Hið svokallaða lýðræði

 

Lýðræði felur í sér að almenningur tekur þátt í ákvörðunum er hann varðar. Á Íslandi er þetta lýðræði búið að þróast út á svo ótrúlega skrítnar brautir. Við fáum að kjósa á fjögurra ára fresti. Einhverjir flokkar fá meirihluta og næstu fjögur árin fær sá meirihluti að taka allar mikilvægar ákvarðanir er varða réttindi og skyldur borgaranna. Löggjafarvaldið gerir þetta með lagasetningu. Lagasetning er flókið fyrirbæri og getur tekið langan tíma. Það þarf að gera kostnaðaráætlanir, skoða alla vinkla er tengjast málefninu og þar fram eftir götunum. Eftir að frumvarp hefur verið samið, sem gerist oftast í einhverju lokuðu bakherbergi með hagsmunaaðilum, er það lagt fyrir Alþingi til samþykkis eða synjunar. Þar fara fram þrjár umræður og unnt er að leggja fram breytingartillögur. Ef breytingartillögurnar hugnast meirihlutanum þá fara þær í gegn. Að loknum þessum umræðum er frumvarpið lagt fyrir Alþingi til samþykkis eða synjunar. Samkvæmt Stjórnarskránni ætti hver þingmaður að kjósa eftir eigin sannfæringu á þessu stigi. Raunin er hins vegar sú að meirihlutaræðið á Íslandi er svo fast í sessi að það er í raun ómögulegt að fella frumvörp nema mikið almennt ósætti sé um það. Og jafnvel þá gerist ekkert. Til dæmis fóru Búvörulögin í gegnum Alþingi um daginn. Minnihlutinn fékk mikla gagnrýni á sig fyrir að kjósa ekki nei með samningnum. Ef það hefði verið gert hefði það auðvitað sýnt meiri samstöðu gegn þessum lögum, en ég leyfi mér að fullyrða að ef meirihlutinn hefði vitað að minnihlutinn ætlaði að kjósa nei, þá hefðu þeir smalað já fólki í salinn. Þessi lög hefðu (því miður) alltaf farið í gegnum Alþingi. Það hefur komið hörð gagnrýni á Búvörusamninginn frá því að hann var kynntur í vor, en þeir sem höfðu staðið að því að semja hann sögðu að það væru bara því miður of seint að breyta núna. En afsakið, afhverju fékk fólk ekki meira ráðrúm að koma með gagnrýni á þennan blessaða samning. Það geta vissulega allir sent inn álit á frumvörp, en afhverju að hafa fyrir því ef nefndin segir svo bara: „Sorry, not sorry.“

Það sama er að gerast með LÍN frumvarpið. Hörð gagnrýni hefur komið fram á frumvarpið. Efnisleg og formlega. Efnislega er því haldið fram að þetta frumvarp sé ekki að fara að bæta hag nemenda, heldur íþyngja þeim ef eitthvað er. Varðandi formhliðina hefur verið gefinn alltof stuttur tími til þess að koma með athugasemdir. Þrátt fyrir allar þær athugasemdir sem fram hafa komið á frumvarpið er líklegast að frumvarpið verði samþykkt. Afhverju? Jú, því meirihlutinn stendur saman.

Þannig að ég spyr, er meirihlutaræði besta leiðin til þess að stuðla að virku lýðræði. Núverandi ríkisstjórn hlaut eitthvað um 50% af atkvæðum í síðustu kosningu, og þeir sem þar sitja geta komið með alls konar frumvörp og fengið þau samþykkt á grundvelli einhvers stjórnarsáttmála. En hvað ef það koma fram frumvörp sem eru einfaldlega illa framsett og ekki í hag almennings? Eina leiðin fyrir almenning til þess að hafa áhrif er að biðla til forseta um að neita að skrifa undir lögin. Ef nógu margar undirskriftir safnast þá hefur forsetinn einn vald til þess að ákveða hvort hann telji undirskriftirnar nógu margar eða ekki.

Margir hafa spurt Pírata síðustu misserin með hverjum við myndum vilja fara í ríkisstjórn. Persónulega myndi ég vilja sjá róttækar breytingar í hver virkni ríkisstjórnarinnar og meirihlutans eigi að vera. Píratar leggja mikla áherslu á að þingmenn kjósi eftir eigin sannfæringu og ég vona að fleiri flokkar taki upp á því á næsta kjörtímabili. Til hvers erum við með minnihluta (sem er, rétt eins og meirihlutinn með ca. 50% þingsæta á Alþingi) ef hann hefur engin úrræði til þess að fá frumvörp felld eða samþykkt. Ef eina tæki minnihlutans til þess að koma einhverju á framfæri á þingi er málþóf, þá er eitthvað mikið að.

Einhvern veginn þarf að auka aðkomu almennings að gerða lagafrumvarpa. Þessi afsökun um að það sé of seint að breyta einhverju finnst mér vera hræðileg afsökun og merki um það að þeir sem sömdu þau höfðu ekki áhuga á að hlusta á gagnrýni til að byrja með. Mögulega er ein leið til þess að komast hjá þessu í framtíðinni að hætta að líta á minnihlutann og meirihlutann sem íþróttalið sem eru í keppni og fara að stuðla að meiri samvinnu allra þeirra sem sitja á þingi. Fólk hefur líka kosið þau sem sitja í minnihlutanum og raddir þeirra eiga líka að fá að heyrast. Annars munum við alltaf búa í með eða á móti samfélagi.