#KÞBAVD

Ég er 4 ára. Ég segi leikskólakennara að það sé einn strákur á lóðinni með tyggjó (sem ég hélt að væri stranglega bannað). Hún gerir ekkert í því. Næstu ár myndi mér samt aldrei detta í hug að vera með tyggjó í kennslustund, því ég er svo dugleg að fylgja reglum. #KÞBAVD

Ég er 6 ára. Ég fæ þau skilaboð frá kennaranum mínum að ég eigi að passa upp á“ einn dreng í bekknum. Hann hlustar ekkert á mig í frímínútum og ég fer á sjúklegan bömmer yfir að hafa ekki farið eftir skýrum kröfum kennarans og eyði frímínútunum mínum í að reyna að hafa stjórn á þessum dreng, þegar ég hefði augljóslega átt að einbeita mér að því að skemmta sjálfri mér. #KÞBAVD

Ég er 8 ára. Það er strákur í bekknum okkar sem er búinn að ofsækja vinkonu mína það mikið að hún fær nóg og ræðst á hann. Hún er eina stelpan sem fer til skólastjórans það árið. Hún fær þau skilaboð að hún verði að róa sig niður. Strákurinn heldur áfram að ofsækja hana, hann var eflaust bara svona skotinn í henni.  #KÞBAVD

Ég er 10 ára. Vinkona mín er hrædd við að taka strætó heim. Það er einhver maður í hinu strætóskýlinu sem berar sig þegar hún er að bíða eftir strætó. Skilaboðin til mín: Leiddu þetta hjá þér. #KÞBAVD

Ég er 12 ára. Mér finnst mjög gaman í fótbolta. Bekkurinn minn hefur óheftan aðgang að fótboltavellinum einu sinni í viku. Ég röfla nógu mikið yfir þessu til að verða eina stelpan sem fær að vera með í fótbolta án þess að þurfa að væla um það daglega. Ég hætti í fótbolta stuttu síðar. #KÞBAVD

Ég er 14 ára. Í sundkennslu er eitthvað kríp sem horfir óþægilega mikið á stelpurnar í skólasundi. Á einum tímapunkti kemur þessi maður inn á sundbrautina þar sem við erum að synda og rennir sér„óvart“ yfir bekkjarsystur mína. Engin viðbrögð frá neinum. Í kjölfarið hugsaði ég: Já, ég ætla aldrei að vera með brjóstin á mér það áberandi að einhverjum gæti dottið í hug að koma óvart við þau. #KÞBAVD

Ég er 16 ára. Strákarnir geta talað óheflað um sjálfsfróun og hvað þeim finnst um hitt kynið. Sjálfsfróun kvenna er sjúklega mikið tabú og við skulum ekki dirfast að nefna hana á nafn, þá gætum við fengið druslustimpil á okkur. #KÞBAVD

Ég er 18 ára. Ég þarf í alvörunni að verja það í tíma að það skipti ekki máli þó að rannsóknir sýni að heilar kynjanna séu misjafnir að stærð; við séum í alvörunni jafn hæf til þess að takast á við sömu verkefni. Ég mæti mikilli mótstöðu við þessari hugmynd í tíma, það er enginn í kennslustofunni tilbúin að taka slaginn með mér. Ekki einu sinni kennarinn. #KÞBAVD

Ég er 20 ára. Nýútskrifuð úr menntaskóla og heyri óþarflega oft að ég get gert allt sem mig langar til. Á sama tíma er pressa frá samfélaginu um að ég finni mér maka, ákveði hversu mörg börn ég ætla að eiga og hvort ég sé ekki örugglega farin að safna mér fyrir íbúð. #KÞBAVD

Ég er 22 ára. Ég er að reyna að finna jafnvægið milli þess að vera sjálfstæð kona og reyna að uppfylla þær skyldur sem samfélagið setur á mig. Vinir mínir hjálpa mér í makaleit með því að tala um hvað menn, sem eru augljóslega með lægri tilfinningaþroska en ég, eru fullkomnir fyrir mig og ég ætti bara að byrja með hinum og þessum. Þegar ég mótmæli þá er ég ósanngjörn og með of háar kröfur. #KÞBAVD

Ég er 24 ára. Eftir að hafa orðið fyrir ýmis konar sálrænum áföllum, sem brutu á friðhelgi líkama míns og sálar, reyni ég að vera virk manneskja í samfélaginu. Ég fæ háðsglósur um af hverju ég sé í svona óhagnýtu námi og hvort ég þurfi ekki að finna mér mann bráðlega. Í sannleika sagt þá hefði ég ekki höndlað meira krefjandi nám og ég veit ekki hvernig karlmaður hefði gert allt betra fyrir mig á þessum tímapunkti. #KÞBAVD

Ég er 26 ára. Ég er komin heim eftir skiptinám í stórborg og er búin að upplifa óöryggið sem fylgir því að geta ekki labbað heim án þess að eiga það á hættu að einhver ráðist á mig. Ég er búin að læra að hafa varann á varðandi samskipti mín við alla, óháð kyni, því ég hef heyrt svo margar ógeðslegar sögur um hverju konur hafa lent í. En við skulum ekki dirfast að nefna þetta við karlmenn, því þá erum við að ráðast á karlkynið í heild sinni. #KÞBAVD

Ég er 28 ára. Ég er byrjuð í laganámi. Ég upplifi það að rödd mín er ekki jafn sterk og rödd allra strákanna sem eru nýútskrifaðir úr menntaskóla. Ég heyri karlkyns kennara hæla karlkyns nemendum fyrir BA og MA ritgerðir á meðan ég hlusta á konur með mér í námi gera lítið úr sínum eigin hugmyndum og ritgerðarefnum. Ég les að Hæstiréttur, sem er mestmegnis skipaður körlum, dæmi gróft kynferðisbrot gegn konu sem ofbeldisbrot, út af því að það getur bara alls ekki verið um nauðgun að ræða ef gerandi ætlaði sér ekki að fá kynferðislega fullnægingu út úr athöfninni. Ég verð vitni að því að aðrir löglærðir karlmenn verji þessa niðurstöðu í ljósi þess að lögin séu skýr, þrátt fyrir það að í greinargerð með ákvæði stendur að brot á friðhelgi kynfrelsis þolanda eigi að flokkast sem nauðgun. En það er náttúrlega kona sem túlkaði hlutina þannig og kona sem bendir réttilega á í dómsniðurstöðu að kannski ætti að taka tillit til upplifunar þolandans á aðstæðum. Þegar kona bendir á að feðraveldið sé allsráðandi í Hæstarétti fæ ég að heyra að við séum bara að misskilja virkni dómskerfisins. Við erum að tala um dómskerfi sem karlar hafa verið skipaðir til þess að sitja í, í meira en 100 ár, af öðrum karlmönnum. En ég er bara að misskilja. Augljóslega hafa karlar jafnmikinn skilning á samfélaginu eins og konur. Ég þarf bara að treysta þeim. #KÞBAVD

Ég er 30 ára. Ég er búin að leggja gríðarlega orku og tíma í að byggja sjálfa mig upp. Ég er búin að mennta mig, ég er búin að búa til jafnvægi inni á mínu heimili, ég er búin að neita að hella upp á kaffi þegar fundir eru haldnir, ég er búin að vera úti að skemmta mér og þurft að segja karlmönnum að hætta að elta mig, ég er búin að veita konum í kringum mig stuðning, ég er búin að þurfa að miðla málum milli karla og kvenna. Samt er enn sú krafa frá samfélaginu að ég haldi áfram, útskýri aftur í hverju misréttið felist, útskýra aftur að karlar tala að jafnaði meira en konur, útskýra hvernig kaffivélin virkar, útskýra að ég sé ekki að ráðast á alla karlmenn sem ég þekki þegar mig langar að brjóta niður feðraveldið. Ég er búin að gera allt sem ég get. Getur samfélagið núna tekið við kyndlinum, „lean in“ gagnvart konum og farið að líta á konur og karla sem jafninga. Ég er allavega búin að vera mjög dugleg við þetta allt saman. 

#KÞBAVD

 

Published by

OlgaCilia

Bókmenntafræðingur og lögfræðinemi. Sit í framkvæmdaráði Pírata. Hér má lesa hugleiðingar mínar.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s