Hvað nú?

Strax eftir að Kastljósþætti gærkvöldsins lauk fór ég að velta því fyrir mér hvernig stjórnarflokkarnir ætluðu að spinna sig út úr þessu. Hjá Framsókn sýnist mér að spuninn eigi að snúast um að þetta séu upplýsingar sem lágu nú þegar fyrir. Eiginkona Sigmunds kom vissulega fram með upplýsingar um þetta fyrirtæki þegar hún áttaði sig á að þessi gögn væru til staðar. Það sem kom hins vegar fram í þættinum í gær var miklu viðameira en þær upplýsingar sem hún gaf upp og ætla ég ekki að rekja það sérstaklega hér heldur vísa bara í þáttinn.

Þessi spuni mun eflaust einnig snúa að því hvernig RÚV er að reyna að draga Framsókn niður í svaðið. Einhverjir eiga eflaust eftir að kaupa það. Hins vegar er það hlutverk RÚV að reka fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Þetta eru upplýsingar sem við eigum rétt á að fá.

Sem leiðir mig einnig að því að Sigmundur og aðilar honum tengdir virðast halda að fjölmiðlamenn séu „out to get him“. Okkur er eflaust öllum minnistætt viðtal Sigmundar við Gísla Martein sem átti að vera létt spjall um málefni líðandi stundar en Sigmundi tókst að snúa því upp í einhverja hringavitleysu og enginn veit hvað honum gekk til annað en að reyna að koma höggi á Gísla og RÚV. Sem mistókst.

Í þættinum í gær sáum við viðtal sem sænskur fréttamaður er að taka við Sigmund. Ekki veit ég hvernig fréttamaðurinn fékk hann í viðtal, því að Sigmundur virðist helst bara vilja tjá sig í Sprengisandi á Bylgjunni. Við vitum öll hvernig þetta endaði; Sigmundur gekk í burtu eftir að hafa sakað fréttamann um að leiða hann í gildru (IT’S A TRAP!). Einhverjum dögum síðar býðst aðstoðarmaður ráðherrans að koma og ræða við fréttamennina í viðtali sem hann vill samt ekki láta birta („frábært“ à kaldhæðnisgæsalappir).

Ef að lýðræði á að virka þá þurfa borgarar landsins að fá aðgang að þeim upplýsingum sem liggja fyrir. Það þýðir líka að ráðamenn þjóðarinnar verða að bíta í það súra epli að svara óþægilegum spurningum hjá fjölmiðlum landsins. Einnig verða þeir að sætta sig við það að þjóðin megi gagnrýna þá. Það sem ég sé í Sigmundi er ráðherra sem vill ekki eiga samskipti við ríkismiðil Íslands og hann sakar þjóðina um vænisýki ef við dirfumst til að gagnrýna hann eða krefjast svara. Því langar mig að spyrja, lýsir þetta manni sem er hæfur til að gegna stöðu forsætisráðherra?

Birting gagnanna í gær er í raun toppurinn á ísjakanum. Ef að stjórnarflokkarnir ætla að reyna að fara að klóra í bakkann með einhverjum réttlætingarsjónarmiðum þá verð ég því miður að telja það vanvirðingu gagnvart þjóðinni. Ég trúi því ekki að það sé bara hagræði í því að hafa peninga í einhverju aflandsfélagi í Panama. Hvað býr á bakvið þetta? Er verið að svíkja undan skatti? Ef það er ekki verið að svíkja undan skatti, til hvers þarftu að hafa peningana í félagi þar sem eignarréttur þinn er falinn? Treystirði ekki bankakerfinu á Íslandi eða íslensku krónunni? Þetta eru spurningar sem ég væri til í að fá svör við.

Eflaust mun Sjálfstæðisflokkurinn einnig reyna að koma fram með þau rök að það sé ekkert að því að eiga peninga. Það er ekkert að því að eiga peninga, en nenniði plís að borga skattana ykkar hér á landi og geyma peninginn í íslenskum krónum í íslenskum banka alveg eins og almúginn neyðist til þess að gera. Skattar fara í það að greiða fyrir velferðarkerfi en forsætisráðherra virtist reyndar ekki vita hvað velferðarkerfi væri í viðtalinu við sænska fréttamanninn.

Það að ráðherrar taki pólitíska ábyrgð á gjörðum sínum hefur aldrei verið vinsælt hjá íslenskum ráðherrum. En til samanburðar langar mig að benda á að í febrúar síðastliðnum sagði landbúnaðarráðherra Danmerkur, Eva Kjer Hansen, af sér vegna þess að hún notaði ekki nægilega góða útreikninga til grundvallar búvörusamningi. Veltum því aðeins fyrir okkur hvort er alvarlegra? Að nota ekki nógu góðar upplýsingar eða að vilja ekki tala við fréttamenn og fela milljarða í aflandsfélagi.

Næstu dagar verða allaveganna áhugaverðir í íslenskri pólitík, en munum að setja gagnrýnisgleraugun upp þegar spunavélarnar fara í gang.

Tenglar

Frétt um afsögn Evu Kjer Hansen

Kastljósþáttur 3. apríl 2016 

 

 

 

 

 

Published by

OlgaCilia

Bókmenntafræðingur og lögfræðinemi. Sit í framkvæmdaráði Pírata. Hér má lesa hugleiðingar mínar.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s