Pínu væmni við lok prófkjörs

Má ég ekki vera pínu væmin síðasta daginn í prófkjöri? Mér líður allavega eins og að jólin séu að koma kl. 18 í dag og ég hlakka mikið til að sjá hvað kemur upp úr “kjörkössunum.”

Hjá mér hófst þetta ferðalag fyrir um einu og hálfu ári síðan. Eins og svo margir aðrir, var ég komin með nóg af Íslandi og hugði á landflótta. Ég ákvað þó að snúa vörn í sókn og gekk í Pírata. Þar var tekið vel á móti mér og endaði ég sem aðalamaður í framkvæmdaráði á aðalfundi 2015. Þar gegndi ég fyrst stöðu ritara og svo stöðu formanns. Ég lærði fullt af því að vera í framkvæmdaráði. Ég lærði hvað hópavinna getur verið frábær og að stundum þarf maður að hlusta á fólk þó að maður sé pirrað út í það. Það mikilvægasta sem ég lærði er þó að það er betra að eyða orku sinni í að finna lausnir á vandamálum í staðinn fyrir að nöldra yfir þeim. Auk þess er ég búin að kynnast mikið af frábæru fólki, sem ég hlakka til að vinna með í komandi kosningabaráttu og vonandi á Alþingi ef ég verð heppin.

En afhverju langar mig að fara á þing? Ég veit að þetta er mjög erfitt starf; langir vinnutímar, lestur gagna og fundarsetur. Í fyrsta lagi held ég að þetta verði ekkert mál ef maður er með gott fólk í kringum sig. Í öðru lagi, ef það er eitthvað sem ég hef lært af skólagöngu minni þá er það að sitja lengi og lesa mikið. Það sem drífur mig þó áfram er vilji til þess að breyta einhverju. Einkahagsmunir hafa trompað almannahagsmuni í alltof mörg ár á Íslandi. Það er kominn tími á að hagur almennings sé settur í forgang og að við förum í sameiginlegt átak í að losa okkur við meðvirkni gagnvart auðmönnum. Peningar eiga ekki að stjórna lýðræðinu, heldur fólkið í landinu. Ég átta mig á þeirri von sem er tengd við Pírata, að við munum knýja fram breytingar í íslensku samfélagi. Og ég vona innilega að við getum staðið undir þessum væntingum. Ég mun allavega gefa allt mitt í það verkefni.

Mér finnst þessi hugsun endurspeglast í prófkjöri Pírata. Það eru ekki fyrirtæki sem standa á bakvið frambjóðendur með peningastyrkjum. Við erum öll að gera þetta á eigin tíma og mörg hver með vinnu. Það er enginn á launum frá flokknum við að kynna sig. Þeir sem eru í prófkjöri eru að gera það á eigin forsendum og nýta eigið hugarafl í að koma sér á framfæri.

Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem komu að prófkjörinu. Svona batterí verður ekki að raunveruleika í einhverju tómarúmi. Margir eru búnir að vinna lengi að því að gera þetta vel; kynningar á frambjóðendum, láta kosningakerfið virka sem skildi, skipulag á kynningarfundum og svo mætti lengi telja.

Ég vil því þakka Bjarna forritara, Bylgju framkvæmdastjóra, Jóhanni kosningastjóra, framkvæmdaráði (bæði mínu framkvæmdaráði og það sem starfar nú), stjórn Pírata í Reykjavík, gengið á bakvið stefnumot.piratar.is og örugglega einhverjir fleiri. Takk fyrir! Með svona lið á bakvið sig er ekkert mál að rúlla upp eins og einni kosningabaráttu. Vonandi fæ ég tækifæri til að vinna áfram með ykkur.

Að lokum vil ég minna á að hægt er að kjósa í prófkjöri Pírata á x.piratar.is til klukkan 18 í dag.

Yarrrrr!!!!!

 

Kjöt og skordýr

Það hefur oft vakið hjá mér furðu hvað lítið er talað um hlýnun jarðar og umhverfismál hér á Íslandi. Við erum ekki fullkomin frekar en aðrar þjóðir í þessum málum. Mér fannst þögnin öskrandi í desember síðastliðnum, þegar ný markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt. Til þess að ná þessum markmiðum skrifuðum þjóðir heims undir Parísarsamkomulagið sem skuldbindur þær til þess að halda hlýnun jarðar af mannavöldum innan 2 gráðna marksins og jafnvel undir 1,5 gráðum.

Hlýnun jarðar er eitt stærsta verkefnið sem þjóðir heims þurfa að takast á við. Áhrif á hlýnun jarðar eru nú þegar augljós. Þurrkar, flóð, vatnsskortur og önnur ofsafengin veðurfyrirbæri. Sumarið á Íslandi er búið að vera óvenju hlýtt, við fögnum því auðvitað, en höfum samt í huga að þetta er ekki eðlilegt og ástæðan að öllum líkindum hlýnun loftslags á heimsvísu.

En þetta er kannski ástæðan fyrir því að á Íslandi er ekki talað mikið um hlýnun jarðar. Við tökum ekki eftir henni í okkar daglega lífi og fögnum auðvitað þegar veðrið er gott. Þetta skeytingarleysi birtist mjög greinilega í hegðun fyrirsvarsmanna landsins. Mér er minnistætt þegar Sigmundur Davíð talaði um að hlýnun jarðar fæli í sér spennandi sóknarfæri fyrir Íslendinga. Í Búvörusamningnum er talað um að auka kjötframleiðslu og fara að flytja inn fósturvísa til þess að hefja nautgriparæktun hér á landi. Það er í hæsta máta undarlegt, enda er gríðarlegt auðlindafrekt að rækta nautakjöt. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur auk þess mælt með því að íbúar jarðarinnar líti í auknu mæli til skordýra til þess að uppfylla prótínþörf sinni.

Ég myndi vilja sjá Ísland fremst meðal þjóða í að tryggja sjálfbært fæðuöryggi. Við eigum að styðja við fólk sem vill koma með nýstárlegar hugmyndir varðandi fæðu á markað. Eitt slíkt fyrirtæki er Jungle Bar sem eru búnir að búa til próteinstykki úr krybbyhveiti. Stykkin eru ófáanleg á Íslandi því að ráðherra ákvað að innleiða Evrópureglugerð frá 1997 í október 2015. Með reglugerðinni var ómögulegt fyrir fyrirtækið að selja stykkin hér á landi. Þau njóta þau mikilla vinsælda, t.d. í Bandaríkjunum. Í stað þess að sjá sóknarfæri í nýsköpun á matvælamarkaði, var frábær hugmynd barin niður af stjórnvöldum.

Einnig eigum við hér á landi fullt af jarðvarma sem væri hægt að nýta í ýmis konar ræktun. Þó að ég sé hlynnt því að flytja inn matvöru erlendis frá, með það fyrir augum að auka vöruúrval fyrir neytendur, þá skilur sá flutningur eftir gríðarlega stór vistspor sem ýta undir hlýnuna jarðar. Við þurfum að fara að skoða stöðu Íslands í heildarsamhenginu og taka upplýstar ákvarðanir hver næstu skref okkar eiga að vera í að tryggja fæðuöryggi og sporna við hlýnun jarðar.

Gleðilega hátíð!

Gleðilega hátíð kæru vinir!

Einstaklingur fæðist með ákveðin einkenni sem hann ræður engu um. Útlit, kyn og kynhneigð. Þetta eru þættir sem einstaklingurinn hefur enga stjórn á. Þess vegna hefur mér alltaf fundist undarlegt þegar fólk er sett út á jaðarinn og fær ekki að vera virkir samfélagsþegnar vegna meðfæddra einkenna sinna. Það er líka merkilegt að við sem samfélag höfum búið okkur til ákveðna skala til þess að meta einstaklinga út frá. Þannig myndast fordómar vegna meðfæddra eiginleika einstaklinga út frá hugmyndum sem myndast í samfélaginu.

Hvernig myndast þessir skalar? Jú, við fólkið sem búum í samfélagi búum þá til. Um leið og það er ákveðið að einhver tiltekinn meðfæddur eiginleiki er rangur, þá fer samfélagið smátt og smátt að trúa því. Hver ákvað til dæmis að konur væru réttlægri samfélagsþegnar en karlar og að útlit þeirra skipti meira máli en karlmanna?

Við getum ekki stjórnað meðfæddum eiginleikum. Við getum hins vegar haft mikil áhrif á samfélagsleg viðhorf. Við getum metið einstaklinga út frá því hvernig þeir haga sér. Að stimpla einstakling út frá eiginleikum sem hann hefur enga stjórn á er heimskulegt.

Hættum að líta svona mikið á kyn og kynhneigð þegar við metum samferðafólk okkar. Það kemur okkur ekkert við hjá hverjum fólk sefur, býr með eða elskar. Einnig kemur það okkur ekkert við hvar á kyn eða kynhneigðarrófinu annað fólk upplifir sig. Ef báðir eða allir einstaklingar eru samþykkir, þá er ekkert vandamál til staðar og við höfum ekkert með það að gera að skipta okkur af því.

Ég tel að ef við leyfum einstaklingum að vera eins og þeir vilja þá verði samfélagið betra. Reykjavík Pride er mikilvægur viðburður til þess að breyta þessum samfélagslegu viðmiðum. Þess vegna vona ég að sem flestir taki þátt, eigi umræður um málefnið og að við fáum öll tækifæri til þess að vera við sjálf.

 

Ráðherraábyrgð: óvirkt réttarúrræði

Í gær skrifaði ég um úrræðaleysi gagnvart forstöðumönnum stofnana sem fara ekki eftir stjórnsýslulögum. En hvað gerist þegar æðstu yfirmenn embættismanna, ráðherrarnir, fara ekki eftir settum lögum í störfum sínum. Í BA ritgerð minni í lögfræði: Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra, var niðurstaða mín sú að afleiðingarnar eru í raun engar.

Flest þekkjum við til Lekamálsins sem rekja má til þess að fjölmiðlar birtu þann 20. nóvember 2013 trúnaðarupplýsingar, úr óformlegu minnisblaði innanríkisráðuneytisins, um tiltekna hælisleitendur. Innanríkisráðuneytið vildi ekki kannast við að þetta minnisblað hefði orðið til hjá þeim. Lögreglan hóf rannsókn á málinu sem lauk með því að aðstoðarmaður Hönnu Birnu, Gísli Freyr Valdórsson, var ákærður fyrir þagnarskyldubrot. Gísli játaði þetta brot og nokkrum dögum síðar sagði Hanna Birna af sér sem ráðherra.

Í áliti umboðsmanns Alþingis (nr. 8122/2014 fyrir þá sem vilja kynna sér það nánar) kom fram að innanríkisráðherra hefði, í samskiptum sínum við lögreglustjóra á meðan á málinnu stóð, farið í bága við þó nokkrar reglur.

Í fyrsta lagi má nefna 1. mgr 20. gr laga um Stjórnarráð Íslands sem segir að ráðherra eigi að leita álits ráðuneytis til að tryggja að athafnir og ákvarðanir séu í samræmi við lög. Ráðherrann hafði hlotið einhverja ráðgjöf en að áliti umboðsmanns höfðu fyrirspurnir hennar til lögreglustjóra á þessum tíma gengið lengra en eðlilegt gæti talist. Umboðsmaður taldi því að innanríkisráðherra hefði ekki fylgt 1. mgr 20. gr. umræddra laga nógu vel.

Einnig taldi umboðsmaður að samskiptin hefðu ekki samrýmst reglum sem innanríkisráðherra bar að virða um sjálfstæði og hlutlægni lögreglunnar við rannsókn sakamáls. Vegna yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna bar ráðherranum skylda til þess að virða þessar reglur og stöðu lögreglunnar. Umboðsmaður taldi að samskiptin hefðu verið ósamrýmanleg stöðu innanríkisráðherra sem yfirstjórnanda lögreglunnar.

Þar sem framgangur lögreglurannsóknar hafði skipt Hönnu Birnu miklu máli, bæði vegna starfa hennar sem ráðherra og pólitískrar stöðu, taldi umboðsmaður að samskiptin hefðu einnig farið í bága við hina óskráðu meginreglu um sérstakt hæfi í stjórnsýslunni.

Af þessu áliti sést að að ýmsar lagagreinar og reglur eru til staðar sem ráðherrar getur haft að leiðarljósi við beitingu valdheimilda sinna. Ber þar hæst 1. mgr 20. gr laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Ísland, óskráð hæfisregla stjórnsýsluréttarins og leiðbeiningarreglan um að fylgja skuli vönduðum stjórnsýsluháttum. Ljóst er að innanríkisráðherra leit ekki nægilega vel til þessara reglna í samskiptum sínum við lögreglustjóra við rannsókn á Lekamálinu.

Þegar þessar aðstæður eru til staðar er lítið annað í stöðunni en að ráðherra segji af sér. Hanna Birna gerði það vissulega undir lokin, en eðlilegast hefði verið að hún hefði strax stigið til hliðar og þá hefði mátt koma í veg fyrir að hæfi hennar yrði dregið í efa. Reyndar verður að telja að hin pólitíska ábyrgð ráðherra á Íslandi sé ekki virkt réttarúrræði, miðað við til dæmis Danmörku. Nýlegt dæmi er þegar Eva Kjer Hansen, sem gegndi stöðu umhverfisráðherra í Danmörku, sagði af sér í febrúar 2016. Ástæðan var sú að hún hafði notað vafasama útreikninga um losun gróðurhúsalofttegunda til grundvallar búvörusamnings.

Þegar kemur að ráðherrum erum við því með ýmsar reglur sem eiga að tryggja fagleg vinnubrögð. Hins vegar eru engin úrræði til staðar til að víkja þessum ráðherrum frá ef þeir fara ekki eftir þessum leiðbeiningum. Eina úrræðið sem virðist vera til staðar er afsögn ráðherra og miðað við íslenska stjórnmálasögu gerist það eiginlega aldrei að ráðherra axli ábyrgð á þann hátt.

Ef þið viljið kynna ykkur þetta mál frekar þá getið þið gluggað í BA ritgerðina mína sem má nálgast hér.

Með lögum skal land byggja …

Í júlí mánuði voru tvö tilvik þar sem lögreglustjórar voru taldir hafa brotið gegn stjórnsýslulögum. Innanríkisráðuneytið úrskurðaði að Sigríður Björk, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hefði brotið meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Nokkrum dögum síðar úrskurðaði umboðsmaður Alþingis að Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, hefði ekki farið eftir stjórnsýslulögum þegar hún réð nýjan lögreglufulltrúa í embætti.

Stjórnsýslulögin eiga að tryggja að vönduðum stjórnsýsluháttum sé fylgt þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Þar er að finna margar mikilvægar reglur sem eiga að tryggja réttaröryggi borgaranna. Má þar nefna; leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, jafnræðisreglu, meðalhófsreglu og andmælarétt.

Þessar reglur eiga að tryggja að allir borgarar fái réttláta málsmeðferð.

Í lögunum er þó ekki að finna nein fyrirmæli um hvað ber að gera ef starfsmenn stjórnsýslunnar fylgja ekki þessum reglum. Við skulum hafa það í huga að lögin ná til mikilvægra réttinda borgaranna, til dæmis þegar ráðið er í opinbert starf. Mörg dæmi eru um það að umboðsmaður Alþingis komist að þeirri niðurstöðu að stjórnsýslulögum hafi ekki verið fylgt við ráðningu, líkt og í máli lögreglustjórans í Vestmannaeyjum.

En hvað gerist svo þegar umboðsmaður kemst að þeirri niðurstöðu að stjórnsýlulögum hafi ekki verið fylgt við opinbera ráðningu? Aðilinn getur ekki krafist þess fyrir dómstólum að vera settur inn í starfið. Ástæðan er sú að það verður einnig að tryggja réttaröryggi þess aðila sem fékk starfið. Þarna myndast gloppa í stjórnsýslunni, sem gerir það að verkum að auðvelt er að komast upp með það að velja frænda sinn eða einhvern annan, vegna greiðasemi, í starfið, þó að sá aðili sé kannski óhæfari en aðrir.

Eina réttarúrræðið sem stendur aðilanum, sem fékk ekki starfið, til boða, er að fara í bótamál gegn ríkinu. Stofnunin sem braut gegn stjórnsýslulögum endar því kannski á því að borga svona 2 milljónir í bætur og frændinn heldur starfinu.

Í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna grípur maður í tómt. Það er ekkert þar sem segir að víkja beri starfsmanni úr starfi ef hann fylgir ekki stjórnsýslulögunum. Unnt er að veita áminningar, eða veita tímabundna lausn frá embætti ef þess gerist þörf.

Verklag lögreglustjóranna tveggja er ekkert einsdæmi. Af álitum umboðsmanns Alþingis er ljóst að starfsmenn stjórnsýslunnar fara ekki eftir stjórnsýslulögum. Þessu verður að breyta. Það verður að tryggja réttarúrræði, sem gera það að verkum að forstöðumenn stofnana taki ábyrgð á óvönduðum stjórnsýsluháttum. Það er sorglegt að embættismenn komist upp með afglöp í starfi án þess að þurfa að þola neinar afleiðingar.