og er alltaf tengt því að ráðherra leggi eitthvað fyrir hann.

Ólafur Ragnar hefur upp á sitt einsdæmi tekið það verkefni að sér að túlka valdsvið forseta. Það er vissulega ekkert sem bannar það að forsetinn beiti sér, en það er mjög varhugavert að það sé ekki skilgreint neins staðar. Nú er sú staða komin upp að Ólafur hefur haft 20 ár til að móta embættið. Hann hefur því það í hendi sér að gefa í skyn að hann sé sá eini sem skilji forsetaembættið nægilega vel til að geta gegnt því. Hann telur fólki trú um að ef einhver annar myndi sitjast í stól hans þá myndi sá aðili ekki skilja þessa stjórnskipun. Auðvitað er mjög erfitt fyrir nýjan aðila að skilja stjórnskipan sem enginn hefur komið að því að móta nema einn maður.

Fyrst að Ólafur hefur lagt svona mikið á sig að túlka valdsvið forsetans, væri honum þá ekki í lófa lagið að túlka hvað er eðlilegt fyrir forseta að sitja lengi. Í öðrum lýðræðisríkjum eru tímamörk á hvað forseti má sitja lengi. Meira að segja í Bandaríkjunum er gert ráð fyrir að forseti megi bara sitja í tvö kjörtímabil. Þegar þjóðin þekkir ekki neitt annað en einn forseta sem telur okkur reglulega trú um að hann sé ómissandi þá spyr ég sjálfa mig: „Is this democracy in Iceland?“

Tár á hvarmi

Jæja. Um það bil tveir sólarhringir liðnir frá Kastljósþættinum um aflandsfélögin og mér líður eins og ég búi í sirkus eða martröð. Ég á erfitt með að ákveða mig. Ég vaknaði fyrir allar aldir á mánudeginum og var að „refresha“ fjölmiðla landsins (samt bara ruv.is) allan daginn og beið fregna af afsögn Sigmundar. Ég sá hann fyrir mér, með tár á hvarmi að biðjast afsökunar á þessu öllu saman og biðja þjóðarinnar afsökunar á hrokanum sem hann hefur sýnt síðustu daga. Hann væri jú bara mannlegur. ÞAÐ hefði verið frábært og kannski gefið Sigmundi færi á að hætta með einhverri vott af reisn.

Þingfundur hefst kl. 15. Sigmundur er mættur og lítur út eins og óþægur skólakrakki þar sem hann þarf að hafa sig allan við að sitja kjurr og fara ekki að skellihlæja. Hann teiknar myndir af Tortóla eða brennandi Íslandi (fólk er ekki sammála hvað myndirnar sýndu). Á meðan er Bjarni Ben fastur á flugvelli í Flórída og reynir eftir mesta mætti að redda sér heim til Íslands (eða var hann bara að golfa). Gegn og skynsamur maður hefði auðvitað verið kominn heim fyrir löngu síðan til þess að takast á við þetta, en leyfum honum að njóta vafans.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar koma einn af öðrum í pontu og segja álit sitt á málinu. Þetta er álitshnekkur fyrir Íslands, hrokafullt gagnvart þjóðinni og kominn tími til að blessaður forsætisráðherra segi af sér. Enn þá bíð ég spennt eftir því að hann komi í pontu með tár á hvarmi og segi af sér. En nei. Hann kemur í pontu og segir að þetta sé misskilingur, hann hafi aldrei átt peninga í skattaskjóli. Hann baðst vissulega afsökunar á því að hafa rokið út úr viðtali við sænskan fréttamann en að öðru leyti er þetta ekki vandamál. Þarna var ég alveg: WHAT?!? ER ÞETTA EITTHVAÐ GRÍN?!?! Þvílík vonbrigði eftir að hafa hangið á öllum hugsanlegum samfélagsmiðlum allan daginn og ekki náð að lesa neitt í refsirétti. En allt í lagi, á morgun, á morgun sér hann að sér.

Þriðjudagur. Ég fer beint í símann og leita að fréttum þess efnis að Sigmundur hafi sagt af sér. Ekkert. Fréttir um að forsetinn sé að koma heim. (ó fokk, hugsa ég, ætlar hann að bjóða sig aftur fram?). Forsætisráðherrann fer á fund forseta. Nú segir hann af sér, hugsa ég. Refsirétturinn fær að bíða á meðan ég horfi spennt á Ólaf koma einhverri langloku út úr sér um þjóðina og þingið og svo framvegis. Business as usual. Eftir nokkrar mínútur átta ég mig á því að Sigmundur er ekki enn þá búinn að segja af sér. Hann rýkur út í bíl eftir fundinn með forseta og segir fréttamönnum að skoða facebook síðuna sína. Hann vill ekki neina leynigesti í dag. Þeir hljóta að rjúfa þing fyrir kvöldmat, hugsa ég þá.

Ég bíð og bíð. Þá loksins, Sigmundur segir af sér. Þvílíkt anticlimax! Sigurðu Ingi á að vera nýr forsætisráðherra. Hann skilur ekki ensku! Ég reyni samt að púsla þessu saman í hausnum á mér, að allavega sé Sigmundur hættur og það á eftir að samþykkja Sigurð Inga sem forsætisráðherra. Ekki er öll von úti. Ég er farin að anda rólega. En nei, nokkrum tímum síðar kemur önnur tilkynning. Sigmundur er ekki hættur, heldur bara búinn að stíga niður af stóli forsætisráðherra í óákveðinn tíma.

Á þessum tímapunkti er mér farið að líða eins og Sigmundur Davíð sé að gera grín af mér. Og að hann vilji að ég nái ekki prófunum mínum í maí. Ég verð reið. Ég verð pirruð. Ég fer að hlæja. Ef markmið hans er að rugla okkur í ríminu, gera okkur óörugg með stöðu Íslands og sýna hversu hrokafullur hann getur í raun verið, þá er hann að ná markmiði sínu.

Ég skil í alvörunni ekki hvað er að gerast. Ég er búin að reyna að ná utan um þetta. Afhverju er hann að gera þetta svona? Hvað fær hann út úr þessu? Skilur hann ekki hver krafan er? Finnst honum gaman að sjá andlitið á sér í öllum erlendu fréttamiðlunum? Er planið bara að sitja storminn af sér og lofa svo 100% lánum fyrir næstu kosningar og ná aftur upp í 20% fylgið?

Gerðu þjóðinni þann greiða að koma hreint fram svo að við getum farið að einbeita okkur að dagsverkum okkar. Það er alveg kósí að sitja saman fyrir framan sjónvarpið og fylgjast með framvindu mála. En ég þarf að ná prófunum mínum!

Hvað nú?

Strax eftir að Kastljósþætti gærkvöldsins lauk fór ég að velta því fyrir mér hvernig stjórnarflokkarnir ætluðu að spinna sig út úr þessu. Hjá Framsókn sýnist mér að spuninn eigi að snúast um að þetta séu upplýsingar sem lágu nú þegar fyrir. Eiginkona Sigmunds kom vissulega fram með upplýsingar um þetta fyrirtæki þegar hún áttaði sig á að þessi gögn væru til staðar. Það sem kom hins vegar fram í þættinum í gær var miklu viðameira en þær upplýsingar sem hún gaf upp og ætla ég ekki að rekja það sérstaklega hér heldur vísa bara í þáttinn.

Þessi spuni mun eflaust einnig snúa að því hvernig RÚV er að reyna að draga Framsókn niður í svaðið. Einhverjir eiga eflaust eftir að kaupa það. Hins vegar er það hlutverk RÚV að reka fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Þetta eru upplýsingar sem við eigum rétt á að fá.

Sem leiðir mig einnig að því að Sigmundur og aðilar honum tengdir virðast halda að fjölmiðlamenn séu „out to get him“. Okkur er eflaust öllum minnistætt viðtal Sigmundar við Gísla Martein sem átti að vera létt spjall um málefni líðandi stundar en Sigmundi tókst að snúa því upp í einhverja hringavitleysu og enginn veit hvað honum gekk til annað en að reyna að koma höggi á Gísla og RÚV. Sem mistókst.

Í þættinum í gær sáum við viðtal sem sænskur fréttamaður er að taka við Sigmund. Ekki veit ég hvernig fréttamaðurinn fékk hann í viðtal, því að Sigmundur virðist helst bara vilja tjá sig í Sprengisandi á Bylgjunni. Við vitum öll hvernig þetta endaði; Sigmundur gekk í burtu eftir að hafa sakað fréttamann um að leiða hann í gildru (IT’S A TRAP!). Einhverjum dögum síðar býðst aðstoðarmaður ráðherrans að koma og ræða við fréttamennina í viðtali sem hann vill samt ekki láta birta („frábært“ à kaldhæðnisgæsalappir).

Ef að lýðræði á að virka þá þurfa borgarar landsins að fá aðgang að þeim upplýsingum sem liggja fyrir. Það þýðir líka að ráðamenn þjóðarinnar verða að bíta í það súra epli að svara óþægilegum spurningum hjá fjölmiðlum landsins. Einnig verða þeir að sætta sig við það að þjóðin megi gagnrýna þá. Það sem ég sé í Sigmundi er ráðherra sem vill ekki eiga samskipti við ríkismiðil Íslands og hann sakar þjóðina um vænisýki ef við dirfumst til að gagnrýna hann eða krefjast svara. Því langar mig að spyrja, lýsir þetta manni sem er hæfur til að gegna stöðu forsætisráðherra?

Birting gagnanna í gær er í raun toppurinn á ísjakanum. Ef að stjórnarflokkarnir ætla að reyna að fara að klóra í bakkann með einhverjum réttlætingarsjónarmiðum þá verð ég því miður að telja það vanvirðingu gagnvart þjóðinni. Ég trúi því ekki að það sé bara hagræði í því að hafa peninga í einhverju aflandsfélagi í Panama. Hvað býr á bakvið þetta? Er verið að svíkja undan skatti? Ef það er ekki verið að svíkja undan skatti, til hvers þarftu að hafa peningana í félagi þar sem eignarréttur þinn er falinn? Treystirði ekki bankakerfinu á Íslandi eða íslensku krónunni? Þetta eru spurningar sem ég væri til í að fá svör við.

Eflaust mun Sjálfstæðisflokkurinn einnig reyna að koma fram með þau rök að það sé ekkert að því að eiga peninga. Það er ekkert að því að eiga peninga, en nenniði plís að borga skattana ykkar hér á landi og geyma peninginn í íslenskum krónum í íslenskum banka alveg eins og almúginn neyðist til þess að gera. Skattar fara í það að greiða fyrir velferðarkerfi en forsætisráðherra virtist reyndar ekki vita hvað velferðarkerfi væri í viðtalinu við sænska fréttamanninn.

Það að ráðherrar taki pólitíska ábyrgð á gjörðum sínum hefur aldrei verið vinsælt hjá íslenskum ráðherrum. En til samanburðar langar mig að benda á að í febrúar síðastliðnum sagði landbúnaðarráðherra Danmerkur, Eva Kjer Hansen, af sér vegna þess að hún notaði ekki nægilega góða útreikninga til grundvallar búvörusamningi. Veltum því aðeins fyrir okkur hvort er alvarlegra? Að nota ekki nógu góðar upplýsingar eða að vilja ekki tala við fréttamenn og fela milljarða í aflandsfélagi.

Næstu dagar verða allaveganna áhugaverðir í íslenskri pólitík, en munum að setja gagnrýnisgleraugun upp þegar spunavélarnar fara í gang.

Tenglar

Frétt um afsögn Evu Kjer Hansen

Kastljósþáttur 3. apríl 2016 

 

 

 

 

 

Skattar

Mynd 1: Ég að borga skattana mína

Mynd 2: Ég þegar ég þarf að borga fyrir alla velferðarþjónustuna sem ég hélt að skattarnir mínir færu í