Með lögum skal land byggja …

Í júlí mánuði voru tvö tilvik þar sem lögreglustjórar voru taldir hafa brotið gegn stjórnsýslulögum. Innanríkisráðuneytið úrskurðaði að Sigríður Björk, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hefði brotið meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Nokkrum dögum síðar úrskurðaði umboðsmaður Alþingis að Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, hefði ekki farið eftir stjórnsýslulögum þegar hún réð nýjan lögreglufulltrúa í embætti.

Stjórnsýslulögin eiga að tryggja að vönduðum stjórnsýsluháttum sé fylgt þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Þar er að finna margar mikilvægar reglur sem eiga að tryggja réttaröryggi borgaranna. Má þar nefna; leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, jafnræðisreglu, meðalhófsreglu og andmælarétt.

Þessar reglur eiga að tryggja að allir borgarar fái réttláta málsmeðferð.

Í lögunum er þó ekki að finna nein fyrirmæli um hvað ber að gera ef starfsmenn stjórnsýslunnar fylgja ekki þessum reglum. Við skulum hafa það í huga að lögin ná til mikilvægra réttinda borgaranna, til dæmis þegar ráðið er í opinbert starf. Mörg dæmi eru um það að umboðsmaður Alþingis komist að þeirri niðurstöðu að stjórnsýslulögum hafi ekki verið fylgt við ráðningu, líkt og í máli lögreglustjórans í Vestmannaeyjum.

En hvað gerist svo þegar umboðsmaður kemst að þeirri niðurstöðu að stjórnsýlulögum hafi ekki verið fylgt við opinbera ráðningu? Aðilinn getur ekki krafist þess fyrir dómstólum að vera settur inn í starfið. Ástæðan er sú að það verður einnig að tryggja réttaröryggi þess aðila sem fékk starfið. Þarna myndast gloppa í stjórnsýslunni, sem gerir það að verkum að auðvelt er að komast upp með það að velja frænda sinn eða einhvern annan, vegna greiðasemi, í starfið, þó að sá aðili sé kannski óhæfari en aðrir.

Eina réttarúrræðið sem stendur aðilanum, sem fékk ekki starfið, til boða, er að fara í bótamál gegn ríkinu. Stofnunin sem braut gegn stjórnsýslulögum endar því kannski á því að borga svona 2 milljónir í bætur og frændinn heldur starfinu.

Í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna grípur maður í tómt. Það er ekkert þar sem segir að víkja beri starfsmanni úr starfi ef hann fylgir ekki stjórnsýslulögunum. Unnt er að veita áminningar, eða veita tímabundna lausn frá embætti ef þess gerist þörf.

Verklag lögreglustjóranna tveggja er ekkert einsdæmi. Af álitum umboðsmanns Alþingis er ljóst að starfsmenn stjórnsýslunnar fara ekki eftir stjórnsýslulögum. Þessu verður að breyta. Það verður að tryggja réttarúrræði, sem gera það að verkum að forstöðumenn stofnana taki ábyrgð á óvönduðum stjórnsýsluháttum. Það er sorglegt að embættismenn komist upp með afglöp í starfi án þess að þurfa að þola neinar afleiðingar.

Published by

OlgaCilia

Bókmenntafræðingur og lögfræðinemi. Sit í framkvæmdaráði Pírata. Hér má lesa hugleiðingar mínar.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s