Tár á hvarmi

Jæja. Um það bil tveir sólarhringir liðnir frá Kastljósþættinum um aflandsfélögin og mér líður eins og ég búi í sirkus eða martröð. Ég á erfitt með að ákveða mig. Ég vaknaði fyrir allar aldir á mánudeginum og var að „refresha“ fjölmiðla landsins (samt bara ruv.is) allan daginn og beið fregna af afsögn Sigmundar. Ég sá hann fyrir mér, með tár á hvarmi að biðjast afsökunar á þessu öllu saman og biðja þjóðarinnar afsökunar á hrokanum sem hann hefur sýnt síðustu daga. Hann væri jú bara mannlegur. ÞAÐ hefði verið frábært og kannski gefið Sigmundi færi á að hætta með einhverri vott af reisn.

Þingfundur hefst kl. 15. Sigmundur er mættur og lítur út eins og óþægur skólakrakki þar sem hann þarf að hafa sig allan við að sitja kjurr og fara ekki að skellihlæja. Hann teiknar myndir af Tortóla eða brennandi Íslandi (fólk er ekki sammála hvað myndirnar sýndu). Á meðan er Bjarni Ben fastur á flugvelli í Flórída og reynir eftir mesta mætti að redda sér heim til Íslands (eða var hann bara að golfa). Gegn og skynsamur maður hefði auðvitað verið kominn heim fyrir löngu síðan til þess að takast á við þetta, en leyfum honum að njóta vafans.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar koma einn af öðrum í pontu og segja álit sitt á málinu. Þetta er álitshnekkur fyrir Íslands, hrokafullt gagnvart þjóðinni og kominn tími til að blessaður forsætisráðherra segi af sér. Enn þá bíð ég spennt eftir því að hann komi í pontu með tár á hvarmi og segi af sér. En nei. Hann kemur í pontu og segir að þetta sé misskilingur, hann hafi aldrei átt peninga í skattaskjóli. Hann baðst vissulega afsökunar á því að hafa rokið út úr viðtali við sænskan fréttamann en að öðru leyti er þetta ekki vandamál. Þarna var ég alveg: WHAT?!? ER ÞETTA EITTHVAÐ GRÍN?!?! Þvílík vonbrigði eftir að hafa hangið á öllum hugsanlegum samfélagsmiðlum allan daginn og ekki náð að lesa neitt í refsirétti. En allt í lagi, á morgun, á morgun sér hann að sér.

Þriðjudagur. Ég fer beint í símann og leita að fréttum þess efnis að Sigmundur hafi sagt af sér. Ekkert. Fréttir um að forsetinn sé að koma heim. (ó fokk, hugsa ég, ætlar hann að bjóða sig aftur fram?). Forsætisráðherrann fer á fund forseta. Nú segir hann af sér, hugsa ég. Refsirétturinn fær að bíða á meðan ég horfi spennt á Ólaf koma einhverri langloku út úr sér um þjóðina og þingið og svo framvegis. Business as usual. Eftir nokkrar mínútur átta ég mig á því að Sigmundur er ekki enn þá búinn að segja af sér. Hann rýkur út í bíl eftir fundinn með forseta og segir fréttamönnum að skoða facebook síðuna sína. Hann vill ekki neina leynigesti í dag. Þeir hljóta að rjúfa þing fyrir kvöldmat, hugsa ég þá.

Ég bíð og bíð. Þá loksins, Sigmundur segir af sér. Þvílíkt anticlimax! Sigurðu Ingi á að vera nýr forsætisráðherra. Hann skilur ekki ensku! Ég reyni samt að púsla þessu saman í hausnum á mér, að allavega sé Sigmundur hættur og það á eftir að samþykkja Sigurð Inga sem forsætisráðherra. Ekki er öll von úti. Ég er farin að anda rólega. En nei, nokkrum tímum síðar kemur önnur tilkynning. Sigmundur er ekki hættur, heldur bara búinn að stíga niður af stóli forsætisráðherra í óákveðinn tíma.

Á þessum tímapunkti er mér farið að líða eins og Sigmundur Davíð sé að gera grín af mér. Og að hann vilji að ég nái ekki prófunum mínum í maí. Ég verð reið. Ég verð pirruð. Ég fer að hlæja. Ef markmið hans er að rugla okkur í ríminu, gera okkur óörugg með stöðu Íslands og sýna hversu hrokafullur hann getur í raun verið, þá er hann að ná markmiði sínu.

Ég skil í alvörunni ekki hvað er að gerast. Ég er búin að reyna að ná utan um þetta. Afhverju er hann að gera þetta svona? Hvað fær hann út úr þessu? Skilur hann ekki hver krafan er? Finnst honum gaman að sjá andlitið á sér í öllum erlendu fréttamiðlunum? Er planið bara að sitja storminn af sér og lofa svo 100% lánum fyrir næstu kosningar og ná aftur upp í 20% fylgið?

Gerðu þjóðinni þann greiða að koma hreint fram svo að við getum farið að einbeita okkur að dagsverkum okkar. Það er alveg kósí að sitja saman fyrir framan sjónvarpið og fylgjast með framvindu mála. En ég þarf að ná prófunum mínum!

Hvað nú?

Strax eftir að Kastljósþætti gærkvöldsins lauk fór ég að velta því fyrir mér hvernig stjórnarflokkarnir ætluðu að spinna sig út úr þessu. Hjá Framsókn sýnist mér að spuninn eigi að snúast um að þetta séu upplýsingar sem lágu nú þegar fyrir. Eiginkona Sigmunds kom vissulega fram með upplýsingar um þetta fyrirtæki þegar hún áttaði sig á að þessi gögn væru til staðar. Það sem kom hins vegar fram í þættinum í gær var miklu viðameira en þær upplýsingar sem hún gaf upp og ætla ég ekki að rekja það sérstaklega hér heldur vísa bara í þáttinn.

Þessi spuni mun eflaust einnig snúa að því hvernig RÚV er að reyna að draga Framsókn niður í svaðið. Einhverjir eiga eflaust eftir að kaupa það. Hins vegar er það hlutverk RÚV að reka fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Þetta eru upplýsingar sem við eigum rétt á að fá.

Sem leiðir mig einnig að því að Sigmundur og aðilar honum tengdir virðast halda að fjölmiðlamenn séu „out to get him“. Okkur er eflaust öllum minnistætt viðtal Sigmundar við Gísla Martein sem átti að vera létt spjall um málefni líðandi stundar en Sigmundi tókst að snúa því upp í einhverja hringavitleysu og enginn veit hvað honum gekk til annað en að reyna að koma höggi á Gísla og RÚV. Sem mistókst.

Í þættinum í gær sáum við viðtal sem sænskur fréttamaður er að taka við Sigmund. Ekki veit ég hvernig fréttamaðurinn fékk hann í viðtal, því að Sigmundur virðist helst bara vilja tjá sig í Sprengisandi á Bylgjunni. Við vitum öll hvernig þetta endaði; Sigmundur gekk í burtu eftir að hafa sakað fréttamann um að leiða hann í gildru (IT’S A TRAP!). Einhverjum dögum síðar býðst aðstoðarmaður ráðherrans að koma og ræða við fréttamennina í viðtali sem hann vill samt ekki láta birta („frábært“ à kaldhæðnisgæsalappir).

Ef að lýðræði á að virka þá þurfa borgarar landsins að fá aðgang að þeim upplýsingum sem liggja fyrir. Það þýðir líka að ráðamenn þjóðarinnar verða að bíta í það súra epli að svara óþægilegum spurningum hjá fjölmiðlum landsins. Einnig verða þeir að sætta sig við það að þjóðin megi gagnrýna þá. Það sem ég sé í Sigmundi er ráðherra sem vill ekki eiga samskipti við ríkismiðil Íslands og hann sakar þjóðina um vænisýki ef við dirfumst til að gagnrýna hann eða krefjast svara. Því langar mig að spyrja, lýsir þetta manni sem er hæfur til að gegna stöðu forsætisráðherra?

Birting gagnanna í gær er í raun toppurinn á ísjakanum. Ef að stjórnarflokkarnir ætla að reyna að fara að klóra í bakkann með einhverjum réttlætingarsjónarmiðum þá verð ég því miður að telja það vanvirðingu gagnvart þjóðinni. Ég trúi því ekki að það sé bara hagræði í því að hafa peninga í einhverju aflandsfélagi í Panama. Hvað býr á bakvið þetta? Er verið að svíkja undan skatti? Ef það er ekki verið að svíkja undan skatti, til hvers þarftu að hafa peningana í félagi þar sem eignarréttur þinn er falinn? Treystirði ekki bankakerfinu á Íslandi eða íslensku krónunni? Þetta eru spurningar sem ég væri til í að fá svör við.

Eflaust mun Sjálfstæðisflokkurinn einnig reyna að koma fram með þau rök að það sé ekkert að því að eiga peninga. Það er ekkert að því að eiga peninga, en nenniði plís að borga skattana ykkar hér á landi og geyma peninginn í íslenskum krónum í íslenskum banka alveg eins og almúginn neyðist til þess að gera. Skattar fara í það að greiða fyrir velferðarkerfi en forsætisráðherra virtist reyndar ekki vita hvað velferðarkerfi væri í viðtalinu við sænska fréttamanninn.

Það að ráðherrar taki pólitíska ábyrgð á gjörðum sínum hefur aldrei verið vinsælt hjá íslenskum ráðherrum. En til samanburðar langar mig að benda á að í febrúar síðastliðnum sagði landbúnaðarráðherra Danmerkur, Eva Kjer Hansen, af sér vegna þess að hún notaði ekki nægilega góða útreikninga til grundvallar búvörusamningi. Veltum því aðeins fyrir okkur hvort er alvarlegra? Að nota ekki nógu góðar upplýsingar eða að vilja ekki tala við fréttamenn og fela milljarða í aflandsfélagi.

Næstu dagar verða allaveganna áhugaverðir í íslenskri pólitík, en munum að setja gagnrýnisgleraugun upp þegar spunavélarnar fara í gang.

Tenglar

Frétt um afsögn Evu Kjer Hansen

Kastljósþáttur 3. apríl 2016 

 

 

 

 

 

Skattar

Mynd 1: Ég að borga skattana mína

Mynd 2: Ég þegar ég þarf að borga fyrir alla velferðarþjónustuna sem ég hélt að skattarnir mínir færu í

Búsið í búðir eða betri úrræði?

Síðustu vikur hefur verið til umræðu frumvarp um hvort leyfa eigi sölu áfengis í matvörubúðum. Hægt er að kynna sér frumvarpið hér, en breytingin myndi fela í sér að handhafar smásöluleyfis yrði heimilt að selja eða afhenda áfengi til neytenda eldri en 20 ára. Þetta má bara gera milli kl. 09 – 20. Þannig að í grunninn þá mætti fólk eftir breytinguna kaupa sér áfengi í búð á sunnudögum og gæti keypt áfengi á sama stað og það verslar í matinn. Það er spurning hversu mikið þetta auki aðgengi að áfengi. Ég ímyndaði mér alltaf að þetta ætti að vera eins og í Danmörku þar sem maður gæti gengið inn í 10-11 á hvaða tíma sólarhrings sem er og náð sér í nokkra bjóra. En það er víst fjarlægur veruleiki.

Einhverjir hafa gagnrýnt þetta aukna aðgengi almennings að víni, meðal annars með þeim rökum að þetta komi illa við fjölskyldur alkóhólista þar sem aukið aðgengi muni ýta undir notkun áfengis. Nú ætla ég ekki að gera lítið úr kvölum sem alkóhólistar og fjölskyldur þeirra þurfa að lifa með á hverjum degi. Hins vegar finnst mér það að banna almenna verslun með áfengi á sunnudögum ekki vera gott meðferðarúrræði. Fíklar munu alltaf finna leiðir til að uppfylla þarfir sínar og þar sem alkóhólismi er vissulega mikið vandamál á Íslandi og er það þrátt fyrir að ríkið hafi haft stjórn á sölu áfengis í öll þessi ár, þá leyfi ég mér að draga þá ályktun að það að hefta aðgengi fólks að tiltekinni vöru aðstoðar það ekki í baráttu sinni við þennan hræðilega sjúkdóm.

Væri ekki réttara að kalla eftir betri meðferðarúrræðum, niðurgreiddri sálfræðiþjónustu og betri aðgengi að grunnheilsugæslu frekar en að halda því fram að lokun Ríkisins á sunnudögum sé að aðstoða alkóhólista í að horfast í augu við hvað veldur fíkn þeirra.

Ef við samþykkjum aukið aðgengi að áfengi þá væri okkur nær að auka meðferðarúrræði fyrir fíknisjúkdóma í leiðinni. Núverandi fyrirkomulag á áfengissölu er ekki að koma í veg fyrir að alkóhólistar kaupi sér áfengi og ég held að þessi fyrirhugaða lagabreytingu muni ekki breyta neinu um stöðu fólks í samfélaginu. Krefjumst þess frekar að almennileg meðferðarúrræði standi fólki til boða því ekki erum við að fara að banna áfengi.

Stjórnarskrármálið

Endurnýjun stjórnarskrárinnar er löngu orðin tímabær, það er allavega eitt sem Píratar geta sameinast um. Það hefur ekki farið framhjá neinum að fyrir liggja tillögur nefndar um breytingar á tilteknum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Sem er í sjálfu sér undur og stórmerki. Hins vegar liggur fyrir ný stjórnarskrá sem aðrir aðilar vilja að verði samþykkt í heild sinni. Sem er einnig stórmerkilegt.

Umræðan er farin að snúast um að annað hvort samþykkjum við það sem nefndin leggur til eða höfnum því algerlega og krefjumst því að ný stjórnarskrá verði tekin í gagnið. Ég skil bæði sjónarmið ágætlega. Það fyrra snýr að því að sýna fram á samstarfsvilja og von um að verkefnið muni halda áfram á næstu árum. Seinna sjónarmiðið er meira prinsippmál enda hefur mikil vinna verið lögð í nýju stjórnarskránna.

Mikil áhersla hefur verið lögð á það að taka nýtt auðlindaákvæði óbreytt upp. Það er skiljanlegt, enda er orðið frekar þreytandi að fyrirtæki séu að græða meira á sameiginlegum auðlindum okkar en ekki þjóðin. Stjórnarskráin stendur þó ekki sjálfstæð heldur hefur hún alltaf verið túlkuð af dómstólum. Þannig hafa til dæmis gengið dómar sem staðfesta að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er í samræmi við stjórnarskrá og eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar hefur verið túlkað eigendum fiskveiðifyrirtækja í hag.

Því langar mig að velta einu upp. Er eitthvað sem kemur í veg fyrir það að ný stjórnarskrá verði túlkuð þessum sömu hagsmunaaðilum í hag? Eru komnir upp þeir varnaglar í íslenska stjórnskipan sem myndu tryggja það að stjórnarskráin myndi vera túlkuð íslenskum almenningi í hag?

Það væri allavega frekar pirrandi að fá nýja stjórnarskrá í gagnið en ekkert kerfi í kringum hana sem tryggir almannahagsmuni.

Forseti vor

Þau stórtíðindi bárust á nýársdag að forseti vor mun ekki gefa kost á sér í næstu forsetakosningum. Það er í rauninni mjög merkilegt að forsetinn geti bara ákveðið sjálfur hversu lengi hann ætlar sér að sitja í forsetastól. 20 ár eru alveg frekar langur tími. Einnig er það áhugavert að hann hefur sjálfur skapað sér ímynd sem ómissandi leiðtogi þjóðarinnar. Engin lög eru til um embættið og það vald sem honum er gefið í stjórnarskránni eru leifar frá því þegar Ísland var undir danskri konungsstjórn. Þó að það virðist sem forsetinn hafi mikil völd samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar, þá er framkvæmdarvaldið í raun tekið strax af honum í 13. greininni.

Ólafur Ragnar skapaði sér sérstöðu meðal þeirra sem setið hafa á forsetastól með því að beita hinu svo kallaða synjunarvaldi forseta, sem fjallað er um í 26. gr. stjórnarskrárinnar. Fyrir síðustu kosningar var það mikið baráttumál fyrir tiltekna hópa að fá Ólaf aftur í forsetastólinn því að vonin var að hann myndi synja tilteknu lagafrumvarpi um veiðigjöld. Með því var framboð Ólafs gert pólitískt en aftur á móti var framboð Þóru Arnórsdóttur það ekki.

Það er svo sem ekkert óeðlilegt að forsetaembætti séu pólitísk. Okkur nægir að líta til Bandaríkjanna og Frakklands, þar sem forsetar hafa tiltekin völd og eru einhvers konar jafnvægi á móti þinginu. En ef við lítum til Danmerkur, þaðan sem stjórnskipan okkar er komin, þá er þar enginn forseti heldur ópólitísk konungsfjölskylda sem skiptir sér ekki að því sem er að gerast á þinginu en er hins vegar með margra áratuga þjálfun í að taka á móti öðrum þjóðhöfðingjum.

Það er endalaust hægt að rökræða um hver staða forseta átti að verða þegar Ísland varð lýðveldi en þó er ljóst að það stóð alltaf til að afmarka hlutverk forseta betur. Þó svo að það megi agnúast út í Ólaf fyrir að hafa verið alltof lengi á Bessastöðum þá er á sama tíma aðdáunarvert hvernig hann hefur nýtt sér gloppur í stjórnarskránni.

Það sem við getum lært af þessari löngu valdatíð er að það þarf að skilgreina völd forseta betur. Hvort sem ákveðið verður að embættið eigi að vera pólitísk eða einfaldlega að forsetinn eigi að sinna veisluhöldum fyrir þjóðhöfðingja þá er mjög mikilvægt að það sé afmarkað nægilega vel. Við vitum ekkert hvað næsta forseta gæti dottið í hug að gera.

2016

Árið 2005 byrjaði ég að blogga og þar mátti meðal annars finna mjög djúpar færslur um unglingsárin í bland við órökstuddar skoðanir um allt milli himins og jarðar. Í þá gömlu góðu daga bloggaði kona um allt sem henni datt í hug.

Þegar nýtt ár gengur í garð (og kona fer að nálgast þrítugt) langar hana að prófa að halda úti bloggi á nýjan leik. Mér leiðast þó áramótaheit og ætla ekki að gefa uppi nein loforð um innihald eða fjölda færslna sem munu birtast hér.

En ég vona að þið, kæru lesendur, munið hafa af því gaman og kannski eitthvað gagn.

Gleðilegt nýtt ár!