Fjölmiðlafyrirtæki fylgist með okkur

Við virðumst lítið kippa okkur upp við það þessa dagana þegar við heyrum af því að fyrirtæki fylgist með netnotkun okkar og nýti þær upplýsingar sér í hag. Fram kom í fréttum RÚV nýverið (ruv.is: „Forstjóri 365: „Erum með réttin okkar megin“) að eitt stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins er að fylgjast með okkur. Með því framferði eru fyrirtæki komin út á hálan ís hvað varðar friðhelgi einkalífs okkar.

Hvað græða fyrirtæki á því að fylgjast með notendum sínum? Hegðun okkar á netinu segir mikið til um kauphegðun okkar. Fyrirtæki græða á því að við séum skilvirkari neytendur. 365 er ekki bara framleiðandi sjónvarpsefnis, heldur bjóða þeir upp á internet, síma og gefa út fréttablað. Segjum sem svo að þú sért með internettengingu hjá 365. Þeir fylgjast með notkun þinni þar og nýta upplýsingarnar sem þeir fá til þess að búa til fréttir sem þú vilt lesa. Þeir nota þær upplýsingar til þess að selja auglýsingar í blöðin sín. Einhverjum gæti fundist þetta léttvægt, en veltum því fyrir okkur hversu mikið vald fjölmiðlar hafa til dæmis á stjórnmálaumræðu. Það er í rauninni ekki alveg ljóst af þessari litlu frétt hvernig ferlið á sér stað, sem gerir þetta mjög tortryggilegt og maður fer að velta því fyrir sér hvort allt sé með felldu.

Ef nauðsynlegt þykir að skerða mannréttindi þá þarf að uppfylla tiltekin skilyrði. Stjórnarskráin tryggir þetta og ferlið á að koma í veg fyrir geðþóttaákvarðanir einkafyrirtækja og stjórnvalda.

Réttur fólks til einkalífs

Friðhelgi einkalífsins er tryggt  í 71. gr. stjórnarskrár Íslands. Í sömu grein segir að það megi takmarka þessi réttindi með lagaheimild ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. Því þarf að uppfylla þrjú skilyrði ef að stjórnvöld ætla sér að takmarka friðhelgi okkar.

Í fyrsta lagi kemur skýrt fram að það þurfi lagaheimild til. Það þýðir að löggjafinn þarf að samþykkja lög sem setja fram með skýrum hætti í hvaða tilvikum þessi réttindi megi vera skert og á hvaða hátt það sé gert. 11. kafli laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er dæmi um slíka lagaheimild. Þar segir að ef tilteknum skilyrðum sé uppfyllt þá megi lögreglan fylgjast með afmörkuðum samskiptum. Það gefur líka augaleið að það er lögreglan sem á að framkvæma þetta eftirlit. Lögreglan starfar innan afmarkaðs lagaramma. Þetta á að koma í veg fyrir að tilfallandi aðilar úti í bæ fari að fylgjast með fjarskiptum okkar. Alveg eins og tollverðir hafa leyfi til þess að leita í töskum okkar þegar við komum til landsins og barnaverndarnefnd hefur heimildir til þess að grípa inn í ef grunur leikur á um brot gegn börnum og svo mætti lengi upp telja. Þessar reglur eru til staðar til þess að vernda réttaröryggi okkar.

Í öðru lagi er talað um brýna nauðsyn. Það felur í sér að eitthvað mikið er í húfi. Þannig getur lögreglan til dæmis skorist í leikinn ef grunur leikur á um heimilisofbeldi, barnaverndarnefnd getur tekið börn af heimilum og tollverðir geta spurt þig hvað er í töskunni þinni. Þessi brýna nauðsyn byggir því á því að hagsmunir almennings séu að veði. Það er nátengt þriðja skilyrðinu sem er að réttindi annarra liggi við; réttindi maka til að vera laus við heimilisofbeldi og réttur barna til þess að mega alast upp við öruggt fjölskyldulíf. Þessar undanþágur eru til staðar til þess að vernda þá sem minna mega sín gagnvart ofurafli einhvers annars, til dæmis stórra einkafyrirtækja.

Þegar forstjóri fjölmiðlafyrirtækis segir að þau séu með réttin sín megin, vekur það upp ýmsar spurningar. Undanþágur frá verndun friðhelgi einkalífs eru háðar því að almannahagsmunir séu í húfi. Hér erum við með stórt fjölmiðlafyrirtæki sem telur sig eiga tiltekin réttindi. Vissulega er skiljanlegt að 365 er ósátt við að fólk sé að nálgast efnið þeirra ókeypis, en það breytir því ekki að aðferðir þeirra til að koma í veg fyrir það eru ólögmætar. Eins og þetta óljósa ferli er sett upp í frétt RÚV þá fær 365 upplýsingar frá FRÍSK (Félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði) um hverjir hafa sett inn framleiðsluefni þeirra á deiliveitur. Sem sagt, einhver starfsmaður FRÍSK sér að notandi, til dæmis „User12“, hefur hlaðið upp skránni Borgarstjórinn. FRÍSK kemur þessum upplýsingum áleiðis til 365 sem svo að eigin sögn einfaldlega skoða hverjir „mögulega geti verið þarna á bakvið“ og telja sig í fullum rétti til að fylgjast með IP-tölum. Í raun er enginn munur á því að fylgjast með IP-tölum og öðrum persónuupplýsingum, til dæmis að hlera símanúmer. Samkvæmt nýlegum úrskurði Evrópudómstólsins þá flokkast IP-tölur undir persónuupplýsingar. FRÍSK vinnur samkvæmt lögum nr. 62/2006 um kvikmyndaskoðun. Ekkert kemur fram í lögunum um að félagið hafi heimild til þess að fylgjast fjarskiptum okkar eða koma þeim upplýsingum áleiðis til annars aðila. 365 er fjölmiðlafyrirtæki. Þau starfa því samkvæmt lögum nr. 38/2011 um fjölmiðla. Ekkert í þeim lögum veitir fjölmiðlum leyfi til þess að fylgjast með fjarskiptum okkar.

Þetta er því vissulega ferli sem er á gráu svæði og sem internetnotandi og almennur borgari, þá hrís mér hugur að vita af því að fjölmiðlafyrirtæki, eða í raun hver sem er, gæti verið að fylgjast með því sem ég geri á internetinu. Þar sem þetta svo kallaða eftirlit þeirra er ekki bundið neinum reglum eða leyfum, hvernig getum við þá vitað hversu víðtækt það er í raun?

Eftirlit fyrirtækja með notendum

Eins og þetta lítur út, þá telur 365 sig geta fylgst með fjarskiptanotkun okkar, óháð því hvort við séum í áskrift af sjónvarpsstöðum þeirra eða nýtum okkur fjarskiptaþjónustu þeirra. Ekki að það væri hægt að afsaka þetta framferði eitthvað ef þeir miðuðu þessa gagnasöfnun einungis að eigin notendum. 365 er í eigu hagsmunaaðila. Langstærsti eigandinn er Ingibjörg Pálmadóttir, sem stundar víðtæk viðskipti og á alls konar önnur félög. Það gefur augaleið að hún og félög í hennar eigu eiga mikilla hagsmuna að gæta, bæði hvað varðar stjórnmálaumhverfi og hegðun neytenda. Það er stórhættulegt ef valdamiklir aðilar telja sig geta fylgst með fjarskiptanotkun almennings. Og getum við verið viss um að fjölmiðlafyrirtæki sem nýtir sér þessar upplýsingar, sé ekki að deila þeim með eigendum sínum sem geta svo deilt þeim áfram til annarra fyrirtækja í sinni eigu?

Miðað við hvað ferlið sem forstjóri 365 lýsir í greininni er óljóst og virðist ekki byggt á neinum einustu heimildum þá veltir maður því fyrir sér hvaða aðrar upplýsingar þeir telja sig mega nýta og dreifa með öðrum. Mun ég fá heimsókn frá starfsmanni 365 sem athugar hvort að auglýsingar Fréttablaðsins séu að skila árangri? Er ég að drekka nóg kók, borða nógu mikið af KFC og kjósa rétta stjórnmálaflokkinn? Eftirlit með almennum borgara er alltaf eftirlit með almennum borgara, sama þó það fari fram í gegnum internet, síma eða öryggismyndavélar. Þó að forstjóri fyrirtækis haldi því fram að þeir séu með réttin sín megin, þá megum við ekki gleyma því að mannréttindi eru til þess að vernda okkur gagnvart yfirgangi einkafyrirtækja. Við eigum tiltekin réttindi og eigum að fá að njóta þeirra í friði. Það er stórhættulegt ef fyrirtæki telja sig mega fylgjast með og stýra internetnotkun okkar.  Það er vonandi að Persónuvernd stígi inn í þetta sem fyrst og að réttur okkar á internetinu verði tryggður með lögum. Það er óviðunandi ástand að við getum ekki talið okkur örugg á internetinu, alveg eins og að það væri óviðunandi ef aðili frá fyrirtæki myndi liggja á glugganum hjá okkur og fylgjast með hegðun okkar. Rétturinn á alltaf að vera okkar megin.

Pistillinn birtist í Kvennablaðinu 12. desember 2016

Hið svokallaða lýðræði

 

Lýðræði felur í sér að almenningur tekur þátt í ákvörðunum er hann varðar. Á Íslandi er þetta lýðræði búið að þróast út á svo ótrúlega skrítnar brautir. Við fáum að kjósa á fjögurra ára fresti. Einhverjir flokkar fá meirihluta og næstu fjögur árin fær sá meirihluti að taka allar mikilvægar ákvarðanir er varða réttindi og skyldur borgaranna. Löggjafarvaldið gerir þetta með lagasetningu. Lagasetning er flókið fyrirbæri og getur tekið langan tíma. Það þarf að gera kostnaðaráætlanir, skoða alla vinkla er tengjast málefninu og þar fram eftir götunum. Eftir að frumvarp hefur verið samið, sem gerist oftast í einhverju lokuðu bakherbergi með hagsmunaaðilum, er það lagt fyrir Alþingi til samþykkis eða synjunar. Þar fara fram þrjár umræður og unnt er að leggja fram breytingartillögur. Ef breytingartillögurnar hugnast meirihlutanum þá fara þær í gegn. Að loknum þessum umræðum er frumvarpið lagt fyrir Alþingi til samþykkis eða synjunar. Samkvæmt Stjórnarskránni ætti hver þingmaður að kjósa eftir eigin sannfæringu á þessu stigi. Raunin er hins vegar sú að meirihlutaræðið á Íslandi er svo fast í sessi að það er í raun ómögulegt að fella frumvörp nema mikið almennt ósætti sé um það. Og jafnvel þá gerist ekkert. Til dæmis fóru Búvörulögin í gegnum Alþingi um daginn. Minnihlutinn fékk mikla gagnrýni á sig fyrir að kjósa ekki nei með samningnum. Ef það hefði verið gert hefði það auðvitað sýnt meiri samstöðu gegn þessum lögum, en ég leyfi mér að fullyrða að ef meirihlutinn hefði vitað að minnihlutinn ætlaði að kjósa nei, þá hefðu þeir smalað já fólki í salinn. Þessi lög hefðu (því miður) alltaf farið í gegnum Alþingi. Það hefur komið hörð gagnrýni á Búvörusamninginn frá því að hann var kynntur í vor, en þeir sem höfðu staðið að því að semja hann sögðu að það væru bara því miður of seint að breyta núna. En afsakið, afhverju fékk fólk ekki meira ráðrúm að koma með gagnrýni á þennan blessaða samning. Það geta vissulega allir sent inn álit á frumvörp, en afhverju að hafa fyrir því ef nefndin segir svo bara: „Sorry, not sorry.“

Það sama er að gerast með LÍN frumvarpið. Hörð gagnrýni hefur komið fram á frumvarpið. Efnisleg og formlega. Efnislega er því haldið fram að þetta frumvarp sé ekki að fara að bæta hag nemenda, heldur íþyngja þeim ef eitthvað er. Varðandi formhliðina hefur verið gefinn alltof stuttur tími til þess að koma með athugasemdir. Þrátt fyrir allar þær athugasemdir sem fram hafa komið á frumvarpið er líklegast að frumvarpið verði samþykkt. Afhverju? Jú, því meirihlutinn stendur saman.

Þannig að ég spyr, er meirihlutaræði besta leiðin til þess að stuðla að virku lýðræði. Núverandi ríkisstjórn hlaut eitthvað um 50% af atkvæðum í síðustu kosningu, og þeir sem þar sitja geta komið með alls konar frumvörp og fengið þau samþykkt á grundvelli einhvers stjórnarsáttmála. En hvað ef það koma fram frumvörp sem eru einfaldlega illa framsett og ekki í hag almennings? Eina leiðin fyrir almenning til þess að hafa áhrif er að biðla til forseta um að neita að skrifa undir lögin. Ef nógu margar undirskriftir safnast þá hefur forsetinn einn vald til þess að ákveða hvort hann telji undirskriftirnar nógu margar eða ekki.

Margir hafa spurt Pírata síðustu misserin með hverjum við myndum vilja fara í ríkisstjórn. Persónulega myndi ég vilja sjá róttækar breytingar í hver virkni ríkisstjórnarinnar og meirihlutans eigi að vera. Píratar leggja mikla áherslu á að þingmenn kjósi eftir eigin sannfæringu og ég vona að fleiri flokkar taki upp á því á næsta kjörtímabili. Til hvers erum við með minnihluta (sem er, rétt eins og meirihlutinn með ca. 50% þingsæta á Alþingi) ef hann hefur engin úrræði til þess að fá frumvörp felld eða samþykkt. Ef eina tæki minnihlutans til þess að koma einhverju á framfæri á þingi er málþóf, þá er eitthvað mikið að.

Einhvern veginn þarf að auka aðkomu almennings að gerða lagafrumvarpa. Þessi afsökun um að það sé of seint að breyta einhverju finnst mér vera hræðileg afsökun og merki um það að þeir sem sömdu þau höfðu ekki áhuga á að hlusta á gagnrýni til að byrja með. Mögulega er ein leið til þess að komast hjá þessu í framtíðinni að hætta að líta á minnihlutann og meirihlutann sem íþróttalið sem eru í keppni og fara að stuðla að meiri samvinnu allra þeirra sem sitja á þingi. Fólk hefur líka kosið þau sem sitja í minnihlutanum og raddir þeirra eiga líka að fá að heyrast. Annars munum við alltaf búa í með eða á móti samfélagi.

Pínu væmni við lok prófkjörs

Má ég ekki vera pínu væmin síðasta daginn í prófkjöri? Mér líður allavega eins og að jólin séu að koma kl. 18 í dag og ég hlakka mikið til að sjá hvað kemur upp úr “kjörkössunum.”

Hjá mér hófst þetta ferðalag fyrir um einu og hálfu ári síðan. Eins og svo margir aðrir, var ég komin með nóg af Íslandi og hugði á landflótta. Ég ákvað þó að snúa vörn í sókn og gekk í Pírata. Þar var tekið vel á móti mér og endaði ég sem aðalamaður í framkvæmdaráði á aðalfundi 2015. Þar gegndi ég fyrst stöðu ritara og svo stöðu formanns. Ég lærði fullt af því að vera í framkvæmdaráði. Ég lærði hvað hópavinna getur verið frábær og að stundum þarf maður að hlusta á fólk þó að maður sé pirrað út í það. Það mikilvægasta sem ég lærði er þó að það er betra að eyða orku sinni í að finna lausnir á vandamálum í staðinn fyrir að nöldra yfir þeim. Auk þess er ég búin að kynnast mikið af frábæru fólki, sem ég hlakka til að vinna með í komandi kosningabaráttu og vonandi á Alþingi ef ég verð heppin.

En afhverju langar mig að fara á þing? Ég veit að þetta er mjög erfitt starf; langir vinnutímar, lestur gagna og fundarsetur. Í fyrsta lagi held ég að þetta verði ekkert mál ef maður er með gott fólk í kringum sig. Í öðru lagi, ef það er eitthvað sem ég hef lært af skólagöngu minni þá er það að sitja lengi og lesa mikið. Það sem drífur mig þó áfram er vilji til þess að breyta einhverju. Einkahagsmunir hafa trompað almannahagsmuni í alltof mörg ár á Íslandi. Það er kominn tími á að hagur almennings sé settur í forgang og að við förum í sameiginlegt átak í að losa okkur við meðvirkni gagnvart auðmönnum. Peningar eiga ekki að stjórna lýðræðinu, heldur fólkið í landinu. Ég átta mig á þeirri von sem er tengd við Pírata, að við munum knýja fram breytingar í íslensku samfélagi. Og ég vona innilega að við getum staðið undir þessum væntingum. Ég mun allavega gefa allt mitt í það verkefni.

Mér finnst þessi hugsun endurspeglast í prófkjöri Pírata. Það eru ekki fyrirtæki sem standa á bakvið frambjóðendur með peningastyrkjum. Við erum öll að gera þetta á eigin tíma og mörg hver með vinnu. Það er enginn á launum frá flokknum við að kynna sig. Þeir sem eru í prófkjöri eru að gera það á eigin forsendum og nýta eigið hugarafl í að koma sér á framfæri.

Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem komu að prófkjörinu. Svona batterí verður ekki að raunveruleika í einhverju tómarúmi. Margir eru búnir að vinna lengi að því að gera þetta vel; kynningar á frambjóðendum, láta kosningakerfið virka sem skildi, skipulag á kynningarfundum og svo mætti lengi telja.

Ég vil því þakka Bjarna forritara, Bylgju framkvæmdastjóra, Jóhanni kosningastjóra, framkvæmdaráði (bæði mínu framkvæmdaráði og það sem starfar nú), stjórn Pírata í Reykjavík, gengið á bakvið stefnumot.piratar.is og örugglega einhverjir fleiri. Takk fyrir! Með svona lið á bakvið sig er ekkert mál að rúlla upp eins og einni kosningabaráttu. Vonandi fæ ég tækifæri til að vinna áfram með ykkur.

Að lokum vil ég minna á að hægt er að kjósa í prófkjöri Pírata á x.piratar.is til klukkan 18 í dag.

Yarrrrr!!!!!

 

Kjöt og skordýr

Það hefur oft vakið hjá mér furðu hvað lítið er talað um hlýnun jarðar og umhverfismál hér á Íslandi. Við erum ekki fullkomin frekar en aðrar þjóðir í þessum málum. Mér fannst þögnin öskrandi í desember síðastliðnum, þegar ný markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt. Til þess að ná þessum markmiðum skrifuðum þjóðir heims undir Parísarsamkomulagið sem skuldbindur þær til þess að halda hlýnun jarðar af mannavöldum innan 2 gráðna marksins og jafnvel undir 1,5 gráðum.

Hlýnun jarðar er eitt stærsta verkefnið sem þjóðir heims þurfa að takast á við. Áhrif á hlýnun jarðar eru nú þegar augljós. Þurrkar, flóð, vatnsskortur og önnur ofsafengin veðurfyrirbæri. Sumarið á Íslandi er búið að vera óvenju hlýtt, við fögnum því auðvitað, en höfum samt í huga að þetta er ekki eðlilegt og ástæðan að öllum líkindum hlýnun loftslags á heimsvísu.

En þetta er kannski ástæðan fyrir því að á Íslandi er ekki talað mikið um hlýnun jarðar. Við tökum ekki eftir henni í okkar daglega lífi og fögnum auðvitað þegar veðrið er gott. Þetta skeytingarleysi birtist mjög greinilega í hegðun fyrirsvarsmanna landsins. Mér er minnistætt þegar Sigmundur Davíð talaði um að hlýnun jarðar fæli í sér spennandi sóknarfæri fyrir Íslendinga. Í Búvörusamningnum er talað um að auka kjötframleiðslu og fara að flytja inn fósturvísa til þess að hefja nautgriparæktun hér á landi. Það er í hæsta máta undarlegt, enda er gríðarlegt auðlindafrekt að rækta nautakjöt. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur auk þess mælt með því að íbúar jarðarinnar líti í auknu mæli til skordýra til þess að uppfylla prótínþörf sinni.

Ég myndi vilja sjá Ísland fremst meðal þjóða í að tryggja sjálfbært fæðuöryggi. Við eigum að styðja við fólk sem vill koma með nýstárlegar hugmyndir varðandi fæðu á markað. Eitt slíkt fyrirtæki er Jungle Bar sem eru búnir að búa til próteinstykki úr krybbyhveiti. Stykkin eru ófáanleg á Íslandi því að ráðherra ákvað að innleiða Evrópureglugerð frá 1997 í október 2015. Með reglugerðinni var ómögulegt fyrir fyrirtækið að selja stykkin hér á landi. Þau njóta þau mikilla vinsælda, t.d. í Bandaríkjunum. Í stað þess að sjá sóknarfæri í nýsköpun á matvælamarkaði, var frábær hugmynd barin niður af stjórnvöldum.

Einnig eigum við hér á landi fullt af jarðvarma sem væri hægt að nýta í ýmis konar ræktun. Þó að ég sé hlynnt því að flytja inn matvöru erlendis frá, með það fyrir augum að auka vöruúrval fyrir neytendur, þá skilur sá flutningur eftir gríðarlega stór vistspor sem ýta undir hlýnuna jarðar. Við þurfum að fara að skoða stöðu Íslands í heildarsamhenginu og taka upplýstar ákvarðanir hver næstu skref okkar eiga að vera í að tryggja fæðuöryggi og sporna við hlýnun jarðar.

Gleðilega hátíð!

Gleðilega hátíð kæru vinir!

Einstaklingur fæðist með ákveðin einkenni sem hann ræður engu um. Útlit, kyn og kynhneigð. Þetta eru þættir sem einstaklingurinn hefur enga stjórn á. Þess vegna hefur mér alltaf fundist undarlegt þegar fólk er sett út á jaðarinn og fær ekki að vera virkir samfélagsþegnar vegna meðfæddra einkenna sinna. Það er líka merkilegt að við sem samfélag höfum búið okkur til ákveðna skala til þess að meta einstaklinga út frá. Þannig myndast fordómar vegna meðfæddra eiginleika einstaklinga út frá hugmyndum sem myndast í samfélaginu.

Hvernig myndast þessir skalar? Jú, við fólkið sem búum í samfélagi búum þá til. Um leið og það er ákveðið að einhver tiltekinn meðfæddur eiginleiki er rangur, þá fer samfélagið smátt og smátt að trúa því. Hver ákvað til dæmis að konur væru réttlægri samfélagsþegnar en karlar og að útlit þeirra skipti meira máli en karlmanna?

Við getum ekki stjórnað meðfæddum eiginleikum. Við getum hins vegar haft mikil áhrif á samfélagsleg viðhorf. Við getum metið einstaklinga út frá því hvernig þeir haga sér. Að stimpla einstakling út frá eiginleikum sem hann hefur enga stjórn á er heimskulegt.

Hættum að líta svona mikið á kyn og kynhneigð þegar við metum samferðafólk okkar. Það kemur okkur ekkert við hjá hverjum fólk sefur, býr með eða elskar. Einnig kemur það okkur ekkert við hvar á kyn eða kynhneigðarrófinu annað fólk upplifir sig. Ef báðir eða allir einstaklingar eru samþykkir, þá er ekkert vandamál til staðar og við höfum ekkert með það að gera að skipta okkur af því.

Ég tel að ef við leyfum einstaklingum að vera eins og þeir vilja þá verði samfélagið betra. Reykjavík Pride er mikilvægur viðburður til þess að breyta þessum samfélagslegu viðmiðum. Þess vegna vona ég að sem flestir taki þátt, eigi umræður um málefnið og að við fáum öll tækifæri til þess að vera við sjálf.

 

Ráðherraábyrgð: óvirkt réttarúrræði

Í gær skrifaði ég um úrræðaleysi gagnvart forstöðumönnum stofnana sem fara ekki eftir stjórnsýslulögum. En hvað gerist þegar æðstu yfirmenn embættismanna, ráðherrarnir, fara ekki eftir settum lögum í störfum sínum. Í BA ritgerð minni í lögfræði: Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra, var niðurstaða mín sú að afleiðingarnar eru í raun engar.

Flest þekkjum við til Lekamálsins sem rekja má til þess að fjölmiðlar birtu þann 20. nóvember 2013 trúnaðarupplýsingar, úr óformlegu minnisblaði innanríkisráðuneytisins, um tiltekna hælisleitendur. Innanríkisráðuneytið vildi ekki kannast við að þetta minnisblað hefði orðið til hjá þeim. Lögreglan hóf rannsókn á málinu sem lauk með því að aðstoðarmaður Hönnu Birnu, Gísli Freyr Valdórsson, var ákærður fyrir þagnarskyldubrot. Gísli játaði þetta brot og nokkrum dögum síðar sagði Hanna Birna af sér sem ráðherra.

Í áliti umboðsmanns Alþingis (nr. 8122/2014 fyrir þá sem vilja kynna sér það nánar) kom fram að innanríkisráðherra hefði, í samskiptum sínum við lögreglustjóra á meðan á málinnu stóð, farið í bága við þó nokkrar reglur.

Í fyrsta lagi má nefna 1. mgr 20. gr laga um Stjórnarráð Íslands sem segir að ráðherra eigi að leita álits ráðuneytis til að tryggja að athafnir og ákvarðanir séu í samræmi við lög. Ráðherrann hafði hlotið einhverja ráðgjöf en að áliti umboðsmanns höfðu fyrirspurnir hennar til lögreglustjóra á þessum tíma gengið lengra en eðlilegt gæti talist. Umboðsmaður taldi því að innanríkisráðherra hefði ekki fylgt 1. mgr 20. gr. umræddra laga nógu vel.

Einnig taldi umboðsmaður að samskiptin hefðu ekki samrýmst reglum sem innanríkisráðherra bar að virða um sjálfstæði og hlutlægni lögreglunnar við rannsókn sakamáls. Vegna yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna bar ráðherranum skylda til þess að virða þessar reglur og stöðu lögreglunnar. Umboðsmaður taldi að samskiptin hefðu verið ósamrýmanleg stöðu innanríkisráðherra sem yfirstjórnanda lögreglunnar.

Þar sem framgangur lögreglurannsóknar hafði skipt Hönnu Birnu miklu máli, bæði vegna starfa hennar sem ráðherra og pólitískrar stöðu, taldi umboðsmaður að samskiptin hefðu einnig farið í bága við hina óskráðu meginreglu um sérstakt hæfi í stjórnsýslunni.

Af þessu áliti sést að að ýmsar lagagreinar og reglur eru til staðar sem ráðherrar getur haft að leiðarljósi við beitingu valdheimilda sinna. Ber þar hæst 1. mgr 20. gr laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Ísland, óskráð hæfisregla stjórnsýsluréttarins og leiðbeiningarreglan um að fylgja skuli vönduðum stjórnsýsluháttum. Ljóst er að innanríkisráðherra leit ekki nægilega vel til þessara reglna í samskiptum sínum við lögreglustjóra við rannsókn á Lekamálinu.

Þegar þessar aðstæður eru til staðar er lítið annað í stöðunni en að ráðherra segji af sér. Hanna Birna gerði það vissulega undir lokin, en eðlilegast hefði verið að hún hefði strax stigið til hliðar og þá hefði mátt koma í veg fyrir að hæfi hennar yrði dregið í efa. Reyndar verður að telja að hin pólitíska ábyrgð ráðherra á Íslandi sé ekki virkt réttarúrræði, miðað við til dæmis Danmörku. Nýlegt dæmi er þegar Eva Kjer Hansen, sem gegndi stöðu umhverfisráðherra í Danmörku, sagði af sér í febrúar 2016. Ástæðan var sú að hún hafði notað vafasama útreikninga um losun gróðurhúsalofttegunda til grundvallar búvörusamnings.

Þegar kemur að ráðherrum erum við því með ýmsar reglur sem eiga að tryggja fagleg vinnubrögð. Hins vegar eru engin úrræði til staðar til að víkja þessum ráðherrum frá ef þeir fara ekki eftir þessum leiðbeiningum. Eina úrræðið sem virðist vera til staðar er afsögn ráðherra og miðað við íslenska stjórnmálasögu gerist það eiginlega aldrei að ráðherra axli ábyrgð á þann hátt.

Ef þið viljið kynna ykkur þetta mál frekar þá getið þið gluggað í BA ritgerðina mína sem má nálgast hér.

Með lögum skal land byggja …

Í júlí mánuði voru tvö tilvik þar sem lögreglustjórar voru taldir hafa brotið gegn stjórnsýslulögum. Innanríkisráðuneytið úrskurðaði að Sigríður Björk, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hefði brotið meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Nokkrum dögum síðar úrskurðaði umboðsmaður Alþingis að Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, hefði ekki farið eftir stjórnsýslulögum þegar hún réð nýjan lögreglufulltrúa í embætti.

Stjórnsýslulögin eiga að tryggja að vönduðum stjórnsýsluháttum sé fylgt þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Þar er að finna margar mikilvægar reglur sem eiga að tryggja réttaröryggi borgaranna. Má þar nefna; leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, jafnræðisreglu, meðalhófsreglu og andmælarétt.

Þessar reglur eiga að tryggja að allir borgarar fái réttláta málsmeðferð.

Í lögunum er þó ekki að finna nein fyrirmæli um hvað ber að gera ef starfsmenn stjórnsýslunnar fylgja ekki þessum reglum. Við skulum hafa það í huga að lögin ná til mikilvægra réttinda borgaranna, til dæmis þegar ráðið er í opinbert starf. Mörg dæmi eru um það að umboðsmaður Alþingis komist að þeirri niðurstöðu að stjórnsýslulögum hafi ekki verið fylgt við ráðningu, líkt og í máli lögreglustjórans í Vestmannaeyjum.

En hvað gerist svo þegar umboðsmaður kemst að þeirri niðurstöðu að stjórnsýlulögum hafi ekki verið fylgt við opinbera ráðningu? Aðilinn getur ekki krafist þess fyrir dómstólum að vera settur inn í starfið. Ástæðan er sú að það verður einnig að tryggja réttaröryggi þess aðila sem fékk starfið. Þarna myndast gloppa í stjórnsýslunni, sem gerir það að verkum að auðvelt er að komast upp með það að velja frænda sinn eða einhvern annan, vegna greiðasemi, í starfið, þó að sá aðili sé kannski óhæfari en aðrir.

Eina réttarúrræðið sem stendur aðilanum, sem fékk ekki starfið, til boða, er að fara í bótamál gegn ríkinu. Stofnunin sem braut gegn stjórnsýslulögum endar því kannski á því að borga svona 2 milljónir í bætur og frændinn heldur starfinu.

Í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna grípur maður í tómt. Það er ekkert þar sem segir að víkja beri starfsmanni úr starfi ef hann fylgir ekki stjórnsýslulögunum. Unnt er að veita áminningar, eða veita tímabundna lausn frá embætti ef þess gerist þörf.

Verklag lögreglustjóranna tveggja er ekkert einsdæmi. Af álitum umboðsmanns Alþingis er ljóst að starfsmenn stjórnsýslunnar fara ekki eftir stjórnsýslulögum. Þessu verður að breyta. Það verður að tryggja réttarúrræði, sem gera það að verkum að forstöðumenn stofnana taki ábyrgð á óvönduðum stjórnsýsluháttum. Það er sorglegt að embættismenn komist upp með afglöp í starfi án þess að þurfa að þola neinar afleiðingar.