Trú og trúarbrögð

Fyrir þessi jól hef ég ákveðið að gera skýran greinarmun á trú og trúarbrögðum. Trúfrelsi er ein af birtingarmyndum skoðana- og tjáningarfrelsis. Einstaklingurinn hefur frelsi til þess að hugsa það sem viðkomandi vill og á ekki að líða mismunun vegna hugsana sinna eða tjáningu á þeim. Þannig er mér frjálst að hugsa að einhver sé bölvaður fáviti og segja það upphátt, svo lengi sem sú tjáning gengur ekki gegn almennum hegningarlögum. Það skiptir mig því engu máli hvort þú trúir á Guð, Allah, Búdda eða einhverja yfirnáttúrulega krafta. Ég skal meira að segja sýna fólki þá virðingu að fara ekki að rökræða við það um tilvist þessara fyrirbæra, enda kemur það mér ekkert við hvað fólk kýs að trúa á til þess að koma sér í gegnum lífið. Persónulega trúi ég á fólkið í kringum mig og fer reglulega til sálfræðings til að létta af mér því helsta sem er að angra sálina. Fólk finnur mismunandi leiðir til þess að takast á við lífið og það er vel.

Að þessu sögðu ætla ég að leyfa mér að gagnrýna trúarbrögð. Það er mikill munur á trú og trúarbrögðum. Ég get til dæmis trúað því að það hjálpi mér að fara reglulega til sálfræðings. Alveg eins og fólk hefur leitað huggunar í bænum og gömlum bókum í mörg hundruð ára. Sú trú byggir hins vegar ekki á óbilandi trú minni á einhvers konar valdapýramída innan sálfræðistéttarinnar. Trúarbrögð eru samansafn af hefðum og venjum sem samfélagið staðfestir reglulega að sé í lagi að viðgangist.

Helsta birtingarmynd trúarbragða er í einhvers konar stigskiptingu. Á toppnum trónir einstaklingur sem fær vald sitt frá einhvers konar almætti sem svo dreifir valdinu niður pýramídann. Neðst í pýramídanum er svo almenningur sem setur traust sitt á þá sem ofar sitja. Þetta skapar vissulega valdaójafnvægi og nýjasta dæmið um það hér á Íslandi er launahækkun biskups Íslands. Hún vill samt ekki tjá sig um hana og þeir sem hafa sett traust sitt á hana þora náttúrulega ekki að gagnrýna. Einnig má nefna dómsmálaráðherra sem dæmi, og í raun flesta einstaklinga innan íslenskra stjórnmála sem hafa nokkurn tímann gert eitthvað af sér í starfi. Þau eru með valdið og almenningur skal ekki dirfast að gagnrýna þau.

Meðvirkni og þolinmæði gagnvart valdníðslu grasserar nefnilega gríðarlega mikið innan svona stigskiptingar. Þetta birtist alls staðar í samfélaginu og er gagnrýnivert. Við skulum því ekki blanda saman trúnni og trúarbrögðunum. Alveg eins og við skulum ekki blanda saman stjórnmálasannfæringu og leiðtogadýrkun. Þegar við blindumst af ágæti tiltekinna einstaklinga þá missum við hæfileikann til þess að hugsa á gagnrýninn hátt.

Trúum því sem við viljum en leyfum ekki valdamiklum einstaklingum að gera lítið úr skoðunum okkar og trú með meðvirkni og þöggun. Þeir sem sitja á toppi pýramídans eru bara venjulegar manneskjur sem fá vald sitt frá okkur. Við skulum ekki gleyma því.

 

Framsækin umhverfisstefna Pírata

Píratar eru með gríðarlega framsækna stefnu í loftslagsmálum.

Það er svolítið grátlegt að tala um framsækna stefnu, þegar hennar helsta markmið er einfaldlega að Íslendingar standi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum gengist við. Einnig er ákall til stjórnvalda að axla ábyrgð á málaflokknum sem skilar markvissum og raunverulegum úrbótum til langs tíma. Þetta hljóta allir flokkar að vera sammála um.

Þetta þarf nefnilega ekki að vera flókið. Ísland á að vera leiðandi afl í umhverfismálum. Við höfum innviði, þekkingu og mannauð til þess að verða það. En einhver tregða hefur verið hjá stjórnvöldum að gera þetta að veruleika. Viljinn hefur frekar verið til þess að planta enn einu mengandi fyrirbæri einhvers staðar til þess að veiða atkvæði. Afhverju ekki að fjárfesta í mannauðnum sem býr hér í þessu landi og taka höndum saman við að þróa umhverfisvænar samgöngur, stunda rannsóknir á heimsmælikvarða um endurnýtanlega orkugjafa nú eða bara taka stórt skref í því að vernda þá einstöku náttúru sem fyrirfinnst hér á landinu.

Ég sat í pallborði Landverndar í Norræna húsinu fyrir viku síðan. Þar sátu flestir stjórnmálaflokkar fyrir svörum og einhugur var um að það þyrfti að gera eitthvað í þessum loftslagsmálum. Það er frábært að allir séu sammála um það. Ég vona því að á komandi kjörtímabili verði loftslagsmálin tekin föstum tökum. Tíminn er því miður að renna út og við munum þurfa að fara í miklu erfiðari aðgerðir seinna meir ef ekki er gripið í taumana núna.

Hér má lesa aðgerðaráætlun Pírata í loftslagsmálum: https://x.piratar.is/issue/313/

 

Setjum umhverfismál á oddinn!

Síðastliðið sumar á Íslandi var óvenju gott og höfum við vissulega gott af því að fá sól og hita í kroppinn. Það er leiðinlegt að vera fúl á móti þegar lífið er gott, en það getur ekki talist eðlilegt að á eyju í norður í Atlantshafi fari hitinn í 28 stig. Það er erfitt að líta til þess að loftslagsbreytingar séu að hafa slæm áhrif á heiminn í heild sinni þegar nærumhverfi okkar hefur ekki enn fengið að kenna eins mikið á óeðlilegum veðurfyrirbrigðum og önnur lönd. Loftslagsbreytingar hafa enn sem komið er ekki haft finnanleg áhrif á lífsviðurværi okkar Íslendinga. Þó að við viðrumst oft gleyma því þá eru hitabreytingar farnar að hafa áhrif á náttúru Íslands. Jöklar eru byrjaðir að hopa, hlýnun sjávar hefur haft áhrif á göngur fiska og sjáum við fram á breytingar í fuglalífi. (http://www.vedur.is/loftslag/loftslagsbreytingar/liklegar/).

Áhrif loftslagsbreytinga eru farnar að hafa gríðarlega hættuleg áhrif víðsvegar á hnettinum. Mannskæðir fellibyljir hafa riðið yfir karabíska hafið og Bandaríkin undanfarnar vikur, hvar fjölmargir hafa látist eða þurftu að yfirgefa heimili sín. Á sama tíma voru mestu flóð í Asíu í áratugi þar sem um 1000 manns létu lífið. Mikinn flóttamannastraum til Evrópu má einnig rekja að einhverju leyti til mikilla þurrka sem stefna lífsviðurværi fólks í hættu. (http://ruv.is/frett/loftslagsbreytingar-auka-likur-a-ofridi)

Íslensk stjórnvöld ættu að vera fremst í flokki varðandi umhverfisvernd með það fyrir augum að draga úr hlýnun jarðar. Því miður hefur stefna stjórnvalda ekki verið íí þáá átt að efla nýsköpun og umhverfisvænan iðnað. Þess í stað lúffum við fyrir mengandi stóriðjufyrirtækjum og berum fyrir okkur að við séum að bjarga landsbyggðinni. Mér sýnist fullreynt að nýta mengandi stóriðju til að bjarga smærri bæjarfélögum. Ég get ekki séð að ávinningurinn sé nógu mikill til að réttlæta að við spúum eiturefnum í andrúmsloftið og reisum forljótar verksmiðjur hér og þar. Auk þess eru gerðir svo óhagstæðir samningar við þessi fyrirtæki að ágóðinn er lítill sem enginn. Þetta er algjör vanvirðing við bæði land og þjóð. United Silicon er nýjasta dæmið, þar sem gerðir eru samningar á harðahlaupum til þess að efna léleg kosningaloforð, en þau eru orðin mýmörg.

Náttúrunni á Íslandi og í heiminum hefur ekki verið sýnd sú virðing sem hún á skilið og er því nauðsynlegt að samþykkja nýja stjórnarskrá þar sem heilt ákvæði gerir ráð fyrir vernd náttúrunnar. Í ákvæðinu segir meðal annars að „Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.“

Ég kalla því eftir að næsta ríkisstjórn myndi sér langtímastefnu um náttúruvernd með framtíð Íslands og heimsins alls í huga og hætti að líta á umhverfisvernd sem skiptimynt í kjördæmapoti sem enginn græðir á til lengri tíma litið. Það þarf einhver að gerast talsmaður umhverfisins. 

 

Með höfuðverk í hjartanu

Ef þú fótbrotnar, þá ferðu til læknis. Ef þú átt við andleg vandamál að stríða þá ferðu til sálfræðings. Þetta hljómar klippt og skorið en er það alls ekki. Ef þú fótbrotnar þá kemur sjúkrabíll að ná í þig, þú færð greiningu og viðeigandi meðferð. Eigir þú við þunglyndi að etja þá þarf einstaklingurinn sjálfur að leita uppi hentuga þjónustu. Jafnvel ef þú ert það langt leiddur að þú ert í sjálfsvígshættu þá þarftu að koma þér sjálfur upp á geðdeild og sannfæra geðteymi nógu mikið um slæma stöðu andlegs ástands þíns til þess að þú fáir aðstoð.

Eins og staðan er í dag er sálfræðiþjónusta ekki aðgengileg fyrir alla. Einn sálfræðitími kostar um það bil 14.000 krónur. Sumir eru það heppnir að geta fengið niðurgreiðslu frá stéttarfélagi. Sjálf hef ég þurft að leita mér aðstoðar sálfræðinga. Ég fann ekki fyrir miklum stuðningi frá kerfinu. Ég byrjaði á því að spyrja heimilislækni hvort að hún gæti vísað mér á geðlækni. Ég fékk þau svör að það væri nánast ómögulegt að fá tíma hjá geðlækni. Hún skrifaði þó upp á lyf fyrir mig og mælti með að ég myndi fara til sálfræðings samhliða lyfjatöku. En það er svo eitt, hvernig á manneskja sem er ekki í topp andlegu ástandi að finna út úr því að finna sér sálfræðing? Það var ekki fyrr en vinkona mín sem er félagsráðgjafi benti mér á heimasíðu þar sem ég gat leitað að sálfræðing sem hentaði mér, að ég lét slag standa. Þetta var um tveimur árum eftir að skrifað var upp á geðlyfin fyrir mig. Þetta er eins og að ég hefði gengið um með beinbrot í tvö ár og ekki fengið viðeigandi meðferð fyrr en að vinur minn hefði bent mér á að kannski væri réttast að ég léti lækni kíkja á brotið.

Afhverju er þessi tregða í samfélaginu að aðstoða einstaklinga við að takast á við andleg vandamál? Það er mín von og trú að ef að við gerum sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu aðgengilegri að við gætum komist að rótum svo margra vandamála. Til að mynda sækja þeir sem eiga við geðræn vandamál að stríða frekar í áfengi og eiturlyf. En við kennum alltaf lyfjunum og áfenginu um í staðinn fyrir að tækla vandamálið áður en það verður ógerlegt að eiga við það. Einnig hlýtur það að vera þjóðfélagslega hagkvæmt að fjárfesta í andlegri heilsu þjóðarinnar frá unga aldri í staðinn fyrir að vera alltaf að setja plástra á gapandi sár. 

Í stefnu Pírata er gert ráð fyrir að sálfræðiþjónusta verði niðurgreidd með sama hætti og önnur geðheilbrigðisþjónusta. Ég tel það vera fyrsta skrefið í að gefa fólki tækifæri á að takast á við sín andlegu vandamál. Annað skrefið væri að gera aðstoðina mun aðgengilegri og gefa fólki tækifæri á að takast á við vandamál sín með reisn. Það er erfitt að lítast í augu við sjálfan sig og viðurkenna að maður eigi við vanda að stríða. Við skulum hætta að gera lítið úr því fólki með því að benda þeim alltaf á lokaðar dyr.

  • Titill greinarinnar er fenginn að láni úr Englum alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson

#KÞBAVD

Ég er 4 ára. Ég segi leikskólakennara að það sé einn strákur á lóðinni með tyggjó (sem ég hélt að væri stranglega bannað). Hún gerir ekkert í því. Næstu ár myndi mér samt aldrei detta í hug að vera með tyggjó í kennslustund, því ég er svo dugleg að fylgja reglum. #KÞBAVD

Ég er 6 ára. Ég fæ þau skilaboð frá kennaranum mínum að ég eigi að passa upp á“ einn dreng í bekknum. Hann hlustar ekkert á mig í frímínútum og ég fer á sjúklegan bömmer yfir að hafa ekki farið eftir skýrum kröfum kennarans og eyði frímínútunum mínum í að reyna að hafa stjórn á þessum dreng, þegar ég hefði augljóslega átt að einbeita mér að því að skemmta sjálfri mér. #KÞBAVD

Ég er 8 ára. Það er strákur í bekknum okkar sem er búinn að ofsækja vinkonu mína það mikið að hún fær nóg og ræðst á hann. Hún er eina stelpan sem fer til skólastjórans það árið. Hún fær þau skilaboð að hún verði að róa sig niður. Strákurinn heldur áfram að ofsækja hana, hann var eflaust bara svona skotinn í henni.  #KÞBAVD

Ég er 10 ára. Vinkona mín er hrædd við að taka strætó heim. Það er einhver maður í hinu strætóskýlinu sem berar sig þegar hún er að bíða eftir strætó. Skilaboðin til mín: Leiddu þetta hjá þér. #KÞBAVD

Ég er 12 ára. Mér finnst mjög gaman í fótbolta. Bekkurinn minn hefur óheftan aðgang að fótboltavellinum einu sinni í viku. Ég röfla nógu mikið yfir þessu til að verða eina stelpan sem fær að vera með í fótbolta án þess að þurfa að væla um það daglega. Ég hætti í fótbolta stuttu síðar. #KÞBAVD

Ég er 14 ára. Í sundkennslu er eitthvað kríp sem horfir óþægilega mikið á stelpurnar í skólasundi. Á einum tímapunkti kemur þessi maður inn á sundbrautina þar sem við erum að synda og rennir sér„óvart“ yfir bekkjarsystur mína. Engin viðbrögð frá neinum. Í kjölfarið hugsaði ég: Já, ég ætla aldrei að vera með brjóstin á mér það áberandi að einhverjum gæti dottið í hug að koma óvart við þau. #KÞBAVD

Ég er 16 ára. Strákarnir geta talað óheflað um sjálfsfróun og hvað þeim finnst um hitt kynið. Sjálfsfróun kvenna er sjúklega mikið tabú og við skulum ekki dirfast að nefna hana á nafn, þá gætum við fengið druslustimpil á okkur. #KÞBAVD

Ég er 18 ára. Ég þarf í alvörunni að verja það í tíma að það skipti ekki máli þó að rannsóknir sýni að heilar kynjanna séu misjafnir að stærð; við séum í alvörunni jafn hæf til þess að takast á við sömu verkefni. Ég mæti mikilli mótstöðu við þessari hugmynd í tíma, það er enginn í kennslustofunni tilbúin að taka slaginn með mér. Ekki einu sinni kennarinn. #KÞBAVD

Ég er 20 ára. Nýútskrifuð úr menntaskóla og heyri óþarflega oft að ég get gert allt sem mig langar til. Á sama tíma er pressa frá samfélaginu um að ég finni mér maka, ákveði hversu mörg börn ég ætla að eiga og hvort ég sé ekki örugglega farin að safna mér fyrir íbúð. #KÞBAVD

Ég er 22 ára. Ég er að reyna að finna jafnvægið milli þess að vera sjálfstæð kona og reyna að uppfylla þær skyldur sem samfélagið setur á mig. Vinir mínir hjálpa mér í makaleit með því að tala um hvað menn, sem eru augljóslega með lægri tilfinningaþroska en ég, eru fullkomnir fyrir mig og ég ætti bara að byrja með hinum og þessum. Þegar ég mótmæli þá er ég ósanngjörn og með of háar kröfur. #KÞBAVD

Ég er 24 ára. Eftir að hafa orðið fyrir ýmis konar sálrænum áföllum, sem brutu á friðhelgi líkama míns og sálar, reyni ég að vera virk manneskja í samfélaginu. Ég fæ háðsglósur um af hverju ég sé í svona óhagnýtu námi og hvort ég þurfi ekki að finna mér mann bráðlega. Í sannleika sagt þá hefði ég ekki höndlað meira krefjandi nám og ég veit ekki hvernig karlmaður hefði gert allt betra fyrir mig á þessum tímapunkti. #KÞBAVD

Ég er 26 ára. Ég er komin heim eftir skiptinám í stórborg og er búin að upplifa óöryggið sem fylgir því að geta ekki labbað heim án þess að eiga það á hættu að einhver ráðist á mig. Ég er búin að læra að hafa varann á varðandi samskipti mín við alla, óháð kyni, því ég hef heyrt svo margar ógeðslegar sögur um hverju konur hafa lent í. En við skulum ekki dirfast að nefna þetta við karlmenn, því þá erum við að ráðast á karlkynið í heild sinni. #KÞBAVD

Ég er 28 ára. Ég er byrjuð í laganámi. Ég upplifi það að rödd mín er ekki jafn sterk og rödd allra strákanna sem eru nýútskrifaðir úr menntaskóla. Ég heyri karlkyns kennara hæla karlkyns nemendum fyrir BA og MA ritgerðir á meðan ég hlusta á konur með mér í námi gera lítið úr sínum eigin hugmyndum og ritgerðarefnum. Ég les að Hæstiréttur, sem er mestmegnis skipaður körlum, dæmi gróft kynferðisbrot gegn konu sem ofbeldisbrot, út af því að það getur bara alls ekki verið um nauðgun að ræða ef gerandi ætlaði sér ekki að fá kynferðislega fullnægingu út úr athöfninni. Ég verð vitni að því að aðrir löglærðir karlmenn verji þessa niðurstöðu í ljósi þess að lögin séu skýr, þrátt fyrir það að í greinargerð með ákvæði stendur að brot á friðhelgi kynfrelsis þolanda eigi að flokkast sem nauðgun. En það er náttúrlega kona sem túlkaði hlutina þannig og kona sem bendir réttilega á í dómsniðurstöðu að kannski ætti að taka tillit til upplifunar þolandans á aðstæðum. Þegar kona bendir á að feðraveldið sé allsráðandi í Hæstarétti fæ ég að heyra að við séum bara að misskilja virkni dómskerfisins. Við erum að tala um dómskerfi sem karlar hafa verið skipaðir til þess að sitja í, í meira en 100 ár, af öðrum karlmönnum. En ég er bara að misskilja. Augljóslega hafa karlar jafnmikinn skilning á samfélaginu eins og konur. Ég þarf bara að treysta þeim. #KÞBAVD

Ég er 30 ára. Ég er búin að leggja gríðarlega orku og tíma í að byggja sjálfa mig upp. Ég er búin að mennta mig, ég er búin að búa til jafnvægi inni á mínu heimili, ég er búin að neita að hella upp á kaffi þegar fundir eru haldnir, ég er búin að vera úti að skemmta mér og þurft að segja karlmönnum að hætta að elta mig, ég er búin að veita konum í kringum mig stuðning, ég er búin að þurfa að miðla málum milli karla og kvenna. Samt er enn sú krafa frá samfélaginu að ég haldi áfram, útskýri aftur í hverju misréttið felist, útskýra aftur að karlar tala að jafnaði meira en konur, útskýra hvernig kaffivélin virkar, útskýra að ég sé ekki að ráðast á alla karlmenn sem ég þekki þegar mig langar að brjóta niður feðraveldið. Ég er búin að gera allt sem ég get. Getur samfélagið núna tekið við kyndlinum, „lean in“ gagnvart konum og farið að líta á konur og karla sem jafninga. Ég er allavega búin að vera mjög dugleg við þetta allt saman. 

#KÞBAVD

 

Fjölmiðlafyrirtæki fylgist með okkur

Við virðumst lítið kippa okkur upp við það þessa dagana þegar við heyrum af því að fyrirtæki fylgist með netnotkun okkar og nýti þær upplýsingar sér í hag. Fram kom í fréttum RÚV nýverið (ruv.is: „Forstjóri 365: „Erum með réttin okkar megin“) að eitt stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins er að fylgjast með okkur. Með því framferði eru fyrirtæki komin út á hálan ís hvað varðar friðhelgi einkalífs okkar.

Hvað græða fyrirtæki á því að fylgjast með notendum sínum? Hegðun okkar á netinu segir mikið til um kauphegðun okkar. Fyrirtæki græða á því að við séum skilvirkari neytendur. 365 er ekki bara framleiðandi sjónvarpsefnis, heldur bjóða þeir upp á internet, síma og gefa út fréttablað. Segjum sem svo að þú sért með internettengingu hjá 365. Þeir fylgjast með notkun þinni þar og nýta upplýsingarnar sem þeir fá til þess að búa til fréttir sem þú vilt lesa. Þeir nota þær upplýsingar til þess að selja auglýsingar í blöðin sín. Einhverjum gæti fundist þetta léttvægt, en veltum því fyrir okkur hversu mikið vald fjölmiðlar hafa til dæmis á stjórnmálaumræðu. Það er í rauninni ekki alveg ljóst af þessari litlu frétt hvernig ferlið á sér stað, sem gerir þetta mjög tortryggilegt og maður fer að velta því fyrir sér hvort allt sé með felldu.

Ef nauðsynlegt þykir að skerða mannréttindi þá þarf að uppfylla tiltekin skilyrði. Stjórnarskráin tryggir þetta og ferlið á að koma í veg fyrir geðþóttaákvarðanir einkafyrirtækja og stjórnvalda.

Réttur fólks til einkalífs

Friðhelgi einkalífsins er tryggt  í 71. gr. stjórnarskrár Íslands. Í sömu grein segir að það megi takmarka þessi réttindi með lagaheimild ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. Því þarf að uppfylla þrjú skilyrði ef að stjórnvöld ætla sér að takmarka friðhelgi okkar.

Í fyrsta lagi kemur skýrt fram að það þurfi lagaheimild til. Það þýðir að löggjafinn þarf að samþykkja lög sem setja fram með skýrum hætti í hvaða tilvikum þessi réttindi megi vera skert og á hvaða hátt það sé gert. 11. kafli laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er dæmi um slíka lagaheimild. Þar segir að ef tilteknum skilyrðum sé uppfyllt þá megi lögreglan fylgjast með afmörkuðum samskiptum. Það gefur líka augaleið að það er lögreglan sem á að framkvæma þetta eftirlit. Lögreglan starfar innan afmarkaðs lagaramma. Þetta á að koma í veg fyrir að tilfallandi aðilar úti í bæ fari að fylgjast með fjarskiptum okkar. Alveg eins og tollverðir hafa leyfi til þess að leita í töskum okkar þegar við komum til landsins og barnaverndarnefnd hefur heimildir til þess að grípa inn í ef grunur leikur á um brot gegn börnum og svo mætti lengi upp telja. Þessar reglur eru til staðar til þess að vernda réttaröryggi okkar.

Í öðru lagi er talað um brýna nauðsyn. Það felur í sér að eitthvað mikið er í húfi. Þannig getur lögreglan til dæmis skorist í leikinn ef grunur leikur á um heimilisofbeldi, barnaverndarnefnd getur tekið börn af heimilum og tollverðir geta spurt þig hvað er í töskunni þinni. Þessi brýna nauðsyn byggir því á því að hagsmunir almennings séu að veði. Það er nátengt þriðja skilyrðinu sem er að réttindi annarra liggi við; réttindi maka til að vera laus við heimilisofbeldi og réttur barna til þess að mega alast upp við öruggt fjölskyldulíf. Þessar undanþágur eru til staðar til þess að vernda þá sem minna mega sín gagnvart ofurafli einhvers annars, til dæmis stórra einkafyrirtækja.

Þegar forstjóri fjölmiðlafyrirtækis segir að þau séu með réttin sín megin, vekur það upp ýmsar spurningar. Undanþágur frá verndun friðhelgi einkalífs eru háðar því að almannahagsmunir séu í húfi. Hér erum við með stórt fjölmiðlafyrirtæki sem telur sig eiga tiltekin réttindi. Vissulega er skiljanlegt að 365 er ósátt við að fólk sé að nálgast efnið þeirra ókeypis, en það breytir því ekki að aðferðir þeirra til að koma í veg fyrir það eru ólögmætar. Eins og þetta óljósa ferli er sett upp í frétt RÚV þá fær 365 upplýsingar frá FRÍSK (Félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði) um hverjir hafa sett inn framleiðsluefni þeirra á deiliveitur. Sem sagt, einhver starfsmaður FRÍSK sér að notandi, til dæmis „User12“, hefur hlaðið upp skránni Borgarstjórinn. FRÍSK kemur þessum upplýsingum áleiðis til 365 sem svo að eigin sögn einfaldlega skoða hverjir „mögulega geti verið þarna á bakvið“ og telja sig í fullum rétti til að fylgjast með IP-tölum. Í raun er enginn munur á því að fylgjast með IP-tölum og öðrum persónuupplýsingum, til dæmis að hlera símanúmer. Samkvæmt nýlegum úrskurði Evrópudómstólsins þá flokkast IP-tölur undir persónuupplýsingar. FRÍSK vinnur samkvæmt lögum nr. 62/2006 um kvikmyndaskoðun. Ekkert kemur fram í lögunum um að félagið hafi heimild til þess að fylgjast fjarskiptum okkar eða koma þeim upplýsingum áleiðis til annars aðila. 365 er fjölmiðlafyrirtæki. Þau starfa því samkvæmt lögum nr. 38/2011 um fjölmiðla. Ekkert í þeim lögum veitir fjölmiðlum leyfi til þess að fylgjast með fjarskiptum okkar.

Þetta er því vissulega ferli sem er á gráu svæði og sem internetnotandi og almennur borgari, þá hrís mér hugur að vita af því að fjölmiðlafyrirtæki, eða í raun hver sem er, gæti verið að fylgjast með því sem ég geri á internetinu. Þar sem þetta svo kallaða eftirlit þeirra er ekki bundið neinum reglum eða leyfum, hvernig getum við þá vitað hversu víðtækt það er í raun?

Eftirlit fyrirtækja með notendum

Eins og þetta lítur út, þá telur 365 sig geta fylgst með fjarskiptanotkun okkar, óháð því hvort við séum í áskrift af sjónvarpsstöðum þeirra eða nýtum okkur fjarskiptaþjónustu þeirra. Ekki að það væri hægt að afsaka þetta framferði eitthvað ef þeir miðuðu þessa gagnasöfnun einungis að eigin notendum. 365 er í eigu hagsmunaaðila. Langstærsti eigandinn er Ingibjörg Pálmadóttir, sem stundar víðtæk viðskipti og á alls konar önnur félög. Það gefur augaleið að hún og félög í hennar eigu eiga mikilla hagsmuna að gæta, bæði hvað varðar stjórnmálaumhverfi og hegðun neytenda. Það er stórhættulegt ef valdamiklir aðilar telja sig geta fylgst með fjarskiptanotkun almennings. Og getum við verið viss um að fjölmiðlafyrirtæki sem nýtir sér þessar upplýsingar, sé ekki að deila þeim með eigendum sínum sem geta svo deilt þeim áfram til annarra fyrirtækja í sinni eigu?

Miðað við hvað ferlið sem forstjóri 365 lýsir í greininni er óljóst og virðist ekki byggt á neinum einustu heimildum þá veltir maður því fyrir sér hvaða aðrar upplýsingar þeir telja sig mega nýta og dreifa með öðrum. Mun ég fá heimsókn frá starfsmanni 365 sem athugar hvort að auglýsingar Fréttablaðsins séu að skila árangri? Er ég að drekka nóg kók, borða nógu mikið af KFC og kjósa rétta stjórnmálaflokkinn? Eftirlit með almennum borgara er alltaf eftirlit með almennum borgara, sama þó það fari fram í gegnum internet, síma eða öryggismyndavélar. Þó að forstjóri fyrirtækis haldi því fram að þeir séu með réttin sín megin, þá megum við ekki gleyma því að mannréttindi eru til þess að vernda okkur gagnvart yfirgangi einkafyrirtækja. Við eigum tiltekin réttindi og eigum að fá að njóta þeirra í friði. Það er stórhættulegt ef fyrirtæki telja sig mega fylgjast með og stýra internetnotkun okkar.  Það er vonandi að Persónuvernd stígi inn í þetta sem fyrst og að réttur okkar á internetinu verði tryggður með lögum. Það er óviðunandi ástand að við getum ekki talið okkur örugg á internetinu, alveg eins og að það væri óviðunandi ef aðili frá fyrirtæki myndi liggja á glugganum hjá okkur og fylgjast með hegðun okkar. Rétturinn á alltaf að vera okkar megin.

Pistillinn birtist í Kvennablaðinu 12. desember 2016

Hið svokallaða lýðræði

 

Lýðræði felur í sér að almenningur tekur þátt í ákvörðunum er hann varðar. Á Íslandi er þetta lýðræði búið að þróast út á svo ótrúlega skrítnar brautir. Við fáum að kjósa á fjögurra ára fresti. Einhverjir flokkar fá meirihluta og næstu fjögur árin fær sá meirihluti að taka allar mikilvægar ákvarðanir er varða réttindi og skyldur borgaranna. Löggjafarvaldið gerir þetta með lagasetningu. Lagasetning er flókið fyrirbæri og getur tekið langan tíma. Það þarf að gera kostnaðaráætlanir, skoða alla vinkla er tengjast málefninu og þar fram eftir götunum. Eftir að frumvarp hefur verið samið, sem gerist oftast í einhverju lokuðu bakherbergi með hagsmunaaðilum, er það lagt fyrir Alþingi til samþykkis eða synjunar. Þar fara fram þrjár umræður og unnt er að leggja fram breytingartillögur. Ef breytingartillögurnar hugnast meirihlutanum þá fara þær í gegn. Að loknum þessum umræðum er frumvarpið lagt fyrir Alþingi til samþykkis eða synjunar. Samkvæmt Stjórnarskránni ætti hver þingmaður að kjósa eftir eigin sannfæringu á þessu stigi. Raunin er hins vegar sú að meirihlutaræðið á Íslandi er svo fast í sessi að það er í raun ómögulegt að fella frumvörp nema mikið almennt ósætti sé um það. Og jafnvel þá gerist ekkert. Til dæmis fóru Búvörulögin í gegnum Alþingi um daginn. Minnihlutinn fékk mikla gagnrýni á sig fyrir að kjósa ekki nei með samningnum. Ef það hefði verið gert hefði það auðvitað sýnt meiri samstöðu gegn þessum lögum, en ég leyfi mér að fullyrða að ef meirihlutinn hefði vitað að minnihlutinn ætlaði að kjósa nei, þá hefðu þeir smalað já fólki í salinn. Þessi lög hefðu (því miður) alltaf farið í gegnum Alþingi. Það hefur komið hörð gagnrýni á Búvörusamninginn frá því að hann var kynntur í vor, en þeir sem höfðu staðið að því að semja hann sögðu að það væru bara því miður of seint að breyta núna. En afsakið, afhverju fékk fólk ekki meira ráðrúm að koma með gagnrýni á þennan blessaða samning. Það geta vissulega allir sent inn álit á frumvörp, en afhverju að hafa fyrir því ef nefndin segir svo bara: „Sorry, not sorry.“

Það sama er að gerast með LÍN frumvarpið. Hörð gagnrýni hefur komið fram á frumvarpið. Efnisleg og formlega. Efnislega er því haldið fram að þetta frumvarp sé ekki að fara að bæta hag nemenda, heldur íþyngja þeim ef eitthvað er. Varðandi formhliðina hefur verið gefinn alltof stuttur tími til þess að koma með athugasemdir. Þrátt fyrir allar þær athugasemdir sem fram hafa komið á frumvarpið er líklegast að frumvarpið verði samþykkt. Afhverju? Jú, því meirihlutinn stendur saman.

Þannig að ég spyr, er meirihlutaræði besta leiðin til þess að stuðla að virku lýðræði. Núverandi ríkisstjórn hlaut eitthvað um 50% af atkvæðum í síðustu kosningu, og þeir sem þar sitja geta komið með alls konar frumvörp og fengið þau samþykkt á grundvelli einhvers stjórnarsáttmála. En hvað ef það koma fram frumvörp sem eru einfaldlega illa framsett og ekki í hag almennings? Eina leiðin fyrir almenning til þess að hafa áhrif er að biðla til forseta um að neita að skrifa undir lögin. Ef nógu margar undirskriftir safnast þá hefur forsetinn einn vald til þess að ákveða hvort hann telji undirskriftirnar nógu margar eða ekki.

Margir hafa spurt Pírata síðustu misserin með hverjum við myndum vilja fara í ríkisstjórn. Persónulega myndi ég vilja sjá róttækar breytingar í hver virkni ríkisstjórnarinnar og meirihlutans eigi að vera. Píratar leggja mikla áherslu á að þingmenn kjósi eftir eigin sannfæringu og ég vona að fleiri flokkar taki upp á því á næsta kjörtímabili. Til hvers erum við með minnihluta (sem er, rétt eins og meirihlutinn með ca. 50% þingsæta á Alþingi) ef hann hefur engin úrræði til þess að fá frumvörp felld eða samþykkt. Ef eina tæki minnihlutans til þess að koma einhverju á framfæri á þingi er málþóf, þá er eitthvað mikið að.

Einhvern veginn þarf að auka aðkomu almennings að gerða lagafrumvarpa. Þessi afsökun um að það sé of seint að breyta einhverju finnst mér vera hræðileg afsökun og merki um það að þeir sem sömdu þau höfðu ekki áhuga á að hlusta á gagnrýni til að byrja með. Mögulega er ein leið til þess að komast hjá þessu í framtíðinni að hætta að líta á minnihlutann og meirihlutann sem íþróttalið sem eru í keppni og fara að stuðla að meiri samvinnu allra þeirra sem sitja á þingi. Fólk hefur líka kosið þau sem sitja í minnihlutanum og raddir þeirra eiga líka að fá að heyrast. Annars munum við alltaf búa í með eða á móti samfélagi.

Pínu væmni við lok prófkjörs

Má ég ekki vera pínu væmin síðasta daginn í prófkjöri? Mér líður allavega eins og að jólin séu að koma kl. 18 í dag og ég hlakka mikið til að sjá hvað kemur upp úr “kjörkössunum.”

Hjá mér hófst þetta ferðalag fyrir um einu og hálfu ári síðan. Eins og svo margir aðrir, var ég komin með nóg af Íslandi og hugði á landflótta. Ég ákvað þó að snúa vörn í sókn og gekk í Pírata. Þar var tekið vel á móti mér og endaði ég sem aðalamaður í framkvæmdaráði á aðalfundi 2015. Þar gegndi ég fyrst stöðu ritara og svo stöðu formanns. Ég lærði fullt af því að vera í framkvæmdaráði. Ég lærði hvað hópavinna getur verið frábær og að stundum þarf maður að hlusta á fólk þó að maður sé pirrað út í það. Það mikilvægasta sem ég lærði er þó að það er betra að eyða orku sinni í að finna lausnir á vandamálum í staðinn fyrir að nöldra yfir þeim. Auk þess er ég búin að kynnast mikið af frábæru fólki, sem ég hlakka til að vinna með í komandi kosningabaráttu og vonandi á Alþingi ef ég verð heppin.

En afhverju langar mig að fara á þing? Ég veit að þetta er mjög erfitt starf; langir vinnutímar, lestur gagna og fundarsetur. Í fyrsta lagi held ég að þetta verði ekkert mál ef maður er með gott fólk í kringum sig. Í öðru lagi, ef það er eitthvað sem ég hef lært af skólagöngu minni þá er það að sitja lengi og lesa mikið. Það sem drífur mig þó áfram er vilji til þess að breyta einhverju. Einkahagsmunir hafa trompað almannahagsmuni í alltof mörg ár á Íslandi. Það er kominn tími á að hagur almennings sé settur í forgang og að við förum í sameiginlegt átak í að losa okkur við meðvirkni gagnvart auðmönnum. Peningar eiga ekki að stjórna lýðræðinu, heldur fólkið í landinu. Ég átta mig á þeirri von sem er tengd við Pírata, að við munum knýja fram breytingar í íslensku samfélagi. Og ég vona innilega að við getum staðið undir þessum væntingum. Ég mun allavega gefa allt mitt í það verkefni.

Mér finnst þessi hugsun endurspeglast í prófkjöri Pírata. Það eru ekki fyrirtæki sem standa á bakvið frambjóðendur með peningastyrkjum. Við erum öll að gera þetta á eigin tíma og mörg hver með vinnu. Það er enginn á launum frá flokknum við að kynna sig. Þeir sem eru í prófkjöri eru að gera það á eigin forsendum og nýta eigið hugarafl í að koma sér á framfæri.

Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem komu að prófkjörinu. Svona batterí verður ekki að raunveruleika í einhverju tómarúmi. Margir eru búnir að vinna lengi að því að gera þetta vel; kynningar á frambjóðendum, láta kosningakerfið virka sem skildi, skipulag á kynningarfundum og svo mætti lengi telja.

Ég vil því þakka Bjarna forritara, Bylgju framkvæmdastjóra, Jóhanni kosningastjóra, framkvæmdaráði (bæði mínu framkvæmdaráði og það sem starfar nú), stjórn Pírata í Reykjavík, gengið á bakvið stefnumot.piratar.is og örugglega einhverjir fleiri. Takk fyrir! Með svona lið á bakvið sig er ekkert mál að rúlla upp eins og einni kosningabaráttu. Vonandi fæ ég tækifæri til að vinna áfram með ykkur.

Að lokum vil ég minna á að hægt er að kjósa í prófkjöri Pírata á x.piratar.is til klukkan 18 í dag.

Yarrrrr!!!!!

 

Kjöt og skordýr

Það hefur oft vakið hjá mér furðu hvað lítið er talað um hlýnun jarðar og umhverfismál hér á Íslandi. Við erum ekki fullkomin frekar en aðrar þjóðir í þessum málum. Mér fannst þögnin öskrandi í desember síðastliðnum, þegar ný markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt. Til þess að ná þessum markmiðum skrifuðum þjóðir heims undir Parísarsamkomulagið sem skuldbindur þær til þess að halda hlýnun jarðar af mannavöldum innan 2 gráðna marksins og jafnvel undir 1,5 gráðum.

Hlýnun jarðar er eitt stærsta verkefnið sem þjóðir heims þurfa að takast á við. Áhrif á hlýnun jarðar eru nú þegar augljós. Þurrkar, flóð, vatnsskortur og önnur ofsafengin veðurfyrirbæri. Sumarið á Íslandi er búið að vera óvenju hlýtt, við fögnum því auðvitað, en höfum samt í huga að þetta er ekki eðlilegt og ástæðan að öllum líkindum hlýnun loftslags á heimsvísu.

En þetta er kannski ástæðan fyrir því að á Íslandi er ekki talað mikið um hlýnun jarðar. Við tökum ekki eftir henni í okkar daglega lífi og fögnum auðvitað þegar veðrið er gott. Þetta skeytingarleysi birtist mjög greinilega í hegðun fyrirsvarsmanna landsins. Mér er minnistætt þegar Sigmundur Davíð talaði um að hlýnun jarðar fæli í sér spennandi sóknarfæri fyrir Íslendinga. Í Búvörusamningnum er talað um að auka kjötframleiðslu og fara að flytja inn fósturvísa til þess að hefja nautgriparæktun hér á landi. Það er í hæsta máta undarlegt, enda er gríðarlegt auðlindafrekt að rækta nautakjöt. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur auk þess mælt með því að íbúar jarðarinnar líti í auknu mæli til skordýra til þess að uppfylla prótínþörf sinni.

Ég myndi vilja sjá Ísland fremst meðal þjóða í að tryggja sjálfbært fæðuöryggi. Við eigum að styðja við fólk sem vill koma með nýstárlegar hugmyndir varðandi fæðu á markað. Eitt slíkt fyrirtæki er Jungle Bar sem eru búnir að búa til próteinstykki úr krybbyhveiti. Stykkin eru ófáanleg á Íslandi því að ráðherra ákvað að innleiða Evrópureglugerð frá 1997 í október 2015. Með reglugerðinni var ómögulegt fyrir fyrirtækið að selja stykkin hér á landi. Þau njóta þau mikilla vinsælda, t.d. í Bandaríkjunum. Í stað þess að sjá sóknarfæri í nýsköpun á matvælamarkaði, var frábær hugmynd barin niður af stjórnvöldum.

Einnig eigum við hér á landi fullt af jarðvarma sem væri hægt að nýta í ýmis konar ræktun. Þó að ég sé hlynnt því að flytja inn matvöru erlendis frá, með það fyrir augum að auka vöruúrval fyrir neytendur, þá skilur sá flutningur eftir gríðarlega stór vistspor sem ýta undir hlýnuna jarðar. Við þurfum að fara að skoða stöðu Íslands í heildarsamhenginu og taka upplýstar ákvarðanir hver næstu skref okkar eiga að vera í að tryggja fæðuöryggi og sporna við hlýnun jarðar.

Gleðilega hátíð!

Gleðilega hátíð kæru vinir!

Einstaklingur fæðist með ákveðin einkenni sem hann ræður engu um. Útlit, kyn og kynhneigð. Þetta eru þættir sem einstaklingurinn hefur enga stjórn á. Þess vegna hefur mér alltaf fundist undarlegt þegar fólk er sett út á jaðarinn og fær ekki að vera virkir samfélagsþegnar vegna meðfæddra einkenna sinna. Það er líka merkilegt að við sem samfélag höfum búið okkur til ákveðna skala til þess að meta einstaklinga út frá. Þannig myndast fordómar vegna meðfæddra eiginleika einstaklinga út frá hugmyndum sem myndast í samfélaginu.

Hvernig myndast þessir skalar? Jú, við fólkið sem búum í samfélagi búum þá til. Um leið og það er ákveðið að einhver tiltekinn meðfæddur eiginleiki er rangur, þá fer samfélagið smátt og smátt að trúa því. Hver ákvað til dæmis að konur væru réttlægri samfélagsþegnar en karlar og að útlit þeirra skipti meira máli en karlmanna?

Við getum ekki stjórnað meðfæddum eiginleikum. Við getum hins vegar haft mikil áhrif á samfélagsleg viðhorf. Við getum metið einstaklinga út frá því hvernig þeir haga sér. Að stimpla einstakling út frá eiginleikum sem hann hefur enga stjórn á er heimskulegt.

Hættum að líta svona mikið á kyn og kynhneigð þegar við metum samferðafólk okkar. Það kemur okkur ekkert við hjá hverjum fólk sefur, býr með eða elskar. Einnig kemur það okkur ekkert við hvar á kyn eða kynhneigðarrófinu annað fólk upplifir sig. Ef báðir eða allir einstaklingar eru samþykkir, þá er ekkert vandamál til staðar og við höfum ekkert með það að gera að skipta okkur af því.

Ég tel að ef við leyfum einstaklingum að vera eins og þeir vilja þá verði samfélagið betra. Reykjavík Pride er mikilvægur viðburður til þess að breyta þessum samfélagslegu viðmiðum. Þess vegna vona ég að sem flestir taki þátt, eigi umræður um málefnið og að við fáum öll tækifæri til þess að vera við sjálf.