Búsið í búðir eða betri úrræði?

Síðustu vikur hefur verið til umræðu frumvarp um hvort leyfa eigi sölu áfengis í matvörubúðum. Hægt er að kynna sér frumvarpið hér, en breytingin myndi fela í sér að handhafar smásöluleyfis yrði heimilt að selja eða afhenda áfengi til neytenda eldri en 20 ára. Þetta má bara gera milli kl. 09 – 20. Þannig að í grunninn þá mætti fólk eftir breytinguna kaupa sér áfengi í búð á sunnudögum og gæti keypt áfengi á sama stað og það verslar í matinn. Það er spurning hversu mikið þetta auki aðgengi að áfengi. Ég ímyndaði mér alltaf að þetta ætti að vera eins og í Danmörku þar sem maður gæti gengið inn í 10-11 á hvaða tíma sólarhrings sem er og náð sér í nokkra bjóra. En það er víst fjarlægur veruleiki.

Einhverjir hafa gagnrýnt þetta aukna aðgengi almennings að víni, meðal annars með þeim rökum að þetta komi illa við fjölskyldur alkóhólista þar sem aukið aðgengi muni ýta undir notkun áfengis. Nú ætla ég ekki að gera lítið úr kvölum sem alkóhólistar og fjölskyldur þeirra þurfa að lifa með á hverjum degi. Hins vegar finnst mér það að banna almenna verslun með áfengi á sunnudögum ekki vera gott meðferðarúrræði. Fíklar munu alltaf finna leiðir til að uppfylla þarfir sínar og þar sem alkóhólismi er vissulega mikið vandamál á Íslandi og er það þrátt fyrir að ríkið hafi haft stjórn á sölu áfengis í öll þessi ár, þá leyfi ég mér að draga þá ályktun að það að hefta aðgengi fólks að tiltekinni vöru aðstoðar það ekki í baráttu sinni við þennan hræðilega sjúkdóm.

Væri ekki réttara að kalla eftir betri meðferðarúrræðum, niðurgreiddri sálfræðiþjónustu og betri aðgengi að grunnheilsugæslu frekar en að halda því fram að lokun Ríkisins á sunnudögum sé að aðstoða alkóhólista í að horfast í augu við hvað veldur fíkn þeirra.

Ef við samþykkjum aukið aðgengi að áfengi þá væri okkur nær að auka meðferðarúrræði fyrir fíknisjúkdóma í leiðinni. Núverandi fyrirkomulag á áfengissölu er ekki að koma í veg fyrir að alkóhólistar kaupi sér áfengi og ég held að þessi fyrirhugaða lagabreytingu muni ekki breyta neinu um stöðu fólks í samfélaginu. Krefjumst þess frekar að almennileg meðferðarúrræði standi fólki til boða því ekki erum við að fara að banna áfengi.