Trú og trúarbrögð

Fyrir þessi jól hef ég ákveðið að gera skýran greinarmun á trú og trúarbrögðum. Trúfrelsi er ein af birtingarmyndum skoðana- og tjáningarfrelsis. Einstaklingurinn hefur frelsi til þess að hugsa það sem viðkomandi vill og á ekki að líða mismunun vegna hugsana sinna eða tjáningu á þeim. Þannig er mér frjálst að hugsa að einhver sé bölvaður fáviti og segja það upphátt, svo lengi sem sú tjáning gengur ekki gegn almennum hegningarlögum. Það skiptir mig því engu máli hvort þú trúir á Guð, Allah, Búdda eða einhverja yfirnáttúrulega krafta. Ég skal meira að segja sýna fólki þá virðingu að fara ekki að rökræða við það um tilvist þessara fyrirbæra, enda kemur það mér ekkert við hvað fólk kýs að trúa á til þess að koma sér í gegnum lífið. Persónulega trúi ég á fólkið í kringum mig og fer reglulega til sálfræðings til að létta af mér því helsta sem er að angra sálina. Fólk finnur mismunandi leiðir til þess að takast á við lífið og það er vel.

Að þessu sögðu ætla ég að leyfa mér að gagnrýna trúarbrögð. Það er mikill munur á trú og trúarbrögðum. Ég get til dæmis trúað því að það hjálpi mér að fara reglulega til sálfræðings. Alveg eins og fólk hefur leitað huggunar í bænum og gömlum bókum í mörg hundruð ára. Sú trú byggir hins vegar ekki á óbilandi trú minni á einhvers konar valdapýramída innan sálfræðistéttarinnar. Trúarbrögð eru samansafn af hefðum og venjum sem samfélagið staðfestir reglulega að sé í lagi að viðgangist.

Helsta birtingarmynd trúarbragða er í einhvers konar stigskiptingu. Á toppnum trónir einstaklingur sem fær vald sitt frá einhvers konar almætti sem svo dreifir valdinu niður pýramídann. Neðst í pýramídanum er svo almenningur sem setur traust sitt á þá sem ofar sitja. Þetta skapar vissulega valdaójafnvægi og nýjasta dæmið um það hér á Íslandi er launahækkun biskups Íslands. Hún vill samt ekki tjá sig um hana og þeir sem hafa sett traust sitt á hana þora náttúrulega ekki að gagnrýna. Einnig má nefna dómsmálaráðherra sem dæmi, og í raun flesta einstaklinga innan íslenskra stjórnmála sem hafa nokkurn tímann gert eitthvað af sér í starfi. Þau eru með valdið og almenningur skal ekki dirfast að gagnrýna þau.

Meðvirkni og þolinmæði gagnvart valdníðslu grasserar nefnilega gríðarlega mikið innan svona stigskiptingar. Þetta birtist alls staðar í samfélaginu og er gagnrýnivert. Við skulum því ekki blanda saman trúnni og trúarbrögðunum. Alveg eins og við skulum ekki blanda saman stjórnmálasannfæringu og leiðtogadýrkun. Þegar við blindumst af ágæti tiltekinna einstaklinga þá missum við hæfileikann til þess að hugsa á gagnrýninn hátt.

Trúum því sem við viljum en leyfum ekki valdamiklum einstaklingum að gera lítið úr skoðunum okkar og trú með meðvirkni og þöggun. Þeir sem sitja á toppi pýramídans eru bara venjulegar manneskjur sem fá vald sitt frá okkur. Við skulum ekki gleyma því.