Fjölmiðlafyrirtæki fylgist með okkur

Við virðumst lítið kippa okkur upp við það þessa dagana þegar við heyrum af því að fyrirtæki fylgist með netnotkun okkar og nýti þær upplýsingar sér í hag. Fram kom í fréttum RÚV nýverið (ruv.is: „Forstjóri 365: „Erum með réttin okkar megin“) að eitt stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins er að fylgjast með okkur. Með því framferði eru fyrirtæki komin út á hálan ís hvað varðar friðhelgi einkalífs okkar.

Hvað græða fyrirtæki á því að fylgjast með notendum sínum? Hegðun okkar á netinu segir mikið til um kauphegðun okkar. Fyrirtæki græða á því að við séum skilvirkari neytendur. 365 er ekki bara framleiðandi sjónvarpsefnis, heldur bjóða þeir upp á internet, síma og gefa út fréttablað. Segjum sem svo að þú sért með internettengingu hjá 365. Þeir fylgjast með notkun þinni þar og nýta upplýsingarnar sem þeir fá til þess að búa til fréttir sem þú vilt lesa. Þeir nota þær upplýsingar til þess að selja auglýsingar í blöðin sín. Einhverjum gæti fundist þetta léttvægt, en veltum því fyrir okkur hversu mikið vald fjölmiðlar hafa til dæmis á stjórnmálaumræðu. Það er í rauninni ekki alveg ljóst af þessari litlu frétt hvernig ferlið á sér stað, sem gerir þetta mjög tortryggilegt og maður fer að velta því fyrir sér hvort allt sé með felldu.

Ef nauðsynlegt þykir að skerða mannréttindi þá þarf að uppfylla tiltekin skilyrði. Stjórnarskráin tryggir þetta og ferlið á að koma í veg fyrir geðþóttaákvarðanir einkafyrirtækja og stjórnvalda.

Réttur fólks til einkalífs

Friðhelgi einkalífsins er tryggt  í 71. gr. stjórnarskrár Íslands. Í sömu grein segir að það megi takmarka þessi réttindi með lagaheimild ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. Því þarf að uppfylla þrjú skilyrði ef að stjórnvöld ætla sér að takmarka friðhelgi okkar.

Í fyrsta lagi kemur skýrt fram að það þurfi lagaheimild til. Það þýðir að löggjafinn þarf að samþykkja lög sem setja fram með skýrum hætti í hvaða tilvikum þessi réttindi megi vera skert og á hvaða hátt það sé gert. 11. kafli laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er dæmi um slíka lagaheimild. Þar segir að ef tilteknum skilyrðum sé uppfyllt þá megi lögreglan fylgjast með afmörkuðum samskiptum. Það gefur líka augaleið að það er lögreglan sem á að framkvæma þetta eftirlit. Lögreglan starfar innan afmarkaðs lagaramma. Þetta á að koma í veg fyrir að tilfallandi aðilar úti í bæ fari að fylgjast með fjarskiptum okkar. Alveg eins og tollverðir hafa leyfi til þess að leita í töskum okkar þegar við komum til landsins og barnaverndarnefnd hefur heimildir til þess að grípa inn í ef grunur leikur á um brot gegn börnum og svo mætti lengi upp telja. Þessar reglur eru til staðar til þess að vernda réttaröryggi okkar.

Í öðru lagi er talað um brýna nauðsyn. Það felur í sér að eitthvað mikið er í húfi. Þannig getur lögreglan til dæmis skorist í leikinn ef grunur leikur á um heimilisofbeldi, barnaverndarnefnd getur tekið börn af heimilum og tollverðir geta spurt þig hvað er í töskunni þinni. Þessi brýna nauðsyn byggir því á því að hagsmunir almennings séu að veði. Það er nátengt þriðja skilyrðinu sem er að réttindi annarra liggi við; réttindi maka til að vera laus við heimilisofbeldi og réttur barna til þess að mega alast upp við öruggt fjölskyldulíf. Þessar undanþágur eru til staðar til þess að vernda þá sem minna mega sín gagnvart ofurafli einhvers annars, til dæmis stórra einkafyrirtækja.

Þegar forstjóri fjölmiðlafyrirtækis segir að þau séu með réttin sín megin, vekur það upp ýmsar spurningar. Undanþágur frá verndun friðhelgi einkalífs eru háðar því að almannahagsmunir séu í húfi. Hér erum við með stórt fjölmiðlafyrirtæki sem telur sig eiga tiltekin réttindi. Vissulega er skiljanlegt að 365 er ósátt við að fólk sé að nálgast efnið þeirra ókeypis, en það breytir því ekki að aðferðir þeirra til að koma í veg fyrir það eru ólögmætar. Eins og þetta óljósa ferli er sett upp í frétt RÚV þá fær 365 upplýsingar frá FRÍSK (Félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði) um hverjir hafa sett inn framleiðsluefni þeirra á deiliveitur. Sem sagt, einhver starfsmaður FRÍSK sér að notandi, til dæmis „User12“, hefur hlaðið upp skránni Borgarstjórinn. FRÍSK kemur þessum upplýsingum áleiðis til 365 sem svo að eigin sögn einfaldlega skoða hverjir „mögulega geti verið þarna á bakvið“ og telja sig í fullum rétti til að fylgjast með IP-tölum. Í raun er enginn munur á því að fylgjast með IP-tölum og öðrum persónuupplýsingum, til dæmis að hlera símanúmer. Samkvæmt nýlegum úrskurði Evrópudómstólsins þá flokkast IP-tölur undir persónuupplýsingar. FRÍSK vinnur samkvæmt lögum nr. 62/2006 um kvikmyndaskoðun. Ekkert kemur fram í lögunum um að félagið hafi heimild til þess að fylgjast fjarskiptum okkar eða koma þeim upplýsingum áleiðis til annars aðila. 365 er fjölmiðlafyrirtæki. Þau starfa því samkvæmt lögum nr. 38/2011 um fjölmiðla. Ekkert í þeim lögum veitir fjölmiðlum leyfi til þess að fylgjast með fjarskiptum okkar.

Þetta er því vissulega ferli sem er á gráu svæði og sem internetnotandi og almennur borgari, þá hrís mér hugur að vita af því að fjölmiðlafyrirtæki, eða í raun hver sem er, gæti verið að fylgjast með því sem ég geri á internetinu. Þar sem þetta svo kallaða eftirlit þeirra er ekki bundið neinum reglum eða leyfum, hvernig getum við þá vitað hversu víðtækt það er í raun?

Eftirlit fyrirtækja með notendum

Eins og þetta lítur út, þá telur 365 sig geta fylgst með fjarskiptanotkun okkar, óháð því hvort við séum í áskrift af sjónvarpsstöðum þeirra eða nýtum okkur fjarskiptaþjónustu þeirra. Ekki að það væri hægt að afsaka þetta framferði eitthvað ef þeir miðuðu þessa gagnasöfnun einungis að eigin notendum. 365 er í eigu hagsmunaaðila. Langstærsti eigandinn er Ingibjörg Pálmadóttir, sem stundar víðtæk viðskipti og á alls konar önnur félög. Það gefur augaleið að hún og félög í hennar eigu eiga mikilla hagsmuna að gæta, bæði hvað varðar stjórnmálaumhverfi og hegðun neytenda. Það er stórhættulegt ef valdamiklir aðilar telja sig geta fylgst með fjarskiptanotkun almennings. Og getum við verið viss um að fjölmiðlafyrirtæki sem nýtir sér þessar upplýsingar, sé ekki að deila þeim með eigendum sínum sem geta svo deilt þeim áfram til annarra fyrirtækja í sinni eigu?

Miðað við hvað ferlið sem forstjóri 365 lýsir í greininni er óljóst og virðist ekki byggt á neinum einustu heimildum þá veltir maður því fyrir sér hvaða aðrar upplýsingar þeir telja sig mega nýta og dreifa með öðrum. Mun ég fá heimsókn frá starfsmanni 365 sem athugar hvort að auglýsingar Fréttablaðsins séu að skila árangri? Er ég að drekka nóg kók, borða nógu mikið af KFC og kjósa rétta stjórnmálaflokkinn? Eftirlit með almennum borgara er alltaf eftirlit með almennum borgara, sama þó það fari fram í gegnum internet, síma eða öryggismyndavélar. Þó að forstjóri fyrirtækis haldi því fram að þeir séu með réttin sín megin, þá megum við ekki gleyma því að mannréttindi eru til þess að vernda okkur gagnvart yfirgangi einkafyrirtækja. Við eigum tiltekin réttindi og eigum að fá að njóta þeirra í friði. Það er stórhættulegt ef fyrirtæki telja sig mega fylgjast með og stýra internetnotkun okkar.  Það er vonandi að Persónuvernd stígi inn í þetta sem fyrst og að réttur okkar á internetinu verði tryggður með lögum. Það er óviðunandi ástand að við getum ekki talið okkur örugg á internetinu, alveg eins og að það væri óviðunandi ef aðili frá fyrirtæki myndi liggja á glugganum hjá okkur og fylgjast með hegðun okkar. Rétturinn á alltaf að vera okkar megin.

Pistillinn birtist í Kvennablaðinu 12. desember 2016