Að túlka vilja þjóðar

Afhverju flykktist þjóðin á Austurvöll í apríl 2016? Það virðast ekki allir vera sammála um það.

Ólafur Ragnar Grímsson túlkaði það sem svo að það væri óvissa í samfélaginu og að hann þyrfti að bjóða sig aftur fram.

Sjálfstæðisflokkurinn túlkaði það sem svo að þjóðin treysti ríkisstjórninni til þess að fara með völd í nokkra mánuði í viðbót. Í stað kosninga í maí yrðu þær í október.

Eftir því sem ég man best fannst þáverandi forsætisráðherra þetta bara vera svolítið skemmtilegt. Þjóðin bara með einhverja stæla og óþarfi að taka mark á fólkinu.

Það er svolítið merkilegt að svona margar ólíkar túlkanir hafi sprottið upp af atburði sem var svo einfaldur. Eins og ég man þetta, þá litu Panamaskjölin dagsins ljós. Í þeim voru upplýsingar um íslenska einstaklinga sem höfðu skotið eignum undan í skattaskjól. Skattaskjól felur í sér að aðili borgar ekki skatta né gjöld af eignum sínum. Grunnurinn í því að halda uppi samfélagi, er að það gefa allir af tekjum sínum í sameiginlega sjóði. Það er heldur bagalegt ef einstaklingar, sem eiga að sjá um að reka íslenskt samfélag, finni leiðir til þess að borga ekki til þess.

Ástæðan fyrir mótmælunum á Austurvelli var því ósköp einföld. Við treystum ekki ráðamönnum þjóðarinnar til að fara með málefni okkar lengur. Við vildum að hlutaðeigandi aðilar tækju ábyrgð. Engin tók neina ábyrgð, frekar en fyrri daginn. Til að friðþægja okkur var kosningum lofað í október. Fyrirvarinn var að málefni ríkisstjórnarinnar hlytu brautgengi. Þetta myndi ég kalla hótun. Við eigum að vera þæg á meðan heilbrigðiskerfið er einkavætt, bætur lækkaðar, auðlindir settar í hendurnar á vinum, háskólinn fjársveltur, jafnræði til náms skert og hælisleitendum vísað úr landi.

Það sem toppar þetta allt saman er svo að Sigmundur Davíð kemur úr fríi og segir að það sé vitleysa að hafa kosningar í haust og að hann hafi verið leiddur í gildru. Nennum við þessu í alvörunni? Ég er allavega orðin þreytt á þessari endalausu óvirðingu í garð þjóðarinnar.

Getum við hætt að reyna að túlka hvað þjóðin vildi í apríl og taka bara mark á henni? Við erum búin að vera þæg. Komið nú bara með þessa dagsetningu.

Mannanafnanefnd

Þegar afi minn flutti til Íslands fékk hann nafnið Jón Ivonsson. Hann heitir samt Emanuel Cilia. Þetta var gert lengi vel við þá sem fluttu til landsins. Þó að nafn sé bara nafn, þá er það samt mikilvægur hluti af því hvernig við upplifum okkur sjálf. Hvernig liði þér ef þú myndir flytja til annars lands og þér yrði úthlutað nýju nafni? Ég ímynda mér að það sé lítillækkandi.

Þetta fyrirkomulag ýtir einnig undir ákveðna stéttaskiptingu. Fyrir stuttu gaf formaður Mannanafnanefndar það út, að ef lögunum yrði breytt þá myndi eftirnafnahefð Íslendinga, að nota -son og -dóttir, deyja hratt út. Formaðurinn ber eftirnafnið Kvaran. Ætli hún hafi ekki verið að beina þessu til fólks, eins og mín, sem ber suður-evrópskt ættarnafn. Það virðist vera í lagi að bera ættarnafn sem ættað er frá Danmörku eða úr einhverjum íslenskum dal. Á hina skal klína -son eða -dóttir.

Þegar ég hef verið að sækja um vinnur hef ég íhugað að breyta nafninu mínu á ferilskránni, og setja inn Thors, Scheving, Schram eða Thoroddsen í stað Cilia. Ég hef aldrei látið verða af því, því ég neita að trúa að þetta breyti einhverju. Ég er hins vegar ekki sannfærð.

Stundum heyri ég (að mér finnst) skrítin nöfn, og ég hugsa: “Vá, en skrítið.” En svo held ég bara áfram að lifa lífinu. Alveg eins og þegar ég sé manneskju og hugsa: “Er þetta stelpa eða strákur.” Þá man ég að það kemur mér bara ekki neitt við, og held áfram með daginn minn.

Ef ég rækist hins vegar á barn sem héti mjög lítillækkandi nafni, eins og Kúkur, þá myndi ég eflaust láta Barnaverndarstofu vita.

Þó að hefðir og venjur séu alltaf skemmtilegar, þá er Mannanafnanefnd barns síns tíma. Þetta lýsir úreltu hugarfari og ýtir undir elítisma. Ef við verðum svona sjokkeruð að hitta einhvern sem heitir erlendu nafni eða kynlausu, þá ættum við kannski að líta í eigin barm í staðinn fyrir að ætlast til þess að einhver nefnd passi upp á tilfinningar okkar. Enda snýst þetta um réttindi einstaklinga.

Svör óskast!

Ég er búin að vera með ritstíflu frá því að ég tilkynnti um framboð mitt til prófkjörs Pírata. Ég ætlaði aldeilis að tjá mig um allt milli himins og jarðar í prófkjörinu, þannig að fólk gæti séð fyrir hvað ég stend og afhverju í ósköpunum mig langar að fara inn á þing.

Satt best að segja, þá veit ég ekki hvar ég á að byrja og ég hef áhyggjur af því að það sem ég segi hljómi eins og klisja.

En látum reyna á þetta. Nokkrum mánuðum áður en ég gekk í Pírata var ég byrjuð að skipuleggja landflótta minn. Ég var komin með ógeð af umræðunni í samfélaginu, orðræðunni inn á Alþingi, fasteignamarkaðinum, lélegum framtíðarhorfum fyrir ungt fólk og þar fram eftir götunum. Í öllu þessu böli var ég þó meðvituð um það hversu gott það er að búa á Íslandi. Hér er ekkert stríð, smæð samfélagsins getur verið kósí, ég get fengið mér vatn hvenær sem ég vil og mun að öllum líkindum geta lifað ágætu lífi. Ég hætti við að flýja land og ákvað að reyna að gera eitthvað í málunum. Hér er nóg af auðlindum og allir ættu að geta lifað sómasamlegu lífi.

Sem ungur einstaklingur þá er ýmislegt sem ég hef velt fyrir mér varðandi lífskjör á Íslandi.

Afhverju er fæðingarorlofið svona ógeðslega stutt? Og afhverju eru fæðingarorlofsgreiðslur svona lágar?

Kostar í alvörunni 75.000 krónur að skrá mig í Háskólann? Eru þetta ekki falin skólagjöld?

Afhverju er ég að borga fullt af sköttum, en borga líka peninga til þess að fara til læknis? Mun ég fara á hausinn ef ég greinist með alvarlegan sjúkdóm?

Afhverju eru ellilífeyrisgreiðslur svona lágar? Fólk sem hefur slitið sér út allt sitt líf á betra skilið en að þurfa að treysta á ölmusa annarra til þess að lifa mánuðinn af.

Hvernig lifir fólk á 200.000 krónum á mánuði? Afhverju er svona ótrúlega mikið bil á milli þeirra lægst launuðu og hæst launuðu í samfélaginu. Á einstaklingur, sem er svo heppinn að hljóta silfurskeið í vöggugjöf, meiri rétt en aðrir til þess að lifa sómasamlegu lífi?

Afhverju er alltaf hagvöxtur rétt fyrir kosningar? Og afhverju hækka aldrei neinar bætur í kjölfar hagvaxtar?

Ég gæti haldið áfram í allan dag með spurningar í þessum dúr. Kannski hefur ritstíflan orsakast að því að ég hélt ég væri með svör á reiðum höndum. En svo er ekki. Mig langar að fá svör við þessum spurningum og mig langar að láta á það reyna hvort það sé ekki hægt að laga kerfið. Almannahagsmunir eiga að ráða för í forgangsröðun ríkisins. Síðustu misseri hefur mér fundist að einkahagsmunir stjórni alltof miklu. Þó að nokkrir einstaklingar hafi gert það að aðaláhugamáli sínu að safna peningum fyrir sig og sína, þá á það ekki að bitna á almannahagsmunum.

Ég get því miður ekki látið eins og ég hafi svör á reiðum höndum. Ég hef þó vilja til þess að koma breytingum af stað. Ef allir halda að þeir viti allt, þá gerist ekki neitt. Ég veit margt um suma hluti en lítið um aðra, en ég hlakka til að eiga samræður við fólk sem veit meira um þá hluti sem ég veit lítið og finna einhverja góða lausn á þessu öllu saman.

 

 

Olla í framboði! (framboðsyfirlýsing)

Ég býð mig hér með fram í prófkjöri Pírata í Reykjavíkurkjördæmunum. Ég sækist eftir 1.-3. sæti í öðru hvoru kjördæminu.

Ég er 30 ára, menntaður bókmenntafræðingur og nýkomin með BA gráðu í lögfræði. Samfélagsmál hafa brunnið á mér frá unga aldri, 10 ára gömul hringdi ég í Þjóðarsálina til að kvarta yfir lélegu barnaefni. Ég átti erfitt með að finna farveg fyrir hugsjónir mínar, enda hefur mér alltaf fundist skrítin pæling að þurfa að velja annað hvort vinstri eða hægri. Eftir að hafa séð Helga Hrafn rétta upp hönd til þess að fá orðið í Kastljósþætti, fann ég að Píratar væri rétti flokkurinn fyrir mig og ákvað að koma mér inn í starfið. Ég kíkti á stofnfund Málfundafélags Pírata og var strax komin í stjórn. Í september 2015 ákvað ég svo að bjóða mig fram í framkvæmdaráð Pírata og hlaut kosningu sem aðalmaður og var skipaður ritari. Svo varð ég formaður ráðsins í mars. Við skiluðum af okkur góðu verki nú í júní, þar sem meðal annars var gengið frá ráðningu starfsfólks og eflingu innra starfsins.

Ég er hlynnt forræðishyggju á einhverjum sviðum, þó að ég telji að einstaklingurinn eigi að fá að gera það sem hann vill, svo lengi sem hann gerir ekki á hlut annarra. Ég er hlynnt einkavæðingu á tilteknum sviðum, en tel að ríkið eigi alltaf að tryggja jafnan aðgang að grunnstoðum velferðarkerfisins. Ég lít ekki á það sem skoðanaleysi, heldur frekar vilja til þess að líta á mál frá öllum hliðum áður en tekin er ákvörðun um útfærsluatriði. Ég tel þó allra mikilvægast að tryggja upplýsta umræðu og lýðræðisleg vinnubrögð í stjórnsýslunni. Síðustu viku hef ég mikið velt því fyrir mér hvaða mál ég myndi vilja leggja aðaláherslu á, ef ég kæmist inn á þing. Ég átti erfitt með að afmarka mig, því að mér finnst allir málaflokkar nátengdir. Það sem ég hef þó mestan áhuga á eru umhverfirmál og bæta stöðu ungra barnafjölskyldna. Ég tel þó í grunninn að mikið af vandamálum sem koma upp megi leysa með því að gera stjórnsýsluna skilvirkari og gegnsæjari.

Það sem heillaði mig við hugmyndafræði Pírata er að einstaklingurinn er í forgrunni og honum er treyst til þess að taka upplýstar ákvarðanir. Ég er orðin mjög þreytt á Morfísumræðunni sem á sér stað á Íslandi um öll málefni. Að þurfa að velja sér “lið” og vera annað hvort með eða á móti. Það væri algjör snilld ef þessi orðræðuhefð myndi breytast. Ég tel að það sé hægt með gegnsæji í stjórnsýslunni og að hinn almenni borgari fái tækifæri til að fá upplýsingar um mál, á öllum stigum máls. Alltof oft hefur það gerst að það er í “umræðunni” að byggja til dæmis verksmiðju. Nokkrum vikum síðar er ríkisstjórnin svo búin að binda hendur þjóðarinnar með einhverjum samning sem er ómögulegt að endurskoða. Hvað er málið með það?

Lýðræði á að virka þannig að lýðurinn ræður. En það gengur bara upp ef “lýðurinn” hefur aðgang að bestu mögulegu upplýsingum, beitir gagnrýnni hugsun og tekur ábyrgð á ákvörðunum sínum. Það er skrítið að láta 63 aðila (eða meirihluta af þeim) taka ákvarðanir fyrir heila þjóð. Væri það ekki hentugra fyrir samfélagið ef að komist væri að sameiginlegri niðurstöðu í stóru málunum? Ég held það allavega.

Ég tel að Píratar séu það afl sem muni breyta stjórnmálavenjum á Íslandi. Þess vegna er ég Pírati og vona að ég geti orðið að liði í komandi kosningabaráttu. Fylgist endilega með á like-síðunni og á olgacilia.is, þar sem ég mun deila með ykkur mínum pælingum og hugnaðarefnum. 

Yarr!!!!

 

Á ég að gera það?!?

Það er frekar einfalt að taka þátt í prófkjöri Pírata. Bæði ef þú hefur áhuga á að bjóða þig fram eða hafa áhrif á hvernig raðast á lista.

Þegar ég segi “þú getur haft áhrif”, þá meina ég að þú ræður. Til að taka þátt í að raða á lista í prófkjöri Pírata er nóg að skrá sig í flokkinn fyrir 11. júlí nk. Það geturðu gert hér: http://www.piratar.is/um-pirata/ganga-i-pirata/

Að því loknur skráir þú þig inn í kosningakerfi Pírata. Það gerirðu hér: https://x.piratar.is/accounts/register/

Þegar prófkjör hefjast, raðar þú listanum eins og þú vilt að hann líti út.

Viltu hafa fléttulista? Gjörðu svo vel!

Viltu flétta eftir aldri? Gjörðu svo vel!

Viltu bara hafa konur í efstu sætunum? Það er enginn sem stoppar þig!

Það er engin uppstillingarnenfd, ekkert öldungaráð, enginn forgangur fyrir þá sem hafa “unnið plikt sína”. Bara þú! Þannig er valdið sett í þínar hendur. Og ef þú nýtir það ekki, þá gerir bara einhver annar það.

Ekki missa af tækifærinu. Skráði þig í Pírata og hafði bein áhrif! Það gæti ekki verið einfaldara.

Takk Helgi!

Ég var hætt að fylgjast með því sem gerðist inni á þingi. Ég forðaðist að horfa á Kastljósið og aðra fréttaþætti. Umræðuhefðin eftir hrunið var leiðinleg og mér fannst enginn vera að axla ábyrgð á neinu. Það var ríkisstjórnin fyrir hrun að kenna að hrunið hefði orðið, ríkisstjórnin eftir það klúðraði öllu og núverandi ríkisstjórn var víst að “vinda ofan af vitleysu” síðustu ríkisstjórnar.

Í mars 2015 var Ísland allt í einu ekki lengur í viðræðum um aðild aða ESB. Gunnar Bragi hafði skrifað bréf sem enginn í Brussel vildi kannast við. Þarna tóku nokkrir aðilar sér það vald í hendur að ákvarða framtíð Íslands. Ljóst var að þetta var ákvörðun sem hefði átt að leggja fyrir þingið og í kjölfarið fyrir þjóðina. Stjórnarliðar virtust ekki skilja grundvallarhugmyndina á bakvið lýðræði. Í þeirra augum var nóg að fá “næstum því” meirihluta kosningu í Alþingiskosningum og að það gæfi þeim einhvers konar vald til þess að taka ákvarðanir fyrir heila þjóð.

En eitt gott kom þó út úr þessu öllu saman (fyrir mig allavega). Eitt kvöldið var Kastljós þáttur í sjónvarpinu þar sem Helgi Hrafn Gunnarsson var meðal gesta. Þar voru fjórir aðilar mættir. Umræðan snerist að mestu leyti um hvort við ættum að vera í ESB eða ekki. Allir kepptust við að koma sínum skoðunum að og lítil samræða var í gangi. Helgi Hrafn sat þarna og beið eftir því að fá orðið. Ég man vel að hann rétti upp hönd til þess að biðja um orðið frá þáttastjórnanda. Hann reyndi að útskýra á yfirvegaðan hátt afhverju þetta væri ekki lýðræðislegt og hvernig hefði betur mátt standa að þessu. Hann var ekki að reyna að troða skoðunum upp á neinn. Hann var einungis að útskýra hvernig það hefði mátt fara að þessu á lýðræðislegan hátt. Það væri ekki nokkurra að taka þessa ákvörðun, þetta væri stór ákvörðun sem þyrfti að ræða og fara með í gegnum tiltekna ferla.

Eftir þessa framkomu Helga í Kastljósi ákvað ég loksins að ganga til liðs við Pírata. Ég sá loksins út á hvað hugmyndafræði Pírata gekk út á. Upplýsta umræðu og gagnrýna hugsun.

Helgi Hrafn hefur nú ákveðið að gefa ekki kost á sér í prófkjöri Pírata. Fyrst varð ég leið þegar ég heyrði fréttirna. Svo áttaði ég mig á því að það verður frábært að fá hann inn í grasrótarstarf Pírata. Það er nefnilega þannig að hlutirnir gerast ekki endilega inn á Alþingi. Stjórnmálaflokkar eiga að vera lifandi eining sem veitir þjóðinni tækifæri á að vera í góðum samskiptum við þá sem sitja á þingi.

Ég þakka Helga Hrafni fyrir vel unnin störf, og fyrir að hafa verið svona kurteis og málefnalegur í Kastljósþættinum hér um árið. Það ýtti mér af stað í að taka þátt í starfi Pírata, sem hefur verið mér mjög lærdómsríkt.

Yarrr!