Setjum umhverfismál á oddinn!

Síðastliðið sumar á Íslandi var óvenju gott og höfum við vissulega gott af því að fá sól og hita í kroppinn. Það er leiðinlegt að vera fúl á móti þegar lífið er gott, en það getur ekki talist eðlilegt að á eyju í norður í Atlantshafi fari hitinn í 28 stig. Það er erfitt að líta til þess að loftslagsbreytingar séu að hafa slæm áhrif á heiminn í heild sinni þegar nærumhverfi okkar hefur ekki enn fengið að kenna eins mikið á óeðlilegum veðurfyrirbrigðum og önnur lönd. Loftslagsbreytingar hafa enn sem komið er ekki haft finnanleg áhrif á lífsviðurværi okkar Íslendinga. Þó að við viðrumst oft gleyma því þá eru hitabreytingar farnar að hafa áhrif á náttúru Íslands. Jöklar eru byrjaðir að hopa, hlýnun sjávar hefur haft áhrif á göngur fiska og sjáum við fram á breytingar í fuglalífi. (http://www.vedur.is/loftslag/loftslagsbreytingar/liklegar/).

Áhrif loftslagsbreytinga eru farnar að hafa gríðarlega hættuleg áhrif víðsvegar á hnettinum. Mannskæðir fellibyljir hafa riðið yfir karabíska hafið og Bandaríkin undanfarnar vikur, hvar fjölmargir hafa látist eða þurftu að yfirgefa heimili sín. Á sama tíma voru mestu flóð í Asíu í áratugi þar sem um 1000 manns létu lífið. Mikinn flóttamannastraum til Evrópu má einnig rekja að einhverju leyti til mikilla þurrka sem stefna lífsviðurværi fólks í hættu. (http://ruv.is/frett/loftslagsbreytingar-auka-likur-a-ofridi)

Íslensk stjórnvöld ættu að vera fremst í flokki varðandi umhverfisvernd með það fyrir augum að draga úr hlýnun jarðar. Því miður hefur stefna stjórnvalda ekki verið íí þáá átt að efla nýsköpun og umhverfisvænan iðnað. Þess í stað lúffum við fyrir mengandi stóriðjufyrirtækjum og berum fyrir okkur að við séum að bjarga landsbyggðinni. Mér sýnist fullreynt að nýta mengandi stóriðju til að bjarga smærri bæjarfélögum. Ég get ekki séð að ávinningurinn sé nógu mikill til að réttlæta að við spúum eiturefnum í andrúmsloftið og reisum forljótar verksmiðjur hér og þar. Auk þess eru gerðir svo óhagstæðir samningar við þessi fyrirtæki að ágóðinn er lítill sem enginn. Þetta er algjör vanvirðing við bæði land og þjóð. United Silicon er nýjasta dæmið, þar sem gerðir eru samningar á harðahlaupum til þess að efna léleg kosningaloforð, en þau eru orðin mýmörg.

Náttúrunni á Íslandi og í heiminum hefur ekki verið sýnd sú virðing sem hún á skilið og er því nauðsynlegt að samþykkja nýja stjórnarskrá þar sem heilt ákvæði gerir ráð fyrir vernd náttúrunnar. Í ákvæðinu segir meðal annars að „Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.“

Ég kalla því eftir að næsta ríkisstjórn myndi sér langtímastefnu um náttúruvernd með framtíð Íslands og heimsins alls í huga og hætti að líta á umhverfisvernd sem skiptimynt í kjördæmapoti sem enginn græðir á til lengri tíma litið. Það þarf einhver að gerast talsmaður umhverfisins. 

 

Með höfuðverk í hjartanu

Ef þú fótbrotnar, þá ferðu til læknis. Ef þú átt við andleg vandamál að stríða þá ferðu til sálfræðings. Þetta hljómar klippt og skorið en er það alls ekki. Ef þú fótbrotnar þá kemur sjúkrabíll að ná í þig, þú færð greiningu og viðeigandi meðferð. Eigir þú við þunglyndi að etja þá þarf einstaklingurinn sjálfur að leita uppi hentuga þjónustu. Jafnvel ef þú ert það langt leiddur að þú ert í sjálfsvígshættu þá þarftu að koma þér sjálfur upp á geðdeild og sannfæra geðteymi nógu mikið um slæma stöðu andlegs ástands þíns til þess að þú fáir aðstoð.

Eins og staðan er í dag er sálfræðiþjónusta ekki aðgengileg fyrir alla. Einn sálfræðitími kostar um það bil 14.000 krónur. Sumir eru það heppnir að geta fengið niðurgreiðslu frá stéttarfélagi. Sjálf hef ég þurft að leita mér aðstoðar sálfræðinga. Ég fann ekki fyrir miklum stuðningi frá kerfinu. Ég byrjaði á því að spyrja heimilislækni hvort að hún gæti vísað mér á geðlækni. Ég fékk þau svör að það væri nánast ómögulegt að fá tíma hjá geðlækni. Hún skrifaði þó upp á lyf fyrir mig og mælti með að ég myndi fara til sálfræðings samhliða lyfjatöku. En það er svo eitt, hvernig á manneskja sem er ekki í topp andlegu ástandi að finna út úr því að finna sér sálfræðing? Það var ekki fyrr en vinkona mín sem er félagsráðgjafi benti mér á heimasíðu þar sem ég gat leitað að sálfræðing sem hentaði mér, að ég lét slag standa. Þetta var um tveimur árum eftir að skrifað var upp á geðlyfin fyrir mig. Þetta er eins og að ég hefði gengið um með beinbrot í tvö ár og ekki fengið viðeigandi meðferð fyrr en að vinur minn hefði bent mér á að kannski væri réttast að ég léti lækni kíkja á brotið.

Afhverju er þessi tregða í samfélaginu að aðstoða einstaklinga við að takast á við andleg vandamál? Það er mín von og trú að ef að við gerum sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu aðgengilegri að við gætum komist að rótum svo margra vandamála. Til að mynda sækja þeir sem eiga við geðræn vandamál að stríða frekar í áfengi og eiturlyf. En við kennum alltaf lyfjunum og áfenginu um í staðinn fyrir að tækla vandamálið áður en það verður ógerlegt að eiga við það. Einnig hlýtur það að vera þjóðfélagslega hagkvæmt að fjárfesta í andlegri heilsu þjóðarinnar frá unga aldri í staðinn fyrir að vera alltaf að setja plástra á gapandi sár. 

Í stefnu Pírata er gert ráð fyrir að sálfræðiþjónusta verði niðurgreidd með sama hætti og önnur geðheilbrigðisþjónusta. Ég tel það vera fyrsta skrefið í að gefa fólki tækifæri á að takast á við sín andlegu vandamál. Annað skrefið væri að gera aðstoðina mun aðgengilegri og gefa fólki tækifæri á að takast á við vandamál sín með reisn. Það er erfitt að lítast í augu við sjálfan sig og viðurkenna að maður eigi við vanda að stríða. Við skulum hætta að gera lítið úr því fólki með því að benda þeim alltaf á lokaðar dyr.

  • Titill greinarinnar er fenginn að láni úr Englum alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson

#KÞBAVD

Ég er 4 ára. Ég segi leikskólakennara að það sé einn strákur á lóðinni með tyggjó (sem ég hélt að væri stranglega bannað). Hún gerir ekkert í því. Næstu ár myndi mér samt aldrei detta í hug að vera með tyggjó í kennslustund, því ég er svo dugleg að fylgja reglum. #KÞBAVD

Ég er 6 ára. Ég fæ þau skilaboð frá kennaranum mínum að ég eigi að passa upp á“ einn dreng í bekknum. Hann hlustar ekkert á mig í frímínútum og ég fer á sjúklegan bömmer yfir að hafa ekki farið eftir skýrum kröfum kennarans og eyði frímínútunum mínum í að reyna að hafa stjórn á þessum dreng, þegar ég hefði augljóslega átt að einbeita mér að því að skemmta sjálfri mér. #KÞBAVD

Ég er 8 ára. Það er strákur í bekknum okkar sem er búinn að ofsækja vinkonu mína það mikið að hún fær nóg og ræðst á hann. Hún er eina stelpan sem fer til skólastjórans það árið. Hún fær þau skilaboð að hún verði að róa sig niður. Strákurinn heldur áfram að ofsækja hana, hann var eflaust bara svona skotinn í henni.  #KÞBAVD

Ég er 10 ára. Vinkona mín er hrædd við að taka strætó heim. Það er einhver maður í hinu strætóskýlinu sem berar sig þegar hún er að bíða eftir strætó. Skilaboðin til mín: Leiddu þetta hjá þér. #KÞBAVD

Ég er 12 ára. Mér finnst mjög gaman í fótbolta. Bekkurinn minn hefur óheftan aðgang að fótboltavellinum einu sinni í viku. Ég röfla nógu mikið yfir þessu til að verða eina stelpan sem fær að vera með í fótbolta án þess að þurfa að væla um það daglega. Ég hætti í fótbolta stuttu síðar. #KÞBAVD

Ég er 14 ára. Í sundkennslu er eitthvað kríp sem horfir óþægilega mikið á stelpurnar í skólasundi. Á einum tímapunkti kemur þessi maður inn á sundbrautina þar sem við erum að synda og rennir sér„óvart“ yfir bekkjarsystur mína. Engin viðbrögð frá neinum. Í kjölfarið hugsaði ég: Já, ég ætla aldrei að vera með brjóstin á mér það áberandi að einhverjum gæti dottið í hug að koma óvart við þau. #KÞBAVD

Ég er 16 ára. Strákarnir geta talað óheflað um sjálfsfróun og hvað þeim finnst um hitt kynið. Sjálfsfróun kvenna er sjúklega mikið tabú og við skulum ekki dirfast að nefna hana á nafn, þá gætum við fengið druslustimpil á okkur. #KÞBAVD

Ég er 18 ára. Ég þarf í alvörunni að verja það í tíma að það skipti ekki máli þó að rannsóknir sýni að heilar kynjanna séu misjafnir að stærð; við séum í alvörunni jafn hæf til þess að takast á við sömu verkefni. Ég mæti mikilli mótstöðu við þessari hugmynd í tíma, það er enginn í kennslustofunni tilbúin að taka slaginn með mér. Ekki einu sinni kennarinn. #KÞBAVD

Ég er 20 ára. Nýútskrifuð úr menntaskóla og heyri óþarflega oft að ég get gert allt sem mig langar til. Á sama tíma er pressa frá samfélaginu um að ég finni mér maka, ákveði hversu mörg börn ég ætla að eiga og hvort ég sé ekki örugglega farin að safna mér fyrir íbúð. #KÞBAVD

Ég er 22 ára. Ég er að reyna að finna jafnvægið milli þess að vera sjálfstæð kona og reyna að uppfylla þær skyldur sem samfélagið setur á mig. Vinir mínir hjálpa mér í makaleit með því að tala um hvað menn, sem eru augljóslega með lægri tilfinningaþroska en ég, eru fullkomnir fyrir mig og ég ætti bara að byrja með hinum og þessum. Þegar ég mótmæli þá er ég ósanngjörn og með of háar kröfur. #KÞBAVD

Ég er 24 ára. Eftir að hafa orðið fyrir ýmis konar sálrænum áföllum, sem brutu á friðhelgi líkama míns og sálar, reyni ég að vera virk manneskja í samfélaginu. Ég fæ háðsglósur um af hverju ég sé í svona óhagnýtu námi og hvort ég þurfi ekki að finna mér mann bráðlega. Í sannleika sagt þá hefði ég ekki höndlað meira krefjandi nám og ég veit ekki hvernig karlmaður hefði gert allt betra fyrir mig á þessum tímapunkti. #KÞBAVD

Ég er 26 ára. Ég er komin heim eftir skiptinám í stórborg og er búin að upplifa óöryggið sem fylgir því að geta ekki labbað heim án þess að eiga það á hættu að einhver ráðist á mig. Ég er búin að læra að hafa varann á varðandi samskipti mín við alla, óháð kyni, því ég hef heyrt svo margar ógeðslegar sögur um hverju konur hafa lent í. En við skulum ekki dirfast að nefna þetta við karlmenn, því þá erum við að ráðast á karlkynið í heild sinni. #KÞBAVD

Ég er 28 ára. Ég er byrjuð í laganámi. Ég upplifi það að rödd mín er ekki jafn sterk og rödd allra strákanna sem eru nýútskrifaðir úr menntaskóla. Ég heyri karlkyns kennara hæla karlkyns nemendum fyrir BA og MA ritgerðir á meðan ég hlusta á konur með mér í námi gera lítið úr sínum eigin hugmyndum og ritgerðarefnum. Ég les að Hæstiréttur, sem er mestmegnis skipaður körlum, dæmi gróft kynferðisbrot gegn konu sem ofbeldisbrot, út af því að það getur bara alls ekki verið um nauðgun að ræða ef gerandi ætlaði sér ekki að fá kynferðislega fullnægingu út úr athöfninni. Ég verð vitni að því að aðrir löglærðir karlmenn verji þessa niðurstöðu í ljósi þess að lögin séu skýr, þrátt fyrir það að í greinargerð með ákvæði stendur að brot á friðhelgi kynfrelsis þolanda eigi að flokkast sem nauðgun. En það er náttúrlega kona sem túlkaði hlutina þannig og kona sem bendir réttilega á í dómsniðurstöðu að kannski ætti að taka tillit til upplifunar þolandans á aðstæðum. Þegar kona bendir á að feðraveldið sé allsráðandi í Hæstarétti fæ ég að heyra að við séum bara að misskilja virkni dómskerfisins. Við erum að tala um dómskerfi sem karlar hafa verið skipaðir til þess að sitja í, í meira en 100 ár, af öðrum karlmönnum. En ég er bara að misskilja. Augljóslega hafa karlar jafnmikinn skilning á samfélaginu eins og konur. Ég þarf bara að treysta þeim. #KÞBAVD

Ég er 30 ára. Ég er búin að leggja gríðarlega orku og tíma í að byggja sjálfa mig upp. Ég er búin að mennta mig, ég er búin að búa til jafnvægi inni á mínu heimili, ég er búin að neita að hella upp á kaffi þegar fundir eru haldnir, ég er búin að vera úti að skemmta mér og þurft að segja karlmönnum að hætta að elta mig, ég er búin að veita konum í kringum mig stuðning, ég er búin að þurfa að miðla málum milli karla og kvenna. Samt er enn sú krafa frá samfélaginu að ég haldi áfram, útskýri aftur í hverju misréttið felist, útskýra aftur að karlar tala að jafnaði meira en konur, útskýra hvernig kaffivélin virkar, útskýra að ég sé ekki að ráðast á alla karlmenn sem ég þekki þegar mig langar að brjóta niður feðraveldið. Ég er búin að gera allt sem ég get. Getur samfélagið núna tekið við kyndlinum, „lean in“ gagnvart konum og farið að líta á konur og karla sem jafninga. Ég er allavega búin að vera mjög dugleg við þetta allt saman. 

#KÞBAVD