Ráðherraábyrgð: óvirkt réttarúrræði

Í gær skrifaði ég um úrræðaleysi gagnvart forstöðumönnum stofnana sem fara ekki eftir stjórnsýslulögum. En hvað gerist þegar æðstu yfirmenn embættismanna, ráðherrarnir, fara ekki eftir settum lögum í störfum sínum. Í BA ritgerð minni í lögfræði: Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra, var niðurstaða mín sú að afleiðingarnar eru í raun engar.

Flest þekkjum við til Lekamálsins sem rekja má til þess að fjölmiðlar birtu þann 20. nóvember 2013 trúnaðarupplýsingar, úr óformlegu minnisblaði innanríkisráðuneytisins, um tiltekna hælisleitendur. Innanríkisráðuneytið vildi ekki kannast við að þetta minnisblað hefði orðið til hjá þeim. Lögreglan hóf rannsókn á málinu sem lauk með því að aðstoðarmaður Hönnu Birnu, Gísli Freyr Valdórsson, var ákærður fyrir þagnarskyldubrot. Gísli játaði þetta brot og nokkrum dögum síðar sagði Hanna Birna af sér sem ráðherra.

Í áliti umboðsmanns Alþingis (nr. 8122/2014 fyrir þá sem vilja kynna sér það nánar) kom fram að innanríkisráðherra hefði, í samskiptum sínum við lögreglustjóra á meðan á málinnu stóð, farið í bága við þó nokkrar reglur.

Í fyrsta lagi má nefna 1. mgr 20. gr laga um Stjórnarráð Íslands sem segir að ráðherra eigi að leita álits ráðuneytis til að tryggja að athafnir og ákvarðanir séu í samræmi við lög. Ráðherrann hafði hlotið einhverja ráðgjöf en að áliti umboðsmanns höfðu fyrirspurnir hennar til lögreglustjóra á þessum tíma gengið lengra en eðlilegt gæti talist. Umboðsmaður taldi því að innanríkisráðherra hefði ekki fylgt 1. mgr 20. gr. umræddra laga nógu vel.

Einnig taldi umboðsmaður að samskiptin hefðu ekki samrýmst reglum sem innanríkisráðherra bar að virða um sjálfstæði og hlutlægni lögreglunnar við rannsókn sakamáls. Vegna yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna bar ráðherranum skylda til þess að virða þessar reglur og stöðu lögreglunnar. Umboðsmaður taldi að samskiptin hefðu verið ósamrýmanleg stöðu innanríkisráðherra sem yfirstjórnanda lögreglunnar.

Þar sem framgangur lögreglurannsóknar hafði skipt Hönnu Birnu miklu máli, bæði vegna starfa hennar sem ráðherra og pólitískrar stöðu, taldi umboðsmaður að samskiptin hefðu einnig farið í bága við hina óskráðu meginreglu um sérstakt hæfi í stjórnsýslunni.

Af þessu áliti sést að að ýmsar lagagreinar og reglur eru til staðar sem ráðherrar getur haft að leiðarljósi við beitingu valdheimilda sinna. Ber þar hæst 1. mgr 20. gr laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Ísland, óskráð hæfisregla stjórnsýsluréttarins og leiðbeiningarreglan um að fylgja skuli vönduðum stjórnsýsluháttum. Ljóst er að innanríkisráðherra leit ekki nægilega vel til þessara reglna í samskiptum sínum við lögreglustjóra við rannsókn á Lekamálinu.

Þegar þessar aðstæður eru til staðar er lítið annað í stöðunni en að ráðherra segji af sér. Hanna Birna gerði það vissulega undir lokin, en eðlilegast hefði verið að hún hefði strax stigið til hliðar og þá hefði mátt koma í veg fyrir að hæfi hennar yrði dregið í efa. Reyndar verður að telja að hin pólitíska ábyrgð ráðherra á Íslandi sé ekki virkt réttarúrræði, miðað við til dæmis Danmörku. Nýlegt dæmi er þegar Eva Kjer Hansen, sem gegndi stöðu umhverfisráðherra í Danmörku, sagði af sér í febrúar 2016. Ástæðan var sú að hún hafði notað vafasama útreikninga um losun gróðurhúsalofttegunda til grundvallar búvörusamnings.

Þegar kemur að ráðherrum erum við því með ýmsar reglur sem eiga að tryggja fagleg vinnubrögð. Hins vegar eru engin úrræði til staðar til að víkja þessum ráðherrum frá ef þeir fara ekki eftir þessum leiðbeiningum. Eina úrræðið sem virðist vera til staðar er afsögn ráðherra og miðað við íslenska stjórnmálasögu gerist það eiginlega aldrei að ráðherra axli ábyrgð á þann hátt.

Ef þið viljið kynna ykkur þetta mál frekar þá getið þið gluggað í BA ritgerðina mína sem má nálgast hér.

Published by

OlgaCilia

Bókmenntafræðingur og lögfræðinemi. Sit í framkvæmdaráði Pírata. Hér má lesa hugleiðingar mínar.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s