Framsækin umhverfisstefna Pírata

Píratar eru með gríðarlega framsækna stefnu í loftslagsmálum.

Það er svolítið grátlegt að tala um framsækna stefnu, þegar hennar helsta markmið er einfaldlega að Íslendingar standi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum gengist við. Einnig er ákall til stjórnvalda að axla ábyrgð á málaflokknum sem skilar markvissum og raunverulegum úrbótum til langs tíma. Þetta hljóta allir flokkar að vera sammála um.

Þetta þarf nefnilega ekki að vera flókið. Ísland á að vera leiðandi afl í umhverfismálum. Við höfum innviði, þekkingu og mannauð til þess að verða það. En einhver tregða hefur verið hjá stjórnvöldum að gera þetta að veruleika. Viljinn hefur frekar verið til þess að planta enn einu mengandi fyrirbæri einhvers staðar til þess að veiða atkvæði. Afhverju ekki að fjárfesta í mannauðnum sem býr hér í þessu landi og taka höndum saman við að þróa umhverfisvænar samgöngur, stunda rannsóknir á heimsmælikvarða um endurnýtanlega orkugjafa nú eða bara taka stórt skref í því að vernda þá einstöku náttúru sem fyrirfinnst hér á landinu.

Ég sat í pallborði Landverndar í Norræna húsinu fyrir viku síðan. Þar sátu flestir stjórnmálaflokkar fyrir svörum og einhugur var um að það þyrfti að gera eitthvað í þessum loftslagsmálum. Það er frábært að allir séu sammála um það. Ég vona því að á komandi kjörtímabili verði loftslagsmálin tekin föstum tökum. Tíminn er því miður að renna út og við munum þurfa að fara í miklu erfiðari aðgerðir seinna meir ef ekki er gripið í taumana núna.

Hér má lesa aðgerðaráætlun Pírata í loftslagsmálum: https://x.piratar.is/issue/313/