Svör óskast!

Ég er búin að vera með ritstíflu frá því að ég tilkynnti um framboð mitt til prófkjörs Pírata. Ég ætlaði aldeilis að tjá mig um allt milli himins og jarðar í prófkjörinu, þannig að fólk gæti séð fyrir hvað ég stend og afhverju í ósköpunum mig langar að fara inn á þing.

Satt best að segja, þá veit ég ekki hvar ég á að byrja og ég hef áhyggjur af því að það sem ég segi hljómi eins og klisja.

En látum reyna á þetta. Nokkrum mánuðum áður en ég gekk í Pírata var ég byrjuð að skipuleggja landflótta minn. Ég var komin með ógeð af umræðunni í samfélaginu, orðræðunni inn á Alþingi, fasteignamarkaðinum, lélegum framtíðarhorfum fyrir ungt fólk og þar fram eftir götunum. Í öllu þessu böli var ég þó meðvituð um það hversu gott það er að búa á Íslandi. Hér er ekkert stríð, smæð samfélagsins getur verið kósí, ég get fengið mér vatn hvenær sem ég vil og mun að öllum líkindum geta lifað ágætu lífi. Ég hætti við að flýja land og ákvað að reyna að gera eitthvað í málunum. Hér er nóg af auðlindum og allir ættu að geta lifað sómasamlegu lífi.

Sem ungur einstaklingur þá er ýmislegt sem ég hef velt fyrir mér varðandi lífskjör á Íslandi.

Afhverju er fæðingarorlofið svona ógeðslega stutt? Og afhverju eru fæðingarorlofsgreiðslur svona lágar?

Kostar í alvörunni 75.000 krónur að skrá mig í Háskólann? Eru þetta ekki falin skólagjöld?

Afhverju er ég að borga fullt af sköttum, en borga líka peninga til þess að fara til læknis? Mun ég fara á hausinn ef ég greinist með alvarlegan sjúkdóm?

Afhverju eru ellilífeyrisgreiðslur svona lágar? Fólk sem hefur slitið sér út allt sitt líf á betra skilið en að þurfa að treysta á ölmusa annarra til þess að lifa mánuðinn af.

Hvernig lifir fólk á 200.000 krónum á mánuði? Afhverju er svona ótrúlega mikið bil á milli þeirra lægst launuðu og hæst launuðu í samfélaginu. Á einstaklingur, sem er svo heppinn að hljóta silfurskeið í vöggugjöf, meiri rétt en aðrir til þess að lifa sómasamlegu lífi?

Afhverju er alltaf hagvöxtur rétt fyrir kosningar? Og afhverju hækka aldrei neinar bætur í kjölfar hagvaxtar?

Ég gæti haldið áfram í allan dag með spurningar í þessum dúr. Kannski hefur ritstíflan orsakast að því að ég hélt ég væri með svör á reiðum höndum. En svo er ekki. Mig langar að fá svör við þessum spurningum og mig langar að láta á það reyna hvort það sé ekki hægt að laga kerfið. Almannahagsmunir eiga að ráða för í forgangsröðun ríkisins. Síðustu misseri hefur mér fundist að einkahagsmunir stjórni alltof miklu. Þó að nokkrir einstaklingar hafi gert það að aðaláhugamáli sínu að safna peningum fyrir sig og sína, þá á það ekki að bitna á almannahagsmunum.

Ég get því miður ekki látið eins og ég hafi svör á reiðum höndum. Ég hef þó vilja til þess að koma breytingum af stað. Ef allir halda að þeir viti allt, þá gerist ekki neitt. Ég veit margt um suma hluti en lítið um aðra, en ég hlakka til að eiga samræður við fólk sem veit meira um þá hluti sem ég veit lítið og finna einhverja góða lausn á þessu öllu saman.

 

 

Published by

OlgaCilia

Bókmenntafræðingur og lögfræðinemi. Sit í framkvæmdaráði Pírata. Hér má lesa hugleiðingar mínar.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s