Hinn hauslausi her

Píratar hafa verið kallaðir “hauslaus her” þar sem það er enginn formaður sem segir þeim fyrir verkum. Ég tel reyndar að ástæðan fyrir því að fólk velur að ganga til liðs við Pírata, er að það hefur ekki áhuga á að hlýta kennivaldi einhvers eins einstaklings. Þó að Píratar séu ekki með formann hefur okkur tekist að byggja upp öflug stjórnmálasamtök þó að fjármagnið sé af skornum skammti. Ástæðuna tel ég vera að fólk er tilbúið til þess að taka að sér leiðtogahlutverk, án launa og titils.

Það er vissulega þægilegt að hafa einhvern einn einstakling efst í valdapýramídanum sem segir fólki fyrir verkum. Ég hef upplifað þreytu og pirring þegar hlutirnir þurfa að vera ræddir fram og til baka, og ég hef hugsað með mér að það væri þægilegt að hafa einhvern einn einstakling sem myndi bara segja hópnum hvað við ættum að gera. Lýðræði og gegnsæi er hins vegar ekki þægilegt. Það er erfitt og orkufrekt. Fólk er ósammála og fólk tjáir sig á mismunandi hátt.

Ég hef þurft að læra að hætta að dæma fólk frá fyrstu kynnum og hlusta á hvað það hefur að segja. Skólakerfið, vinnustaðir, samtök og flestar einingar eru byggðar upp á vissan hátt. Við eigum að hlusta á kennarann okkar, yfirmaðurinn segir okkur fyrir verkum og formaðurinn segir okkur hverjar skoðanir okkar eru. Að brjótast út úr þessu kerfi sem hefur verið haldið að okkur frá fæðingu er mjög erfitt.

Þegar ég byrjaði í Pírötum var ég alltaf að spyrja frá hverjum ég þyrfti að fá leyfi. Ég var hrædd um að troða einhverjum um tær og óttaðist að ég yrði áltin frek og dónaleg. Það var mjög frelsandi, en á sama tíma ógnvænlegt, þegar ég áttaði mig á því að ég þurfti ekki að spyrja um leyfi. Ég fór að framkvæma meira. Ef ég geri mistök þá læri ég af þeim.

Í þessum strúktur sem hefur verið byggður upp hjá Pírötum eru einstaklingar metnir að verðleikum sínum. Við fáum ekki titil í staðinn heldur vitneskjuna um það að við höfum látið eitthvað af okkur leiða. Þegar vel gengur fær maður hrós. Þegar illa gengur reynir hópurinn að finna lausn og komast að betri niðurstöðu. Þannig eflum við hvort annað í þróa hæfileika okkar. Ef einstaklingurinn fær að nýta hæfileika sína á uppbyggilegan hátt þá gerist eitthvað gott. Þjóðfélagsstaða, fæðingarstaður og silfurskeiðar skipta þar engu máli.

Ég er því ósammála að Píratar séu hauslaus her. Við erum hópur af hæfileikaríkum einstaklingum sem mynda saman eina sterka heild. Við þurfum ekki formann til að segja okkur fyrir verkum. Hópur af klárum einstaklingum hlýtur að komast að betri niðurstöðu, sem er til hagsældar fyrir stærri hóp af fólki, en hugmyndafræði sem fáir móta og færa svo öðrum á fati.