Með höfuðverk í hjartanu

Ef þú fótbrotnar, þá ferðu til læknis. Ef þú átt við andleg vandamál að stríða þá ferðu til sálfræðings. Þetta hljómar klippt og skorið en er það alls ekki. Ef þú fótbrotnar þá kemur sjúkrabíll að ná í þig, þú færð greiningu og viðeigandi meðferð. Eigir þú við þunglyndi að etja þá þarf einstaklingurinn sjálfur að leita uppi hentuga þjónustu. Jafnvel ef þú ert það langt leiddur að þú ert í sjálfsvígshættu þá þarftu að koma þér sjálfur upp á geðdeild og sannfæra geðteymi nógu mikið um slæma stöðu andlegs ástands þíns til þess að þú fáir aðstoð.

Eins og staðan er í dag er sálfræðiþjónusta ekki aðgengileg fyrir alla. Einn sálfræðitími kostar um það bil 14.000 krónur. Sumir eru það heppnir að geta fengið niðurgreiðslu frá stéttarfélagi. Sjálf hef ég þurft að leita mér aðstoðar sálfræðinga. Ég fann ekki fyrir miklum stuðningi frá kerfinu. Ég byrjaði á því að spyrja heimilislækni hvort að hún gæti vísað mér á geðlækni. Ég fékk þau svör að það væri nánast ómögulegt að fá tíma hjá geðlækni. Hún skrifaði þó upp á lyf fyrir mig og mælti með að ég myndi fara til sálfræðings samhliða lyfjatöku. En það er svo eitt, hvernig á manneskja sem er ekki í topp andlegu ástandi að finna út úr því að finna sér sálfræðing? Það var ekki fyrr en vinkona mín sem er félagsráðgjafi benti mér á heimasíðu þar sem ég gat leitað að sálfræðing sem hentaði mér, að ég lét slag standa. Þetta var um tveimur árum eftir að skrifað var upp á geðlyfin fyrir mig. Þetta er eins og að ég hefði gengið um með beinbrot í tvö ár og ekki fengið viðeigandi meðferð fyrr en að vinur minn hefði bent mér á að kannski væri réttast að ég léti lækni kíkja á brotið.

Afhverju er þessi tregða í samfélaginu að aðstoða einstaklinga við að takast á við andleg vandamál? Það er mín von og trú að ef að við gerum sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu aðgengilegri að við gætum komist að rótum svo margra vandamála. Til að mynda sækja þeir sem eiga við geðræn vandamál að stríða frekar í áfengi og eiturlyf. En við kennum alltaf lyfjunum og áfenginu um í staðinn fyrir að tækla vandamálið áður en það verður ógerlegt að eiga við það. Einnig hlýtur það að vera þjóðfélagslega hagkvæmt að fjárfesta í andlegri heilsu þjóðarinnar frá unga aldri í staðinn fyrir að vera alltaf að setja plástra á gapandi sár. 

Í stefnu Pírata er gert ráð fyrir að sálfræðiþjónusta verði niðurgreidd með sama hætti og önnur geðheilbrigðisþjónusta. Ég tel það vera fyrsta skrefið í að gefa fólki tækifæri á að takast á við sín andlegu vandamál. Annað skrefið væri að gera aðstoðina mun aðgengilegri og gefa fólki tækifæri á að takast á við vandamál sín með reisn. Það er erfitt að lítast í augu við sjálfan sig og viðurkenna að maður eigi við vanda að stríða. Við skulum hætta að gera lítið úr því fólki með því að benda þeim alltaf á lokaðar dyr.

  • Titill greinarinnar er fenginn að láni úr Englum alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson

Published by

OlgaCilia

Bókmenntafræðingur og lögfræðinemi. Sit í framkvæmdaráði Pírata. Hér má lesa hugleiðingar mínar.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s